Innherji

Stærsta vaxtastökkið frá hruni með 125 punkta hækkun Seðlabankans

Hörður Ægisson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri en vextir bankans hafa núna verið hækkaðir þrettán sinnum í röð og hafa ekki verið hærri frá því í árslok 2009.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri en vextir bankans hafa núna verið hækkaðir þrettán sinnum í röð og hafa ekki verið hærri frá því í árslok 2009. Stöð 2/Ívar

Peningastefnunefnd kom markaðsaðilum og greinendum á óvart með því að hækka vexti Seðlabankans úr 7,5 prósentum í 8,75 prósentum, sem var umfram væntingar, til að ná böndum á undirliggjandi verðbólgu sem heldur áfram að hækka samtímis því að horfur eru á enn meiri vexti í innlendri eftirspurn í ár. Þrátt fyrir að vaxtahækkunin nú upp á 125 punkta sé sú mesta í einu vetfangi frá því við fall bankanna haustið 2008 þá boðar nefndin enn frekari hækkun vaxta á næstunni.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar kemur fram að efnahagsumsvif hafi verið kröftug á þessu ári og samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans er spáð 4,8 prósenta hagvexti á árinu 2023 í stað 2,6 prósenta vaxtar eins og var áætlað í síðustu spá í febrúar.

„Þar vega horfur á meiri vexti innlendrar eftirspurnar þungt en einnig er útlit fyrir kröftugri umsvif í ferðaþjónustu,“ segir peningastefnunefnd. Þá hefur hún sömuleiðis ákveðið að hækka fasta bindiskyldu innlánsstofnana úr 1 prósenti í 2 prósent.

Peningastefnunefnd hefur núna hækkað vexti bankans þrettán sinnum í röð frá því í maí 2021 þegar vaxtahækkunarferlið hófst. Þá stóðu meginvextir Seðlabankans í 0,75 prósentum og hafa þeir því hækkað um átta prósentustig á tveimur árum.

Tónninn í yfirlýsingu peningastefnunefndar er harðari nú en oft áður og þannig segir hún að ljóst sé að „nauðsynlegt“ verði að herða taumhald peningastefnunefndarinnar enn frekar. Horfur séu því á að vextir verði hækkaðir enn meira til að „tryggja betra jafnvægi í þjóðarbúskapnum og koma verðbólgu í markmið.“

Ákvörðun nefndarinnar um að hækka vextina um 125 punkta var umfram spár flestra greinenda. Þannig taldi yfirgnæfandi meirihluti markaðsaðila, samkvæmt könnun Innherja sem sagt var frá í gær, að nefndin myndi hækka vextina um 100 punkta og vísuðu meðal annars til þess að raunvextir væru enn neikvæðir og að bankanum hefði ekki tekist að ná stjórn á verðbólguvæntingum.

Hækkun vísitölu neysluverðs í apríl tók ársverðbólguna úr 9,8 prósentum í 9,9 prósent. Verðbólguþrýstingurinn var á breiðum grunni, yfir væntingum greinenda og verðbólgan hefur nú verið yfir 9 prósentum frá því um mitt ár 2022.

Peningastefnunefnd segir í yfirlýsingu sinni að undirliggjandi verðbólga hafi haldið áfram að aukast og miklar verðhækkanir mælist í sífellt stærri hluta neyslukörfunnar. Útlit sé því fyrir að verðbólguþrýstingur verði töluvert meiri í ár og á næsta ári en áður var gert ráð fyrir.

Horfur eru því á að hækka þurfi vexti enn meira til að tryggja betra jafnvægi í þjóðarbúskapnum og koma verðbólgu í markmið.

Þá bendir peningastefnunefnd á að verðbólguvæntingar til lengri tíma hafi jafnframt hækkað og séu vel yfir 2,5 prósenta markmiði. Aukin hætta sé því að verðbólgan muni reynast þrálát.

„Í ljósi þess er nauðsynlegt að herða taumhald peningastefnunnar enn frekar,“ segir nefndin, og bætir við í lok yfirlýsingarinnar:

„Einkum er mikilvægt að koma í veg fyrir víxlverkun hækkandi launa og verðlags, sérstaklega þegar litið er til mikillar spennu í þjóðarbúinu og hversu stutt er í næstu kjarasamningalotu. Horfur eru því á að hækka þurfi vexti enn meira til að tryggja betra jafnvægi í þjóðarbúskapnum og koma verðbólgu í markmið.“


Tengdar fréttir

Seðla­bankinn nauð­beygður til að hækka vexti um hundrað punkta

Yfirgnæfandi meirihluti markaðsaðila býst við því að Seðlabanki Íslands hækki vexti um 100 punkta á vaxtaákvörðunarfundi bankans á morgun. Meginstefið í svörum þeirra sem tóku þátt í könnun Innherja er að Seðlabankinn sé nauðbeygður enda er langt í næstu vaxtaákvörðun, raunvextir enn neikvæðir og bankanum hefur ekki tekist að ná stjórn á verðbólguvæntingum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.