Innherji

„Lofts­lags­bankinn“ horfir til frekara sam­starfs við Lands­net

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Lánið frá Evrópska fjárfestingabankanum verður meðal annars nýtt til endurnýjunar á Hólasandslínu 3.
Lánið frá Evrópska fjárfestingabankanum verður meðal annars nýtt til endurnýjunar á Hólasandslínu 3. Aðsend

Fulltrúar Evrópska fjárfestingabankans funduðu á dögunum með íslenskum aðilum í því skyni að skoða lánveitingar til þeirra. Bankinn hefur lánað samanlagt 1,2 milljarða evra til verkefna hérlendis, einkum á sviði orkumála en einnig uppbyggingu fjarskiptainnviða og vega.

Í liðinni viku lánaði Evrópski fjárfestingarbankinn jafnvirði níu milljarða króna til Landsnets til að efla kerfið og auka afhendingaröryggi. Bankinn hafði ekki áður lánað Landsneti. Það má rekja til þess að Landsnet hefur ekki áður sóst eftir jafn stóru láni til uppbyggingar á innviðum. Lánið er til 15 ára.

Sandrine Croset, sem fer fyrir starfsemi Evrópska fjárfestingarbankans á Eystrasaltslöndum og Norður-Evrópu, segir í samtali við Innherja segir að verkefni Landsnets sé afar áhugavert því orkuframleiðsla á Íslandi sé sjálfbær og umhverfisvæn. Það sé í samræmi við áherslur bankans í lánamálum.

Sandrine Croset fer fyrir starfsemi Evrópska fjárfestingarbankans á Eystrasaltslöndum og Norður Evrópu.

Lánið verður nýtt til endurnýjunar á byggðalínu. Endurnýjun byggðalínunnar leggur grunn að auknu afhendingaröryggi og stuðlar að orkuskiptum á Íslandi. Nú þegar hafa tvær línur verið teknar í rekstur í nýrri kynslóð byggðalínunnar, Kröflulína 3 og Hólasandslína 3.

„Til útskýringar þá er Evrópski fjárfestingarbankinn ekki hefðbundinn banki. Við erum banki Evrópusambandsins. Við erum Loftlagsbankinn,“ segir Croset og nefnir að bankinn láni til uppbyggingar tengdum málaflokkum sem Evrópusambandið setji á oddinn. Um sé að ræða orkumál; loftslag og umhverfi; nýsköpun og styðja við veikari svæði efnahagslega.

Tæplega 60 prósent lána samstæðunnar runnu í verkefni sem höfðu jákvæð áhrif á loftslag. Það þarf þó ekki að þýða að aðrar lánveitingar vinni gegn loftlagsmálum heldur getur verið um að ræða til dæmis spítala.

Croset segir að uppbygging innviða Landsnets leiði til fjölgunar starfa og aukinna efnahagsumsvifa. „Það mun styðja við hagkerfið til langframa,“ segir hún. Dæmi um starfsemi sem njóti góðs af þessu sé gagnaver á Akureyri.

Vonast er til að lánveiting Evrópska fjárfestingarbankans verði fyrsta skrefið í frekari samstarfi um uppbyggingu á innviðum Landsnet. „Við leitumst eftir langtímasamstarf í okkar viðskiptum,“ segir Croset.

Við fjármögnum starfsemina með útgáfu skuldabréfa á markaði.

Oft getur Evrópski fjárfestingarbankinn boðið betri lánskjör en það er misjafnt, svarar Croset. „Við fjármögnum starfsemina með útgáfu skuldabréfa á markaði. Það skiptir máli hvernig kjör okkur bjóðast.“

Hún segir að bankinn hafi lánshæfiseinkunnina AAA í ljósi þess að eigendur hans séu þjóðir sem séu í Evrópusambandinu. Viðskiptavinir njóti góðs af þeim kjörum sem bjóðist. Bankinn taki einungis lítinn hluta sem þóknun til að standa straum af kostnaði.

Croset segir að viðskiptavinir horfi oft til nokkra þátta þegar tekið er lán hjá Evrópska fjárfestingarbankanum. Það sé til dæmis lánskjörin en einnig að bankinn sé reiðubúinn að taka áhættu sem aðrir treysti sér ekki til. Það geti verið um lánveitingu að ræða þar sem Evrópski fjárfestingarbankinn fái síðast greitt ef það syrtir í álinn. Að auki mætti nefna áhættu sem markist af því að fyrirtæki sé að stíga sín fyrstu skref með tiltekið verkefni. Áhættan geti því verið fólgin í hvernig verkefnið takist til eða viðbrögðum markaðarins.

Við erum banki Evrópusambandsins. Við erum Loftlagsbankinn.

Reglur Evrópska fjárfestingabankans kveða á um að hann láni helminginn af tilteknu verkefni. Áður en lánað er liggur fyrir hvaðan það sem eftir stendur af fjármagninu mun koma. Það getur verið eigið fé eða lánsfé svo sem frá viðskiptabanka, Norræna fjárfestingarbankanum – eins og á við í tilfelli Landsnets – eða skuldabréfaútgáfu.

Thomas Östros, framkvæmdastjóri hjá Evrópska fjárfestingarbankanum, sagði í tilkynningu þegar lán til Landsnets var kynnt, að á tímum loftslagsbreytinga séu orkuskipti mikilvæg um allan heim. 

„Við erum afar ánægð með að styðja Landsnet á þeirri vegferð að viðhalda afhendingaröryggi og bæta aðgengi að grænni orku um allt Ísland í samræmi við það hlutverk Evrópska fjárfestingarbankans að vera loftslagsbanki Evrópu. Við höfum áður stutt við framleiðslu endurnýjanlegrar orku í landinu og það að tryggja að græn orka sé fáanleg alls staðar er ekki aðeins gott fyrir heimamenn heldur opnar jafnframt á viðskiptamöguleika.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×