Umræðan

Eitt evrópskt einkaleyfi og Sameiginlegi einkaleyfadómstóllinn

Erla S. Árnadóttir skrifar

Umsækjendur einkaleyfa sækjast iðulega eftir því að einkaleyfi þeirra gildi í öllum þeim ríkjum þar sem uppfinningin verður nýtt en vernd einkaleyfa er almennt bundin við tiltekin ríki. Stundum er verndin þó tengd tilteknum svæðum, svo sem hið evrópska einkaleyfi sem veitt er af Evrópsku einkaleyfastofnuninni (EPO). Í framhaldi af veitingu slíks einkaleyfis er unnt að staðfesta það (e. validation) í einstökum aðildarríkjum Evrópska einkaleyfasáttmálans sem nú eru 39. Ísland hefur verið aðili að EPO frá árinu 2004 og frá þeim tíma hafa því íslenskir umsækjendur geta öðlast einkaleyfi í öllum þessum ríkjum með einni umsókn. Staðfestingu evróskra einkaleyfa í einstökum aðildarríkjum hefur fram til þessa fylgt nokkur kostnaður, þar sem þýða þarf tiltekna hluta einkaleyfaskjalsins yfir á tungumál viðkomandi ríkis.

Langt er síðan hugað var að því að koma á fót viðbótarkerfi við evrópska einkaleyfakerfið sem fæli í sér að unnt væri að öðlast eitt einkaleyfi í öllum aðildarríkjum ESB í stað knippa af þeim einkaleyfum sem lýst var að framan. Tilgangur þessa var m.a. að lækka kostnað af veitingu einkaleyfa, minnka umsýslu við viðhald þeirra og koma um leið á fót sérstökum dómstól innan sambandsins sem myndi fjalla um ágreiningsmál vegna hins samræmda evrópska einkaleyfis. Nú er loks komið að því að slíkt kerfi taki gildi.

Þann 1. júní nk. munu taka gildi annars vegar reglur um svokallað eitt evrópskt einkaleyfi (e. European Patent with Unitary Effect), sbr. ESB reglugerðir nr. 1257/2012 og nr. 1260/2012 og hins vegar reglur um Sameiginlega einkaleyfadómstólinn (e. Unified Patent Court)[1], sbr. Agreement on a Unified Patent Court frá 19. febrúar 2013. Sáttmálann undirrituðu 25 af ríkjum Evrópusambandsins. 17 ríki hafa nú fullgilt hann en líklegt er fleiri sambandsríki bætist við síðar. Ríki utan sambandsins, svo sem Ísland, áttu þess ekki kost að verða aðilar. Eigi að síður hafa hinar nýjar reglur talsverða þýðingu fyrir hagsmuni allra þeirra íslensku fyrirtækja og annarra sem eiga evrópsk einkaleyfi eða eiga umsóknir um slík leyfi sem eru til meðferðar hjá einkaleyfayfirvöldum.

Langt er síðan hugað var að því að koma á fót viðbótarkerfi við evrópska einkaleyfakerfið sem fæli í sér að unnt væri að öðlast eitt einkaleyfi í öllum aðildarríkjum ESB í stað knippa af þeim einkaleyfum sem lýst var að framan.

Rétt er að taka fram að hið nýja kerfi er viðbót sem styrkja mun þær reglur sem fram til þessa hafa gilt um evrópsk einkaleyfi. Fram að þessu hefur evrópskt einkaleyfi verið eins konar knippi af einkaleyfum sem gilda í hverju ríki fyrir sig. Eftir gildistöku hinna nýju reglna um eitt evrópskt einkaleyfi verður mögulegt að sækja um og fá samþykkt, að undangenginni einni umsókn, einkaleyfi sem gildir í 17 ríkjum. Kostnaður við slíkt leyfi er miðaður við að hann sé sambærilegur við þann samanlagða kostnað sem hingað til hefur fylgt evrópsku einkaleyfi sem staðfest hefur verið í Þýskalandi, Bretlandi, Frakklandi og Hollandi.

Reglurnar um Sameiginlega einkaleyfadómstólinn fela í sér að hinn nýi dómstóll mun fjalla um ágreiningsmál vegna brota á hinu eina evrópska einkaleyfi og vegna krafna um ógildingu slíkra einkaleyfa. Íslenskir einkaleyfishafar þurfa nú að gera upp við sig hvort þeir kjósa að einkaleyfi þeirra lúti lögsögu hins nýja dómstóls. Um EP einkaleyfi sem nú þegar eru í gildi og umsóknir sem eru til meðferðar, munu, ef ekkert er aðhafst, reglurnar um Sameiginlega einkaleyfisdómstólinn gilda um einkaleyfið frá 1. júní nk. Unnt er að taka ákvörðun síðar, í að minnsta kosti 7 ár eftir gildistöku nýju reglnanna, um að hverfa frá því að einkaleyfið lúti lögsögu dómstólsins (“opt out”). Þá verður unnt að óska eftir því að nýju, en þó aðeins einu sinni, að draga framangreinda yfirlýsingu til baka (“opt in”). Eigendur einkaleyfa þurfa að gæta sín á því að réttur til að hverfa frá lögsögu hins nýja dómstóls er ekki fyrir hendi eftir að krafist hefur verið ógildingar á einkaleyfinu. Þá er rétt að benda á að eigendur einkaleyfa geta nú þegar (svokallað á „dagrenningar-tímabil“ sem lýkur 31. maí nk.) tilkynnt að þeir óski ekki eftir að tiltekið einkaleyfi eða tiltekin umsókn um einkaleyfi lúti lögsögu dómstólsins, þrátt fyrir að slík tilkynning hafi engin áhrif fyrr en 1. júní nk.

Einkaleyfi geta verið misviðkvæm fyrir ógildingu og í sumum tilvikum mun einkaleyfishafi ekki vilja hætta á að keppinautur geti „ráðist á“ einkaleyfi hans og fengið það ógilt í öllum 17 ríkjunum með einni málssókn.

Um einkaleyfi sem gefin verða út frá og með 1. júní gildir að val er um að skrá einkaleyfi sem eitt evrópskt einkaleyfi eða halda sig við hið eldra kerfi sem krefst staðfestingar í einstökum aðildarríkjum EPO. Nú þegar, á „dagrenningar-tímabilinu,“ er unnt að óska eftir því að einkaleyfi verði skráð sem eitt evrópskt einkaleyfi en frá og með 1. júní nk. munu umsækjendur um evrópsk einkaleyfi þurfa að óska eftir að leyfið hafi virkni sem eitt evrópskt einkaleyfi innan mánaðar frá birtingu upplýsinga um veitingu þess. Eins og áður segir mun áfram þurfa að staðfesta gildi evrópsks einkaleyfis með gamla laginu í þeim ríkjum EPO sem ekki eru aðilar að nýja kerfinu. Þrátt fyrir að umsækjandi ákveði að halda sig við gamla lagið um staðfestingar í ríkjum sem eru aðilar að sáttmálanum um Sameiginlega einkaleyfadómstólinn þurfa einnig þeir að tilkynna ef þeir kjósa ekki lögsögu hans.

Nauðsynlegt er að hver umsækjandi og hver eigandi einkaleyfis fyrir sig taki upplýsta ákvörðun um hvort hann telji hagsmunum sínum betur borgið með því að notfæra sér hið nýja kerfi eða ekki, bæði hvað varðar hið eina evrópska einkaleyfi og Sameinaða einkaleyfadómstólinn. Við slíkt mat kemur m.a. til skoðunar hvernig mögulegar kröfur um ógildingu einkaleyfisins horfa við viðkomandi. Einkaleyfi geta verið misviðkvæm fyrir ógildingu og í sumum tilvikum mun einkaleyfishafi ekki vilja hætta á að keppinautur geti „ráðist á“ einkaleyfi hans og fengið það ógilt í öllum 17 ríkjunum með einni málssókn. Þá koma líka til skoðunar sjónarmið um kostnað. Vegna þessa er mikilvægt að íslenskrir einkaleyfishafar yfirfari, eftir atvikum með sínum ráðgjöfum, hvaða stöðu heppilegast er að veita hverju einkaleyfi fyrir sig með tilliti til þeirra hagsmuna sem við það eru bundnir.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður og eigandi á LEX. 

[1] Hér eru notaðar þær íslensku þýðingar sem Hugverkastofa hefur tilgreint að stofnunin muni notast við.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.