Innherji

Brýnir fyrir bönkum að huga „tíman­lega“ að þyngri greiðslu­byrði lán­taka

Hörður Ægisson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri er formaður fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri er formaður fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans. Vísir/Vilhelm

Mikilvægt er að bankarnir grípi tímanlega til aðgerða til að fyrirbyggja greiðsluerfiðleika hjá heimilum og fyrirtækjum vegna þyngri greiðslubyrði, að sögn fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans, sem telur viðnámsþrótt fjármálakerfisins vera góðan.

Í yfirlýsingu nefndarinnar segir að fjármálakerfið standi traustum fótum, sem birtist meðal annars í sterkri eiginfjár- og lausafjárstöðu stóru bankanna, á sama tíma og peningalegt aðhald hefur aukist. Þá séu vanskil enn lítil og rekstrarafkoma bankanna góð. Fjármálastöðugleikanefnd hefur ákveðið að viðhalda gildi sveiflujöfnunaraukans óbreyttum í 2,5 prósent.

Nýlegar útgáfur á erlendum skuldabréfamörkuðum hafa dregið úr endurfjármögnunaráhættu þótt vaxtakjörin versnað.

„Hagvöxtur hér á landi er mikill og atvinnuleysi lítið. Mikil hækkun nafnlauna hefur leitt til þess að kaupmáttur hefur haldist tiltölulega mikill undanfarin misseri þrátt fyrir mikla verðbólgu. Heimili og fyrirtæki standa aftur á móti frammi fyrir versnandi fjármálaskilyrðum,“ segir í yfirlýsingu nefndarinnar.

Sterk eiginfjárstaða heimila skapar viðnámsþrótt til að mæta versnandi fjármálaskilyrðum.

Þá bætir hún við að skörp hækkun fasteignaverðs og neikvæðir raunvextir hafi skilað hraðri eiginfjármyndun, sérstaklega hjá þeim sem hafa fjármagnað fasteignakaup með nafnvaxtalánum.

„Setning lánþegaskilyrða, bæði hámark veðsetningar- og greiðslubyrðarhlutfalls, dró úr hættunni á því að hröð eiginfjármyndun skapaði forsendur fyrir óhóflega skuldsetningu. Það sést m.a. af því að skuldahlutfall heimila hefur verið stöðugt í 150% af ráðstöfunartekjum þeirra. Sterk eiginfjárstaða heimila skapar viðnámsþrótt til að mæta versnandi fjármálaskilyrðum.“

Tólf mánaða verðbólga mælist nú 9,7 prósent á meðan vextir Seðlabankans standa í 8,75 prósent.

Nefndin bendir á að þessi þróun hærri verðbólgu og vaxta leiði til þyngri greiðslubyrði þeirra sem hafa tekið lán með breytilegum nafnvöxtum. Þá mun vaxtafesta margra lántaka brátt renna sitt skeið og hækkandi raunvextir þyngja greiðslubyrði.

Fjármálastöðugleikanefndin brýnir þess vegna fyrir lánveitendum að huga tímanlega að þyngri greiðslubyrði lántakenda til þess að fyrirbyggja greiðsluerfiðleika.

Mikil hækkun nafnlauna hefur leitt til þess að kaupmáttur hefur haldist tiltölulega mikill undanfarin misseri þrátt fyrir mikla verðbólgu.

„Þar sem þörf krefur ber að skoða að lengja lánstíma, taka upp jafngreiðsluskilmála, setja þak á greidda nafnvexti og líta til ólíkra lánaforma sem bjóða upp á mismunandi greiðslubyrði. Rúm eiginfjárstaða margra lántaka ætti að gefa töluvert svigrúm til að tryggja að greiðslubyrði haldist í takti við viðmið lánþegaskilyrða sem nefndin hefur sett.“

Þá undirstrikar fjármálastöðugleikanefnd að hún muni áfram beita þeim stýritækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika hér á landi svo að fjármálakerfið geti staðist áföll, miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu með viðhlítandi hætti.


Tengdar fréttir

Líf­eyris­sjóðir mættu huga að „fleiri hólfum“ á skulda­hlið bankanna

Þrátt fyrir að vaxtakjör íslensku bankanna á nýlegum erlendum útgáfum hafi verið ein þau hæstu frá fjármálahruninu 2008 þá er það „rétt stefna“ að halda þeim mörkuðum opnum á tímum þegar aðstæður eru krefjandi, að sögn seðlabankastjóra. Það væri góð þróun ef íslensku bankarnir gætu farið að fjármagna sig innanlands til lengri tíma á nafnvöxtum en þá þyrftu lífeyrissjóðirnir að fara huga að „fleiri hólfum“ á skuldahlið bankanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×