Neytendur

Mega ekki banna skil á ó­inn­sigluðum unaðs­vörum

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Neytendastofnun hefur gefið fyrirtækjunum Adam og Evu og Losta fyrirmæli um að gera úrbætur á skilmálum sínum vegna fjarsölu.
Neytendastofnun hefur gefið fyrirtækjunum Adam og Evu og Losta fyrirmæli um að gera úrbætur á skilmálum sínum vegna fjarsölu. vísir

Neytendastofa hefur gefið tveimur unaðsvöruverslunum fyrirmæli um að gera úrbætur á skilmálum sínum um rétt neytenda til að skila vöru sem keypt er í fjarsölu. Aðeins megi meina neytendum að skila vöru ef hún er innsigluð og skilmálar þess efnis skýrir.

Þetta segir í tilkynningu frá Neytendastofu. Þar kemur fram að Neytendastofa hafi haft til skoðunar skilmála unaðsvöruverslana við fjarsölu og sent athugasemdir til ellefu fyrirtækja og óskaði eftir skýringum.

Stofnunin hefur nú lokið ákvörðun gagnvart tveimur fyrirtækjum, Adam og Evu og Losta, þar sem skilmálar voru ekki í samræmi við lög og gefið þeim fyrirmæli um að gera úrbætur á skilmálum sínum. Önnur mál séu enn til meðferðar.

Takmörkuðu rétt neytenda umfram lög

Athugasemdir Neytendastofu snúa að því að aðlaga þurfi skilmála um rétt til að falla frá samningi þannig að rétturinn sé ekki takmarkaður umfram ákvæði laga. Samkvæmt lögum hafa neytendur ekki rétt til að skila vöru sem keypt er í fjarsölu ef hún er innsigluð af hreinlætis- og lýðheilsusjónarmiðum. 

Neytendastofa telur þessa undanþágu eiga við um margar vörur frá verslununum en til þess að undanþágan gildi þurfi varan að vera innsigluð og skilmálar um skilin skýrir. Ekki sé heldur hægt að takmarka rétt neytenda til að falla frá samningi þó varan hafi verið keypt á útsölu.

„Bæði fyrirtækin hafa verið í samskiptum við Neytendastofu í kjölfar ákvarðananna og er vinna við úrbætur í fullum gangi,“ segir í tilkynningunni.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×