Viðskipti innlent

Salome til Transition Labs

Atli Ísleifsson skrifar
Salome Hallfreðsdóttir.
Salome Hallfreðsdóttir. Aðsend

Salome Hallfreðsdóttir hefur gengið til liðs við loftslagsfyrirtækið Transition Labs og verður framkvæmdastjóri nýstofnaðs dótturfélags þess sem nefnist Röst sjávarrannsóknasetur ehf.

Í tilkynningu kemur fram að Salome hafi mikla reynslu á sviði umhverfis-, sjálfbærni- og loftslagsmála. Hún komi til Transition Labs frá matvælaráðuneytinu þar sem hún hafi sérfræðingur á skrifstofu sjálfbærni.

„Hlutverk Salome verður að byggja upp starfsemi Rastar í samstarfi við Carbon to Sea Initiative sem er óhagnaðardrifin bandarísk sjálfseignarstofnun. Markmiðið er að efla alþjóðlegar rannsóknir og þekkingu á hlutverki hafsins við að fanga og binda gróðurhúsalofttegundir úr andrúmsloftinu.

Áður hefur Salome starfað sem sérfræðingur í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, ráðgjafi í umhverfismálum hjá Environice og sem verkefnastjóri og síðar framkvæmdastjóri Landverndar.

Salome er umhverfisfræðingur að mennt. Hún lauk B.Ed. gráðu í kennslu náttúrugreina í Kennaraháskóla Íslands árið 2005 og árið 2011 lauk hún M.Sc gráðu í umhverfisfræðum frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð,“ segir í tilkynningunni.

Um Transition Labs segir að félagið leiti uppi framúrskarandi erlend loftslagsverkefni, aðstoði við að koma þeim á legg hér á landi og auðveldi þeim að skala fyrirtækin upp í rekstrarhæfa stærð. Fyrirtækið á í samstarfi við sum af metnaðarfyllstu loftslagsverkefnum heims. Að baki stofnun Transition Labs standa Davíð Helgason, stofnandi Unity og Kjartan Örn Ólafsson, frumkvöðull og tæknifjárfestir.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×