Körfubolti

Saka Njarðvíkinga um að falsa undir­skrift

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Keflvíkingar saka Njarðvíkinga um að falsa undirskrift vegna félagaskipta Írenu Sólar Jónsdóttur.
Keflvíkingar saka Njarðvíkinga um að falsa undirskrift vegna félagaskipta Írenu Sólar Jónsdóttur. grafík/sara

Keflvíkingar eru ósáttir við vinnubrögð Njarðvíkinga vegna nýlegra félagaskipta körfuboltakonunnar Írenu Sólar Jónsdóttur. Þeir hafa sent inn kvörtun til KKÍ vegna falsaðrar undirskriftar.

Á dögunum gekk Írena í raðir Njarðvíkur frá Keflavíkur. Lítil ánægja er hjá Keflvíkingum með hvernig Njarðvíkingar stóðu að félagaskiptunum. Þeir segja að fulltrúi Njarðvíkur hafi skrifað nafn varaformanns körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, Ingva Þórs Hákonarsonar, undir félagaskiptin, án þess að láta hann vita. Og málið er núna komið inn á borð KKÍ.

„Það var leitað til mín og ég staðfesti að ég skrifaði ekki undir þetta. Annað er bara í höndum KKÍ,“ sagði Ingvi í samtali við Vísi í dag.

Írena skipti yfir til Njarðvíkur frá Keflavík á miðvikudaginn í síðustu viku, á síðustu stundu, áður en félagaskiptaglugganum var lokað. 

„Nafn mitt var ritað á þessi skipti án minnar vitundar. Morguninn eftir létu Njarðvíkingar mig vita að þeir hefðu gert þetta í einhverjum flýti,“ sagði Ingvi.

„Ég veit ekki hversu þekkt það er að þú lætur kvitta fyrir þig en þá finnst mér alltaf við hæfi að viðkomandi viti af því. Við hefðum aldrei staðið í vegi fyrir þessum félagaskiptum en það var bara kvittað undir án þess að tala við okkur, hver svo sem ástæðan var,“ sagði Ingvi.

Keflavík og Njarðvík enduðu í tveimur efstu sætum í fyrri hluta Subway deildar kvenna. Keflvíkingar fengu 28 stig en Njarðvíkingar 26.

Írena lék níu leiki með Keflavík áður en hún skipti yfir í Njarðvík. Hún spilaði 7,3 mínútur að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×