Innherji

Hækkar vexti um eina prósentu og út­lit fyrir meiri verð­bólgu en áður var spáð

Hörður Ægisson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. VÍSIR/VILHELM

Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur hækkað meginvexti bankans um eina prósentu – úr 6,5 prósentum í 7,5 prósent – samhliða auknum verðbólguþrýstingi og segir að við þessar aðstæður sé „mikilvægt að koma í veg fyrir víxlverkun hækkandi launa og verðlags.“ Vaxtahækkunin, sem er sú tólfta í röð, var heldur meiri en flestir greinendur og markaðsaðilar höfðu spáð fyrir um.

Fram kemur í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabankans að verðhækkanir séu að ná til æ fleiri þátta. Verðbólgan mælist nú 10,2 prósent og undirliggjandi verðbólga er 7,2 prósent.

„Verðbólguvæntingar til lengri tíma eru enn vel yfir markmiði og raunvextir bankans hafa lækkað frá síðasta fundi nefndarinnar. Útlit er fyrir að verðbólga verði meiri á næstunni en spáð var í febrúar þótt hægt hafi á húsnæðismarkaði,“ segir nefndin. 

Þetta er í þriðja sinn frá því í ársbyrjun 2022 sem peningastefnunefndin hækkar vextina um 100 punkta í einu vetfangi.

Samkvæmt könnun Innherja, sem var gerð á dögunum 16. til 17. mars, taldi mikill meirihluti markaðsaðila sem tók þátt í henni – greinendur, sjóðstjórar og hagfræðingar – að vextir yrðu hækkaðir um 75 punkta eða meira. Aðeins 5 af 22 þátttakendum spáði því hins vegar að þeir yrðu hækkaðir um 100 punkta. 

Peningastefnunefndin bendir á að hagvöxtur hafi verið mikill í fyrra, hann er áætlaður um sjö prósent, og vel umfram það sem þjóðarbúskapurinn getur staðið undir til lengdar. Þá hafi innlend eftirspurn aukist meira en gert var ráð fyrir í febrúar og vísbendingar eru um að hún hafi verið kröftugri en talið var. Nefndin vekur einnig athygli á því að spenna á vinnumarkaði, þar sem enn mælist mikill skortur á starfsfólki í mörgum atvinnugreinum, sé sömuleiðis „töluverð.“

„Við þessar aðstæður er mikilvægt að koma í veg fyrir víxlverkun hækkandi launa og verðlags, sérstaklega þegar litið er til mikillar spennu í þjóðarbúinu og komandi kjarasamninga,“ segir peningastefnunefndin í yfirlýsingu sinni.

Mikilvægt er að koma í veg fyrir víxlverkun hækkandi launa og verðlags, sérstaklega þegar litið er til mikillar spennu í þjóðarbúinu og komandi kjarasamninga.

Þá undirstrikar hún sömuleiðis, líkt og áður, að nefndin muni beita tækjum sínum til að tryggja betra jafnvægi í þjóðarbúskapnum og koma verðbólgu í markmið.

Peningastefnunefnd Seðlabankans hækkaði síðast vextina um 50 punkta í byrjun febrúar og tók þá sérstaklega fram að líklega þyrfti að auka aðhaldið enn frekar til að ná niður verðbólgunni í 2,5 prósenta markmið.

Frá þeim tíma hafa allar helstu hagtölur sýnt að ekkert lát er á áframhaldandi þenslu í hagkerfinu, sem birtist meðal annars í kortaveltutölum landsmanna, og þá var síðasta verðbólgumæling langt yfir spám greinenda. Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefur sömuleiðis hækkað verulega frá vaxtaákvörðun bankans í liðnum mánuði.  

Í könnun Innherja, sem var birt síðasta mánudag, kom meðal annars fram í rökstuðningi eins þátttakenda að bankinn ætti að hækka vexti um minnst 150 punkta ef ætlunin væri að ná niður verðbólgu á síðari hluta ársins.

„Þessi litlu skref í hækkun vaxta eru ekki mjög skilvirk. Taki Seðlabankinn stærri skref í einu getur hann hætt þessu hækkunarferli fyrr,“ segir hann. Enn sé mikil þensla í hagkerfinu sem megi rekja til launahækkana og hallarekstrar hins opinbera.

„Þá er enginn hvati fyrir neytendur til að draga úr eða fresta neyslu og auka þess í stað sparnað meðan að raunvextir eru neikvæðir, þ.e. nafnvextir eru lægri en undirliggjandi verðbólga. Seðlabankinn verður að hækka nafnvexti yfir undirliggjandi verðbólgu og það hratt, eigi hann að ná tökum á verðbólgunni.“


Tengdar fréttir

Fjár­festar búast við bröttum vaxta­hækkunum á næstunni

Óvænt verðbólgumæling leiddi til þess að ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisbréfa hækkaði umtalsvert í gær. Hækkun kröfunnar gefur til kynna dvínandi trú fjárfesta á að Seðlabankinn nái að koma böndum á verðbólguna en viðmælendur Innherja á fjármálamarkaði búast við því að Seðlabankinn bregðist við með verulegum vaxtahækkunum á næstunni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.