Neytendur

Penninn og Ólavía og Oli­ver einu sem bættu ekki verð­merkingarnar

Atli Ísleifsson skrifar
Verslun Pennans í Mjódd var sektuð um 50 þúsund krónur.
Verslun Pennans í Mjódd var sektuð um 50 þúsund krónur. Vísir/Vilhelm

Neytendastofa hefur sektað barnavöruverslunina Ólavíu og Oliver í Glæsibæ og Pennann í Mjódd um 50 þúsund krónur hvor vegna ófullnægjandi verðmerkinga.

Á vef Neytendastofu kemur fram að skoðun hafi verið framkvæmd á ástandi verðmerkinga í smærri verslunarkjörnum á höfuðborgarsvæðinu í lok maí síðastliðinn þar sem farið hafi verið í fjörutíu verslanir og skoðað hvort söluvörur væru verðmerktar. Þá hafi sérstaklega verið skoðað hvort að verðmerkingar hafi verið sýnilegar á útstillingum, til dæmis í sýningarglugga.

„Í fyrri heimsóknum voru gerðar athugasemdir við 12 verslanir sem bæta þurftu verðmerkingar.

Skoðuninni var fylgt eftir hjá þessum 12 fyrirtækjum og höfðu 10 þeirra bætt verðmerkingar þannig að ekki var tilefni til frekari athugasemda. Þetta er óvenju hátt hlutfall úrbóta sem Neytendastofa fagnar og má telja til marks um að aukinn sýnileiki verðmerkingareftirlits leiðir til þess að seljendur gæta betur að merkingum sínum.

Hjá Pennanum í Mjóddinni vantaði enn skýrar verðmerkingar á vörum í sýningarglugga og í verslun Ólavíu og Oliver í Glæsibæ vantaði verðmerkingar á ýmsar söluvörur. Hafa verslanirnar því nú verið sektaðar fyrir ófullnægjandi verðmerkingar,“ segir á vef Neytendastofu.

Ákveðið var að leggja á verslanirnar 50 þúsund króna stjórnvaldssekt sem greiða skal innan þriggja mánaða.


Tengdar fréttir

Slær á putta Nettós vegna verð­merkinga

Neytendastofa hefur slegið á putta Samkaupa vegna verðmerkinga í vefverslun Nettós þar sem einingarverð vantaði á fjölda vara á vefsíðunni. Þeim fyrirmælum hefur verið beint til félagsins að koma einingaverðum í rétt horf, ellegar sæta dagsektum.

Sektaði Birtu CBD fyrir að brjóta lög með full­yrðingum sínum

Neytendastofa sektaði Birtu CBD um 100 þúsund krónur vegna fullyrðinga um lyfjavirkni snyrtivara sem stofnunin telur hafa brotið lög. Fyrirtækið flytur inn og selur vörur sem innihalda CBD, einnig þekkt sem kannabídíól unnið úr kannabisplöntum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×