Innlent

Björguðu ferða­manni í sjálf­heldu í Þak­gili

Árni Sæberg skrifar
Björgunarsveitarmaður leitar mannsins við Þakgil.
Björgunarsveitarmaður leitar mannsins við Þakgil. Landsbjörg

Björgunarsveitir frá Vík í Mýrdal og Álftaveri voru kallaðar út á níunda tímanum í kvöld vegna ferðamanns, sem hafði villst út af gönguleið í Þakgili undir Mýrdalsjökli og var kominn í sjálfheldu.

Í fréttatilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu segir að nokkurn tíma hafi tekið að koma björgunarfólki inn í Þakgil um hægfarinn veg. Björgunarfólk hafi svo farið inn á gönguleiðina úr tveimur áttum, en staðsetning mannsins hafi ekki verið nákvæmlega vituð. 

Það hafi loks verið á ellefta tímanum sem maðurinn fannst, en hann var orðinn nokkuð kaldur og hafði komið sér fyrir þar sem hann var vel skorðaður af.

Björgunarfólk er nú að aðstoða hann til baka eftir gönguleiðinni, inn í Þakgil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×