Atvinnulíf

Fleiri skemmtileg störf en færri síendurtekin og rútínubundin

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Gyða Kristjánsdóttir vörustjóri stafrænnar þróunar hjá Isavia segir eðlilegt að sumir hræðist það að gervigreindin útrými störfunum sínum. Frekar eigi þó að horfa á gervigreindina sem tækifæri til að búa til fleiri skemmtileg störf.  
Gyða Kristjánsdóttir vörustjóri stafrænnar þróunar hjá Isavia segir eðlilegt að sumir hræðist það að gervigreindin útrými störfunum sínum. Frekar eigi þó að horfa á gervigreindina sem tækifæri til að búa til fleiri skemmtileg störf.   Vísir/Vilhelm

„Fyrir mér er hægt að súmmera þetta upp í eina góða setningu: Gervigreindin getur hjálpað okkur með síendurteknu rútínubundnu störfin og þjálfar sköpunarvöðvana okkar, tekur ekki yfir mannshöndina eða eyðir öllum störfum,“ segir Gyða Kristjánsdóttir vörustjóri stafrænnar þróunar hjá Isavia.

Gyða segir eðlilegt að fyrstu viðbrögð hjá fólki við umræðu um gervigreind sé ótti. Ekki síst vegna þess að margir velta fyrir sér: Mun gervigreindin útrýma starfinu mínu?

„Vissulega er gervigreindin hættuleg líka og við eigum ekkert endilega að taka við öllu sem frá henni kemur skoðunarlaust. En gervigreindin er sköpuð af okkur mannfólkinu og nú bíður það okkar næstu misserin að beisla hana og stýra. Það verður áfram okkar hlutverk,“ segir Gyða sem þó sér fleiri tækifæri og alls kyns jákvæða þróun geta skapast þegar gervigreind verður í meira mæli notuð í atvinnulífinu.

Mannauðsdagurinn 2023 verður haldinn á föstudaginn en þetta er stærsti árlegi viðburður stjórnunar og mannauðsmála á Íslandi. Í tilefni Mannauðsdagsins fjallar Atvinnulífið um nýjar áherslur og framtíðina þessum málum tengdum.

Að skapa skemmtilegri störf

Gyða hefur starfað í mannauðsmálum í nokkur ár en starfar í dag hjá stafrænni þróun Isavia sem tilheyrir sviði Upplýsingatækni og stafrænnar þróunar.

„Það gerir starfið einmitt svo skemmtilegt því í mannauðsmálunum eru það einmitt mannlegu þættirnir sem við erum alltaf að hugsa um og það sem er svo mikilvægt að hafa í huga þegar rætt er um gervigreind að það eru einmitt þessir mannlegu þættir sem gervigreindin ræður ekki við,“ segir Gyða, sem sjálf telur mikilvægt að talað sé meira fyrir því hvaða skemmtilegu tækifæri geta skapast með því að innleiða og nýta betur tæknina.

Að mati Gyðu verða til tækifæri með aukinni sjálfvirknivæðingu og gervigreind eins og að:

  • Skapa fleiri skemmtilegri störf og þar með meiri starfsánægju
  • Að sinna enn betur verkefnum sem krefjast mikillar nákvæmni og lágmarka mistök
  • Að spara mikinn tíma sem hægt er að nýta í annað, og þar með kostnað
  • Svigrúm skapast til að einbeita okkur betur að því að vera mannlegri á öðrum sviðum

Sem sagt: Meiri starfsánægja, minni tími, færri mistök og auknar tekjur og nú gætu margir hugsað: 

Er þetta ekki bara „no-brainer?““ 

spyr Gyða en bendir jafnframt á að enn sé margt óunnið.

Til dæmis eigi það hlutverk okkar eftir að þróast betur með hvaða hætti mannfólkið vaktar gervigreindina. Ekki aðeins til að varast hættur eða mistök, heldur líka til þess að passa að gervigreindin fari ekki yfir einhver siðferðisleg mörk sem tæknin sem slík, ræður ekki við að meta.

„Fyrir mér eru nokkrir hlutir sem við þurfum að hafa í huga svo þessi tækni nýtist okkur rétt, og við getum virkilega haldið áfram á ferð og flugi að njóta þess að sinna skemmtilegum störfum.“

Hjá Isavia getur gervigreindin til dæmis hjálpað við það að taka á móti fleiri farþegum án þess að fjölga störfum segir Gyða. Þannig geti gervigreindin hjálpað mikið til við að hagræða.Vísir/Vilhelm

Yngri kynslóðir vilja njóta lífsins í botn

Ein af stærri áskorunum atvinnulífsins um allan heim eru þau kynslóðaskipti sem eru að verða á vinnustöðum. Þar er oftar en ekki vísað til þess að Z-kynslóðin, sem þó er ekki enn komin á vinnumarkaðinn nema að mjög litlum hluta, enda kynslóð sem fædd er tímabilið 1995-2012.

Eitt af því sem þó einkennir almennt þær áherslubreytingar sem eru að innleiðast með yngri stjórnendum og mannauði í atvinnulífinu, er breytt viðhorf til lífsins eða vinnu.

„Ég viðurkenni fúslega að ég er af þeirri kynslóð að vilja njóta lífsins í botn og heillast því að öllu sem tengist störfum almennt sem gerir mér kleift að njóta lífsins enn betur,“ segir Gyða og brosir.

„En við skiptum ekki út mannshöndinni fyrir gervigreind, gervigreindin hjálpar manneskjunni við sín störf, svo starfsánægjan verði meiri og við afkastað meira á styttri tíma.“

Sem dæmi um það sem gervigreindin getur lagt á borð fyrir fólk er til dæmis að koma með hugmyndir, reikna forvinnu, leggja til lausnirog svo framvegis.

„Gervigreind getur til dæmis flýtt mjög fyrir í ráðningaferlinu með því að skanna ferilskrár og umsóknir og sigta út. Þannig að tími ráðningaraðilans fari frekar í mat á innihaldinu,“ nefnir Gyða.

Ákvörðunarvaldið um ráðninguna er hins vegar áfram hjá mannfólkinu, sem almennt þarf líka að fylgjast með öllu sem gervigreindin sér um og grípa inn í ef aðstæður kalla á það.

„Sumir óttast það kannski að með aukinni sjálfvirknivæðingu og gervigreind, séum við að missa út mannleg samskipti og tæknin að taka yfir,“ segir Gyða og bætir við:

Og við eigum ekkert að gera lítið úr þessum ótta. Þessi mál geta alveg verið viðkvæm þegar verið er að ræða þau. 

Og þess vegna er mikilvægt að hafa það skýrt að tilgangur gervigreindar er ekki að leggja störf eitt og sér, heldur er áhersla á að skapa virðisaukandi störf,“ 

segir Gyða og bætir við:

„Þar að auki getur gervigreindin hjálpað til við hagræðingar með þeim hætti að nýta gervigreind eða auka sjálfvirknivæðingu í áskorunum í rekstrarumhverfinu, án þess að þurfa fjölga störfum í takt við til dæmis fjölgun farþega í tilfelli Isavia svo dæmi sé nefnt.“

Gyða situr í stjórn Mannauðs, félags mannauðsfólks á Íslandi og segist afar spennt fyrir viðburðinum á föstudaginn. Enda sé Mannauðsdagurinn sá vettvangur þar sem fólk úr ólíkum greinum atvinnulífsins kemur saman til að hlusta á, læra og ræða saman um allt það helsta í mannauðsmálunum.

Í fyrra sóttu viðburðinn 800 manns og þá var uppselt.

„Allt sem snýr að sjálfvirknivæðingu og gervigreind er mikið í umræðunni þessi misserin og mér finnst ofboðslega gefandi á Mannauðsdaginn að þar sé samankominn hópur af stjórnendum og mannauðsfólki úr öllum greinum atvinnulífsins. Sjálfvirknivæðingin og gervigreindin er meðal þeirra málaflokka sem eru í brennidepli hjá mannauðsfólki. En hér má minna á að góðir stjórnendur treysta sínu starfsfólki þótt þeir séu með puttann á púlsinum. Það sama gildir um hvernig við munum nýta gervigreindina. Við munum halda áfram að vakta hana og þá getum við betur verið viss um að við séum að nýta hana rétt.“


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×