Viðskipti innlent

Sig­ríður Hrefna ráðin for­stjóri Nóa Síríusar

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir tekur við starfi forstjóra Nóa Síríusar.
Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir tekur við starfi forstjóra Nóa Síríusar. Aðsend

Sigríður Hrefna Hrafnkelsdóttir hefur verið ráðin nýr forstjóri Nóa Síríusar. Þóra Gréta Þórisdóttir sem verið hefur tímabundið starfandi forstjóri mun á sama tíma hverfa aftur til fyrri starfa sem fjármálastjóri Nóa Síríusar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nóa Síríus. Þar kemur einnig fram að Sigríður sé með embættispróf í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands og MBA gráðu frá Copenhagen Business School. Hún starfaði áður hjá Íslandsbanka þar sem hún var framkvæmdastjóri einstaklingssviðs frá 2017. Fyrir það var hún framkvæmdarstjóri smásölusviðs Olís.

"Ég er mjög ánægður með að hafa fengið Sigríði Hrefnu sem forstjóra í okkar öfluga stjórnendateymi, til að leiða áframhaldandi vöxt Nóa Síríusar. Starfsreynsla hennar og persónulegir eiginleikar falla einstaklega vel að þeirri spennandi vegferð sem framundan er hjá félaginu. Við hlökkum til að vinna með henni ásamt framúrskarandi starfsfólki félagsins í að móta saman framtíð Nóa Síríusar.

Á sama tíma vil ég nota tækifærið til að koma á framfæri innilegu þakklæti til Þóru Grétu Þórisdóttur fyrir frábæra forystu í starfi hennar sem starfandi forstjóri síðastliðið hálft ár. Framlag hennar hefur verið mjög mikilvægur þáttur í að viðhalda velgengni fyrirtækisins“ segir Rolf Arnljot Strøm, stjórnarformaður Nói Síríus í tilkynningunni.

„Nói Siríus er öflugt og rótgróið félag sem hefur þróast með þjóðinni frá því snemma á síðustu öld. Stefna fyrirtækisins er metnaðarfull og hefur það yfir fjölmörgum sterkum vörumerkjum að ráða. Ég hlakka til að leiða fyrirtækið áfram til framtíðar með þeim framúrskarandi mannauði sem hjá því starfar. “






Fleiri fréttir

Sjá meira


×