Umræðan

Annan hring í hús­næðis­hring­ekjunni?

Halldór Kári Sigurðarson skrifar

Húsnæðisverð hefur ekki hækkað að raunvirði undanfarna 12 mánuði. Undanfarna þrjá áratugi hefur húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu almennt hækkað um 5,1% að raunvirði á hverjum 12 mánuðum og því er óhætt að segja að markaðurinn sé nokkuð kaldur um þessar mundir. 

Kaupsamningum heldur áfram að fækka og hafa ekki verið færri undanfarinn níu ár. Þar að auki kom fram í mánaðarskýrslu HMS í apríl að aðeins 6% seldra íbúða á höfuðborgarsvæðinu í mars voru nýjar en hlutfall nýrra íbúða hefur ekki verið svo lágt síðan árið 2013. Í því samhengi er einnig vert að nefna að gjaldþrot fyrirtækja í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð hafa ekki verið fleiri síðan árið 2011.

Erfiðleikar við að selja nýjar íbúðir koma ekki á óvart í ljósi mikilla vaxtahækkana en stýrivextir hafa nú hækkað um 8 prósentustig á tveimur árum og standa í 8,75%. Nafnverð húsnæðis hefur þrátt fyrir allt ofangreint sýnt mikinn viðnámsþrótt í gegnum vaxtahækkunarferlið og þekktasta „sófasérfræðingalögmál“ landsins um að húsnæðisverð geti ekki lækkað að nafnverði hefur að mestu haldið hingað til. Það hefur hins vegar leitt til þess að framboð íbúða hefur aukist til muna vegna lítillar sölu og að verðbólga hefur reynst þrálátari en ella sem hefur leitt til hærri vaxta.

Undanfarna þrjá áratugi hefur húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu almennt hækkað um 5,1% að raunvirði á hverjum 12 mánuðum og því er óhætt að segja að markaðurinn sé nokkuð kaldur um þessar mundir.

Samtök iðnaðarins hafa bent á að háir vextir hafi áhrif á byggingageirann og samvkæmt könnun sem gerð var meðal meðlima samtakanna munu aðildarfélögin hefja byggingu á mun færri íbúðum á næstu 12 mánuðum en undanfarna 12 mánuði.

Á sama tíma er að eiga sér stað fordæmalaus fólksfjölgun hér á landi en íbúum landsins fjölgaði um 11.500 manns í fyrra eða 3,1%.

Horft fram á við má ætla að til skamms tíma muni hátt vaxtastig halda markaðnum köldum og enn er útlit fyrir verðlækkanir, að minnsta kosti að raunvirði. Gífurleg fólksfjölgun setur hins vegar þrýsting á eftirspurnarhliðina og ef byggingageirinn bregst við hærri vöxtum með því að draga úr uppbyggingu er ljóst að við munum fara annan hring í húsnæðishringekjunni. 

Nafnverð húsnæðis hefur þrátt fyrir allt sýnt mikinn viðnámsþrótt í gegnum vaxtahækkunarferlið og þekktasta „sófasérfræðingalögmál“ landsins um að húsnæðisverð geti ekki lækkað að nafnverði hefur að mestu haldið hingað til.

Á fyrsta fjórðungi ársins fjölgaði íbúum um 3.000 manns í viðbót og í raun útlit fyrir að fólksfjölgun hér á landi sé verulega vanmetin í mannfjöldaspá Hagstofunnar. Verði mikil fólksfjölgun áfram raunin og takmörkuð íbúðauppbygging þekkjum við niðurstöðuna, en þá má vænta þó nokkurra húsnæðisverðshækkana eftir 2 til 3 ár.

Höfundur er hagfræðingur Húsaskjóls.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.