Innlent

Gular viðvaranir fyrir sunnan

Samúel Karl Ólason skrifar
Veður og akstursskilyrði munu versna á sunnanverðu landinu í kvöld.
Veður og akstursskilyrði munu versna á sunnanverðu landinu í kvöld. Veðurstofa Íslands

Gular viðvaranir taka gildi á Suðurlandi og Suðausturlandi í kvöld. Spáð er austan stormi og snjókomu á báðum landsvæðum.

Báðar taka þær gildi klukkan tíu í kvöld. Á Suðurlandi gildir viðvörunin til tíu í fyrramálið en til ellefu á Suðausturlandi.

Á vef Veðurstofu Íslands segir að von sé á austan 15-23 metrum á sekúndu á Suðausturlandi og 18-25 á Suðurlandi. Á báðum svæðum megi búast við snörpum vindhviðum en á Suðurlandi er það aðallega undir Eyjafjöllum.

Þá er einnig búist við snjókomu eða skafrenningi með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni í morgun segir að búast megi við hviðum allt að 35 metrum á sekúndu undir Eyjafjöllum og í Mýrdal, frá því í kvöld þar til í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×