Neytendur

Bankarnir geti lækkað vexti miðað við hagnaðinn

Máni Snær Þorláksson skrifar
Breki Karlsson er formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson er formaður Neytendasamtakanna. Vísir/Ívar

Formaður Neytendasamtakanna segir ljóst að stóru viðskiptabankarnir geti lækkað vexti sína miðað við hve mikið þeir hafa hagnast á fyrri hluta ársins. Bankarnir eigi ekki að vera undanskildir þegar kallað er eftir aðhaldi.

Stóru viðskiptabankarnir þrír skiluðu allir milljarða hagnaði á fyrri helmingi þessa árs. Íslandsbanki hagnaðist um 12,4 milljarða, Arion banki hagnaðist um 13,4 milljarða og Landsbankinn hagnaðist um 14,5 milljarða.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna segir að þessi hagnaður bankanna komi honum því miður ekki á óvart. „Þegar vextir Seðlabankans hækkuðu þá hækkuðu allir bankarnir sína vexti og það endar náttúrulega bara sem hagnaður hjá bönkunum,“ segir Breki í samtali við fréttastofu.

Meginvextir Seðlabanka Íslands eru nú í 8,75 prósentum en þeir hafa hækkað þrettán sinnum í röð. Verðbólga hefur lækkað á undanförnum mánuðum og er nú komin niður í 7,6 prósent.

„Með lækkandi verðbólgu þá vonum við að Seðlabankinn lækki vexti og líka að bankarnir lækki sína vexti. Við sjáum að það er ekkert í vegi fyrir því að bankarnir lækki álögur á viðskiptavini sína, núna þegar þeir skila þessum methagnaði.“

Borð fyrir báru hjá bönkunum

Breki bendir á að kallað hefur verið eftir aðhaldi til að stemma stigu við verðbólgunni. Hann segir að bankarnir séu ekki undanskildir því.

„Í árferðinu eins og það er, þegar neytendur eru að greiða himinháa vexti þá verðum við að kalla eftir aðhaldi hjá öllum, ekki bara hjá neytendum og sumum fyrirtækjum heldur öllum fyrirtækjum.“

Hagnaður bankanna sýni að það sé svigrúm til lækkana hjá þeim.

„Það er augljóslega borð fyrir báru hjá bönkunum að lækka vexti miðað við þessar hagnaðartölur og við bara höldum áfram að hvetja þá til þess að lækka þá.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×