Neytendur

Ís í brauð­formi búinn að rjúfa þúsund króna múrinn

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Að velja dýfu eða lakkrískurl þegar keyptur er ís í brauðformi getur haft sitt að segja um verðið.
Að velja dýfu eða lakkrískurl þegar keyptur er ís í brauðformi getur haft sitt að segja um verðið. Vísir/Vilhelm

Stór ís í brauð­formi með súkku­laði­dýfu og lakkrískurli hefur rofið þúsund króna múrinn víða í ís­búðum á höfuð­borgar­svæðinu á meðan stór bragða­refur kostar sum staðar meira en tvö þúsund krónur. Vísir gerði ó­form­lega verð­könnun meðal nokkurra ís­búða en þar er skammt stórra högga á milli, ísinn hefur hækkað í verði eins og flestar vörur landsins.

Vísir mætti í sex búðir og gerði þar ó­form­lega og ó­vísinda­lega verð­könnun. Til­efnið er óða­verð­bólga og háir vextir sem hafa skilað sér í verð­hækkunum á svo gott sem öllum vörum og allri þjónustu í landinu. Ísrúntur lands­manna verður hins vegar farinn óháð slíku efna­hags­á­standi og því er um að ræða nauð­syn­lega þjónustu við les­endur á víð­sjár­verðum tímum.

Um er að ræða ís­búð Vestur­bæjar, Huppu ís­búð, Ís­búðina Fáka­feni, Brynju, Ís­búðina í Há­leiti Bínóís og Aktu Taktu. Vísir mætti á staðinn og smellti af myndum.

Ekki er tekið til­lit til mis­munandi stærðar íss í ís­búðunum en for­svars­menn sumra búða bentu á að um væri að ræða mis­munandi magn af ís sem í boði sé á milli þeirra óháð því hvort gefinn sé upp lítill, mið­stærð eða stór. Þá er að sjálf­sögðu vert að nefna að sumar búðirnar eru hluti af keðju en aðrar standa stakar.

Vísir mætti í sex búðir á höfuðborgarsvæðinu sem selja ís og kannaði verðið. Vísir/Vilhelm/Samsett

Að dýfa eða ekki dýfa

Þrátt fyrir að bragða­refur hafi fyrir löngu rutt sér til rúms sem ein vin­sælasta vara ís­búða eru enn gríðar­lega margir sem kaupa sér gamla góða ísinn í brauð­formi. Þá skiptir máli hvort dýfa sé tekin með auk kurls eða nammi.

Sé sem dæmi keyptur lítill ís í brauði án dýfu eða kurls er hægt að fá hann á 439 krónur í Aktu taktu en þar virðist einungis vera í boði að velja barna­stærð eða stóran ís. Huppa býður lítinn ís á 490 án dýfu eða kurls, Vestur­bæjarís á 550 krónur en sá ís er að sögn þeirra stærri en aðrir litlir ísar.

Brynja býður lítinn ís í brauð­formi án dýfu og kurls á sama verði og Vestur­bæjarís eða á 550 krónur. Ís­búðin í Fáka­feni býður slíkan ís á 580 krónur og Bínóis, ís­búðin í Háa­leiti býður hann á 600 krónur.

Þúsund króna múrinn er hins vegar fyrst rofinn þegar við­skipta­vinir fara að biðja um stóran ís í brauð­formi með súkku­laði­dýfu og lakkrískurli.

Þannig kostar stór ís með súkku­laði­dýfu og lakkrískurli 1200 krónur í Ís­búðinni Háa­leiti Bínóís en þar að finna hæsta verðið í þessari óformlegu könnun.

Ís­búðin Fáka­feni býður upp á slíkan stóran ís með dýfu og lakkrískurli á 1040 krónur, Vestur­bæjarís á 1030 krónur, Huppa á 900 krónur og Brynja 900 krónur. Aktu taktu býður svo stóran ís með dýfu á 579 krónur en hefur ekki svarað fyrir­spurnum Vísis um kostnað á kurli.

Refurinn rauf tvö þúsund króna múrinn

Lík­lega er engin vara keypt eins oft í ís­búðum og gamli góði bragða­refurinn, sem stundum gengur undir nafninu þeytingur. Þar er klassísk regla að þrjár nammi­tegundir og/eða á­vextir, dýfur og annað slíkt fylgja hverjum og einum.

Vegna þess hversu hlaðinn bragða­refurinn er góssi er þar gjarnan um að ræða dýrustu vöru hverrar ís­búðar eða annarra sölu­aðila sem selja ís. Kannast flestir við það að lítill bragða­refur er ekki endi­lega lítill og stór bragða­refur er oft á tíðum miklu stærri en það.

Stór bragða­refur sleikir víðast hvar tvö þúsund króna múrinn og í einu til­viki, hjá ís­búð Vestur­bæjar er sá múr rofinn. Þar kostar stærsti bragða­refurinn 2250 en for­svars­menn ís­búðarinnar full­yrða hér líkt og áður að þar sé á ferðinni meira magn en í öðrum ís­búðum.

Í ís­búðinni Háa­leiti Bínóís kostar stór bragða­refur 1700 krónur en verslunin býður jafn­framt upp á risa­stóran bragðaref á 1900. Ís­búðin Fáka­feni býður stóran bragðaref á 1880 krónur. Brynja er með slíkan á 1850 en býður líter af bragðaref á 2450 krónur.

Þá er Huppa með stóran bragðaref á 1850 krónur. Aktu taktu býður ekki upp á bragðaref en þar er boðið upp á svo­kallaðan Snúning í einni stærð á 1299 krónur þar sem í boði eru þrjár nammi­tegundir.

Yfirlit yfir verðtöflur búðanna:

Ísbúð Vesturbæjar.Vísir/Vilhelm

Ísbúðin Fákafeni.Vísir/Vilhelm

Brynja ísbúð.Vísir/Vilhelm
Aktu Taktu.Vísir/Vilhelm
Huppu ísbúð.Vísir/Vilhelm
Ísbúðin Háaleiti Bínóís.Vísir/Vilhelm




Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×