Neytendur

Drykkjar­vörur og konfekt hækka mest

Margrét Björk Jónsdóttir og Lovísa Arnardóttir skrifa
Nær öll matvara hefur hækkað á milli ára, samkvæmt nýrri verðkönnun ASÍ.
Nær öll matvara hefur hækkað á milli ára, samkvæmt nýrri verðkönnun ASÍ. Vísir/Vilhelm

Dæmi eru um að verð á jólamatvörum hafi hækkað um tugi prósenta á milli ára. Samkvæmt nýrri verðkönnun ASÍ hefur jólamaturinn hækkað um allt að 17 prósent. Landsmenn finna misvel fyrir hækkuninni.

ASÍ safnaði verðum þann 13. desember síðastliðinn og báru saman við verð í sambærilegri könnun sem framkvæmd var sama dag, ári áður. Vísitala matvöruverðs hækkaði um 11% á tímabilinu.

Verð hækkaði mest í versl­un­inni Ice­land, þar sem matvaran hækkaði að meðaltali um 17 prósent.  Drykkjarvörur í Iceland voru sá flokkur sem mest hækkaði í verði, eða um 48 prósent. Matur í Heimkaup­um hækkaði minnst, að meðaltali um 6 prósent. Þá hafði Hagkaup hækkað verð á 95 prósent af vörum sínum á milli ára. 

Verð á drykkjarvöru og konfekti hækkar mest

Hækkunin er misjöfn milli verslana en dæmi eru um að Machintosdolla hafi hækkað um 45 prósent, lambahryggur um 35 prósent og appelsín um 50 prósent.

Fréttastofa fór á stúfana í dag og ræddi við nokkra einstaklinga um hækkanirnar og hvort þær hefðu áhrif á þeirra innkaup.

„Maður er að passa sig og halda betur utan um peningana. Það verður leyft sér minna,“ sagði Petrea. Hún sagðist helst skera niður í gjafa-og matarinnkaupum fyrir jólin.

Ingjbjörg Óðinsdóttir sagði hækkað matarverð hafa áhrif á sig allt árið um kring, ekki bara nú fyrir jólinn. Matseðilinn hefði breyst, hún keypti minna kjöt og aðrar dýrar vörur.

Sita tók í svipaðan streng og sagðist takmarka það sem hún keypti. Hún kaupir inn fyrir vini sína og fjölskyldumeðlimi árlega en neyðist til að kaupa minna í ár.

En hækkandi verðlag bítur ekki alla, til dæmis ekki Guðjónu Ásgrímsdóttur sem kaupir það sama og áður. Það sama gildir um Berglindi Agnarsdóttur.

„Maður splæsir bara, en það er alltaf jafn blóðugt.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×