Neytendur

Vísað úr pakka­ferð vegna „sýni­legrar ölvunar“ og fær endur­greitt

Máni Snær Þorláksson skrifar
Konan sagðist einungis hafa drukkið 2-3 vínglös. Ákærunefndin taldi að hugsanleg ölvun konunnar væri ekki næg ástæða til að vísa henni úr ferðinni.
Konan sagðist einungis hafa drukkið 2-3 vínglös. Ákærunefndin taldi að hugsanleg ölvun konunnar væri ekki næg ástæða til að vísa henni úr ferðinni. Grafík/Kristján

Ferðaskrifstofa sem rak konu úr pakkaferð á fyrsta degi þarf að endurgreiða henni ferðina. Ferðaskrifstofan sagði konuna hafa verið „sýnilega ölvaða“ en úrskurður kærunefndar vöru- og þjónustukaupa taldi að það réttlæti ekki jafn afdrifaríka ákvörðun og að vísa konunni úr ferðinni.

Um er að ræða viku langa pakkaferð sem fór fram í síðastliðnum september. Innifalið í ferðinni var flug báðar leiðir, ferðir til og frá flugvelli, hótelgisting, hálft fæði og námskeið. Ekki kemur fram í úrskurðinum hvers konar námskeið hafi verið um að ræða en þar er ferðin kölluð heilsuferð.

Konan segir í kvörtun sinni til kærunefndarinnar að hún sé í meðferð hjá verkjateymi Landspítalans. Hún hafi nýlokið við verkjameðferð nokkrum dögum fyrir upphaf ferðarinnar. Hún segist hafa upplýst fararstjóra símleiðis um það degi fyrir brottför.

Þá segir konan að flugferðin út hafi verið löng og erfið. Þegar hún kom út úr flugvélinni hafi hún átt erfitt með að standa í fæturnar sökum vanlíðan. Að endingu hneig hún niður vegna þessa á flugvellinum.

Fararstjórinn hafi brugðist illa við

Að sögn konunnar brást fararstjóri ferðarinnar illa við ástandi hennar. Hún segir fararstjórann hafa lýst því yfir að hún myndi ekki fá að taka þátt í námskeiðinu. Þá hafi fararstjórinn krafist þess að konan myndi yfirgefa hótelið. 

Konan segir fararstjórann hafa reynt að komast yfir greiðslukort sitt og vegabréf til að panta flug til Íslands fyrir sig. Einnig segir konan að fararstjórinn hafi neitað að ræða við hana, útilokað hana frá Facebook-hópi ferðarinnar og kallað hana „andlega veika fyrir framan aðra hótelgesti.“

Vegna þessa segist konan hafa verið nauðbeygð að yfirgefa hótelið og finna sér aðra gistingu. Þá hafi hún þurft að kaupa flug heim til Íslands þar sem hún fékk ekki að taka þátt í námskeiðinu.

Ekki hafi verið annað í stöðunni

Ferðaskrifstofan segir að fararstjóri ferðarinnar hafi varað konuna við því að ferðalagið yrði erfitt og langt. Einnig segir skrifstofan að konan hafi byrjað að drekka áfengi fyrir brottför og haldið því áfram um borð í flugvélinni, þrátt fyrir að hafa verið á sterkum verkjalyfjum.

Sem fyrr segir heldur ferðaskrifstofan því fram að konan hafi verið „sýnilega ölvuð“. Þá er vísað í framlagðar yfirlýsingar annarra farþega í ferðinni um ástand og hegðun konunnar. Ferðaskrifstofan segir að framferði konunnar hafi haft verulega neikvæð áhrif á aðra í ferðinni. 

Að mati ferðaskrifstofunnar var ekki annað í stöðunni en að vísa konunni úr ferðinni, töluverð hætta hafi verið á því að hún myndi spilla upplifun annarra í ferðinni.

Segist aðeins hafa fengið sér tvö til þrjú glös

Konan vísar yfirlýsingum farþega sem ferðaskrifstofan lagði fram á bug. Hún segir þær aðeins vera til þess fallnar að varpa rýrð á sig. Það sé ljóst að þessum farþegum hafi verið í nöp við hana og þeir hafi viljað losna við hana úr ferðinni. Konan bendir einnig á að önnur yfirlýsingin sé frá aðstoðarfararstjóra ferðarinnar, hún sé því ekki frá hlutlausum aðila.

Ferðaskrifstofan bendir á móti á að í yfirlýsingunum sé að finna vitnisburð einstaklinga sem urðu vitni að hegðun konunnar. Hún hafi ekki lagt nein gögn eða vitnisburði fram máli sínu til stuðnings.

Þá hafnar konan því að hafa verið undir áhrifum áfengis. Hún segist aðeins hafa fengið sér tvö til þrjú glös af hvítvíni á meðan á ferðalaginu stóð. Það sé ekkert lagt fram í málinu sem sanni að hún hafi verið verulega ölvuð.

Konan segir viðbrögð fararstjórans við aðstæðunum, að reka hana úr ferðinni án viðvörunar, ekki vera í neinu samræmi við þær sakir sem á hana eru bornar. Einnig bendir hún á að ferðin hafi átt að vera heilsuferð, ferðaskrifstofan hafi því mátt gera ráð fyrir því að þáttakendur væru ekki allir heilir heilsu.

Mótmæla alfarið kröfum konunnar

Konan krafðist þess að ferðaskrifstofan myndi endurgreiða sér 199.000 krónur fyrir pakkaferðina. Þá krafðist hún þess að ferðaskrifstofan myndi bæta henni kostnað vegna hótelgistingar að fjárhæð 79.497 krónur, kostnað vegna flugfars að fjárhæð 34.597 krónur sem og ferðar út á flugvöll að fjárhæð 28.128 krónur. 

Einnig krafðist konan þess að ferðaskrifstofan myndi greiða lögmannskostnað hennar að fjárhæð 310.000 krónur. 

Ferðaskrifstofan mótmælti alfarið bótakröfum konunnar. Í sjónarmiðum skrifstofunnar segir að konan hafi átt að „vera fullmeðvituð um hvaða áhrif það hefði á hana ef hún myndi drekka áfengi ofan í sterk verkjalyf.“

Þá bendir ferðaskrifstofan á að ekkert sé upplýst um lögmannskostnaðinn sem konan krafðist greiðslu á. Engin lagaheimild sé fyrir kærunefndina að úrskurða um slíkan kostnað.

Fær 340 þúsund krónur

Það er óumdeilt að mati kærunefndarinnar að ferðaskrifstofan hafi vísað konunni úr pakkaferðinni. Það liggi fyrir að konan hafi sent ferðaskrifstofunni tölvupóst þar sem óskað var eftir endurgreiðslu og bóta. 

Kærunefndin segir ljóst að konan hafi átt við heilsubrest að stríða og að ferðaskrifstofunni hafi verið kunnugt um það. Ferðaskrifstofan hafi því mátt vita að konan gæti þurft á aðstoð að halda í ferðinni. 

Þá segir kærunefndin að konan hafi ekki borið nægjanlegar brigður á fullyrðingar ferðaskrifstofunnar um ölvunarástand hennar á ferðadegi. Þrátt fyrir það álítur kærunefndin sem svo að hugsanleg ölvun konunnar hafi ekki réttlætt þá afdrifaríku ákvörðun að reka hana úr ferðinni.

Fallist var á kröfu konunnar um endurgreiðslu kaupverðs ferðarinnar sem og annan kostnað vegna vanefndanna. Ferðaskrifstofunni ber að greiða konunni alls 341.292 krónur. Konan fær ekki lögmannskostnaðinn greiddan þar sem sú krafa var ekki studd neinum gögnum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×