Neytendur

Páska­egg hækkað um allt að 22 prósent á milli ára

Lovísa Arnardóttir skrifar
Það styttist í páskana.
Það styttist í páskana. Vísir/Vilhelm

Páskaegg eru ódýrust í Bónus en dýrust í 10-11. Verð á páskaeggjum hefur hækkað um 3 til 22 prósent frá því í fyrra

Minni munur er á verði á páskaeggjum milli verslana en á öðru sælgæti samkvæmt nýrri könnun verðlagseftirlits ASÍ. Til dæmis er verð á páskaeggjum að meðaltali 40 prósent hærra í 10-11 en þar sem þau eru ódýrust á meðan verð á öðru sælgæti þar er að meðaltali tvöfalt dýrara en þar sem það er ódýrast.

Lítill munur er á verði á páskaeggjum í fimm verslunum sem eru 0 til 7 prósent frá lægsta verði. Oftast er um nokkurra krónu verðmun að ræða milli verslana þó að verðmunurinn sé meiri í krónum talið í sumum tilfellum.

Í tilkynningu frá ASÍ kemur fram að páskaeggin séu ódýrust í Bónus en þar á eftir komi Kjörbúðin, Nettó og Krónan. Í þeim verslunum var verð oft lægst eða aðeins nokkrum krónum frá lægsta verði. Í Kjörbúðinni var mest 7 prósentustiga munur á lægsta verði, á Nóa páskaeggi nr. 3, en í Nettó skáru fjögur piparegg í kassa frá Góu sig úr; þau kostuðu 44 prósent meira en í Bónus.

Önnur verð í þessum fjórum verslunum voru að jafnaði um 0 til 7 prósent frá lægsta verði. Fjarðarkaup var fimmta ódýrasta verslunin þegar kom að páskaeggjum. Þar kostuðu eggin að meðaltali 150 krónum meira en þar sem þau voru ódýrust og var Fjarðarkaup að meðaltali 7 prósent frá lægsta verði.

Hæst í 10-11

Verð á páskaeggjum var hæst í 10-11, að meðaltali 42 prósent frá lægsta verði. Verð á páskaeggjum í Krambúðinni og Iceland var að meðaltali 33 prósent frá lægsta verði og 22 prósent í Hagkaup og Extra. Páskaeggjaúrvalið er mismikið eftir verslunum og eru páskaegg frá Nóa Síríus auðfundnust.

Þá kemur fram að verð á páskaeggjum hefur hækkað um 3 til 22 prósent frá því í fyrra, minnst í Kjörbúðinni en mest í Iceland. Ef litið er á hækkanir frá 2022 hefur verð á páskaeggjum hækkað mest í Hagkaupum, eða um þriðjung og minnst í Kjörbúðinni, um 12 prósent.

Hér fyrir neðan má sjá hækkanir á páskaeggjum frá 2023 og 2022

Hér má sjá breytingar á milli ára.

Í tilkynningu ASÍ er einnig farið yfir verð á Nóa kroppi en kílóverð þess var rætt í Facebook-hópi verðlagseftirlitsins, Vertu á verði, í liðinni viku. Ýmsar stærðir og gerðir eru til af Nóa kroppi en í þeim verslunum sem þessi könnun náði til var lægsta kílóverðið að finna á 240 gramma poka sem kaupa má í Bónus, 2.329 kr./kg.

Þá segir að vert sé er að nefna að 900 gr kropp-pokinn í Costco er þó talsvert ódýrari, eða 1.610 kr./kg. Costco er aðeins aðgengilegt handhöfum aðildarkorts.

Könnunin var framkvæmd 21. febrúar 2024. Í samanburði á sælgætisverði voru 92 vörur. Aðeins er um beinan verðsamanburð að ræða, ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×