Neytendur

Vika til stefnu fyrir þá sem vilja sleppa við 20 þúsund króna sekt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eigendur Teslu sem telja nokkur þúsund hér á landi eru á meðal þeirra sem þurfa að skrá kílómetrastöðu sína.
Eigendur Teslu sem telja nokkur þúsund hér á landi eru á meðal þeirra sem þurfa að skrá kílómetrastöðu sína. Vísir/Vilhelm

Rétt tæplega 93% þeirra sem eiga rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla hafa nú skráð kílómetrastöðu á Mínum síðum Ísland.is eða í Ísland.is appinu. Að morgni miðvikudags hafði kílómetrastaða ríflega 47 þúsund bíla verið skráð.

Þetta kemur fram á vef fjármálaráðuneytisins.

Um áramótin tók gildi kílómetragjald fyrir notkun slíkra bíla og höfðu eigendur og umráðaaðilar ákveðinn frest til að skrá kílómetrastöðuna. Samkvæmt hinum nýju lögum verður lagt 20 þúsund króna vanskráningargjald á þá sem ekki hafa skilað inn álestri þann 30. janúar. Á vef ráðuneytisins er þó nefnd dagsetningin 31. janúar.

Kílómetragjaldið byggir á fjölda ekinna kílómetra og því munu þau greiða sem nota vegakerfið. Gjaldið verður 6 krónur/kílómetra fyrir rafmagns- og vetnisbíla en 2 krónur/kílómetra fyrir tengiltvinnbíla. Frekari upplýsingar um framtíðarsýn og breytingar á gjaldtöku í vegasamgöngum má nálgast á vegirokkarallra.is.

Fyrsti gjalddagi vegna kílómetragjalds er 1. febrúar og eindagi 14 dögum síðar. Þau sem ekki skrá bíla sína fá reikning fyrir áætlaðri notkun sem miðast við meðalakstur fólksbíls og samsvarar rétt rúmlega sjö þúsund krónum á mánuði. Með skráningu á kílómetrastöðu á Ísland.is munu greiðslur endurspegla notkun bíls.

Stjórnvöld segjast munu halda áfram að styðja við kaup á rafmagns- og vetnisbílum þó að form stuðningsins hafi breyst um áramótin. Veittur verði beinn stuðningur við kaup á slíkum bílum í stað ívilnunar í virðisaukaskatti. Orkusjóður mun annast afgreiðslu styrkjanna. Umsækjendur sækja um með stafrænum hætti á Mínum síðum á Ísland.is. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×