Neytendur

Slær á putta Nettós vegna verð­merkinga

Atli Ísleifsson skrifar
Samkaup mun sæta dagsektum að fjárhæð 50 þúsund krónum, verði ekki búið að koma merkingunum í lag innan tveggja vikna frá dagsetningu ákvörðunar Neytendastofu.
Samkaup mun sæta dagsektum að fjárhæð 50 þúsund krónum, verði ekki búið að koma merkingunum í lag innan tveggja vikna frá dagsetningu ákvörðunar Neytendastofu. Vísir/Vilhelm

Neytendastofa hefur slegið á putta Samkaupa vegna verðmerkinga í vefverslun Nettós þar sem einingarverð vantaði á fjölda vara á vefsíðunni. Þeim fyrirmælum hefur verið beint til félagsins að koma einingaverðum í rétt horf, ellegar sæta dagsektum.

Sagt er frá þessu á málinu á vef Neytendastofu. Þar kemur fram að samkvæmt verðmerkingarreglum skulu seljendur verðmerka söluvörur með endanlegu söluverði og einingarverði.

„Einingarverð er verð vöru miðað við ákveðna þyngdar- eða rúmmálseiningu svo sem kíló, lítra eða metra. Því er ætlað að auðvelda neytendum að gera verðsamanburð á vörum sem eru í ólíkum magnstærðum. Í reglum frá Neytendastofu er kveðið á um hvaða einingu skuli nota fyrir hvaða vöru.

Niðurstaða Neytendastofu í málinu var sú að verðmerkingar Samkaupa á vefsíðunni www.netto.is væru ekki í samræmi við lög og reglur þar sem einingarverð vantaði á margar vörur og notast var við rangar einingar á sumum vörum. Var þeim fyrirmælum beint til félagsins að koma einingaverðum í rétt horf en að öðrum kosti skyldi Samkaup sæta dagssektum,“ segir á vef stofnunarinnar.

Í ákvörðuninni segir að Samkaup muni sæta dagsektum að fjárhæð 50 þúsund krónum, verði ekki búið að koma merkingunum í lag innan tveggja vikna frá dagsetningu ákvörðunar Neytendastofu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×