Innherji

Stjórn­endur Arion segja „hamlandi starfs­um­hverfi“ kalla á meiri vaxta­mun

Hörður Ægisson skrifar
Benedikt Gíslason bankastjóri Arion banka.
Benedikt Gíslason bankastjóri Arion banka. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Æðstu stjórnendur Arion gagnrýndu „hamlandi starfsumhverfi“ hér á landi á aðalfundi bankans í gær, sem þýddi að vaxtamunur þyrfti að vera hærri en ella til að ná fram sambærilegri arðsemi og erlendir keppinautar þeirra, og kölluðu eftir því að stjórnvöld myndu „jafna leikinn.“ Íslenskir bankar greiddu í fyrra um 70 til 80 prósent meira í heildarskatta borið saman við aðra norræna banka, að sögn bankastjóra Arion.

Stjórnvöld þurfa að „jafna samkeppnisstöðu innlendra banka gagnvart erlendum bönkum sem sækjast eftir viðskiptum íslenskra fyrirtækja, bönkum sem búa við lægri skatta en við, lægri kröfur um eigið fé og minna íþyngjandi fjármálaeftirlit,“ sagði Brynjólfur Bjarnason, sem var endurkjörinn stjórnarformaður bankans, í erindi sínu á fundinum. 

Ummæli stjórnenda Arion koma í kjölfar þess að Bjarkey Olsen, þingmaður Vinstri grænna og formaður fjárlaganefndar, beindi þeirri fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra í lok síðasta mánaðar hvort til álita kæmi að hækka að nýju hinn svonefnda bankaskatt. Vísaði Bjarkey máli sínu til stuðnings meðal annars til þess „mikla hagnaðar sem íslensku bankarnir skila og til að bregðast við háu vaxtastigi.“

Jafna þarf samkeppnisstöðu innlendra banka gagnvart erlendum bönkum sem búa við [...] minna íþyngjandi fjármálaeftirlit.

Áður hefur Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra viðrað svipaðar hugmyndir en í byrjun síðasta árs sagði hún að vegna „ofurhagnaðar“ bankanna ættu þeir að „greiða niður vexti fólks í landinu“ nú þegar vaxtastigið færi hækkandi. Að öðrum kosti væri tilefni til að „endurvekja bankaskattinn.“

Brynjólfur Bjarnason, stjórnarformaður Arion banka.

Bankaskatturinn, sem er lagður á heildarskuldir fjármálafyrirtækja yfir 50 milljarða, var lækkaður í 0,145 prósent fyrir um tveimur árum en hafði fram að því verið 0,376 prósent. Samtals greiddu bankarnir þrír, sem eru að stórum hluta í eigu ríkissjóðs, um 5,3 milljarða króna í bankaskatt á síðasta ári.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion, nefndi í ræðu sinni á aðalfundinum í gær að þegar litið væri til hinna Norðurlandanna þá skæri Ísland sig út þegar kæmi að sértækri skattlagningu á fjármálafyrirtæki. Fyrir utan Ísland væri Svíþjóð þannig eina Norðurlandaþjóðin sem legði sömuleiðis á skatt á skuldir banka, en skattprósentan hér á landi væri engu að síður um þrefalt hærri.

Samkvæmt samanburðargreiningu á sértækri skattlagningu á banka sem Benedikt kynnti á fundinum – fyrir utan bankaskattinn er þar um að ræða sérstakan skatt á laun starfsmanna og eins á hagnað umfram einn milljarð króna – þá stóðu slíkir skattar undir um 40 prósentum af heildarskattgreiðslum Arion á árinu 2022, sem voru um 12,1 milljarður króna.

Heimild: Kynning bankastjóra Arion á aðalfundi bankans.

Hagnaður bankans á sama tíma í fyrra, sem dróst saman um liðlega þrjá milljarða frá 2021, var um 25,4 milljarðar en arðsemi eigin fjár var 13,7 prósent, lítillega yfir markmiði Arion, sem er sá eini af stóru bönkunum þremur sem er alfarið í einkaeigu.

„Við erum að starfa í annars konar umhverfi en erlendir keppinautar,“ útskýrði Benedikt, og sagði að til þess að ná sambærilegri arðsemi og meðal annars aðrir norrænir bankar þá „útheimti“ það hærri vaxtamun. Þannig kom í kynningu hans að ef litið væri á heildarskattgreiðslur íslensku bankanna á liðnu ári þá hefðu þær numið á bilinu um 15 til 20 prósentum af rekstrartekjum þeirra – mest í tilfelli Landsbankans. Til samanburðar við fjóra aðra norræna banka – DNB, Handelsbanken, SEB og Nordea – þá var þetta hlutfall hins vegar liðlega 11 prósent á árinu 2022.

Ef það ætti að takast að bæta lánakjör íslenskra heimila og fyrirtækja, með því að minnka vaxtamuninn, þá þyrftu stjórnvöld að leita leiða til að draga úr sértækri skattlagningu á bankakerfið, að sögn Benedikts. Vísaði hann þar meðal annars til þess sem kom fram í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið, sem kom út árið 2018, þar sem sagði að „lækkun sértækra skatta væri skýrasta tækifæri íslenskra ríkisins til að draga úr vaxtamun.“

Heimild: Kynning bankastjóra Arion á aðalfundi bankans.

Þetta væri ekki síst mikilvægt, að mati bankastjóra Arion, í ljósi þess að íslensku bankarnir þyrftu á sama tíma að sæta umtalsvert hærri eiginfjárkröfum en aðrir norrænir bankar – og endurspeglast í því að vogunarhlutfall þeirra er allt að þrisvar sinnum hærra. Vaxtamunur íslensku bankanna í fyrra sem hlutfall af heildareignum var á bilinu 2,6 til 2,9 prósent á meðan hann var á sama tíma 1 til 1,6 prósent hjá öðrum stórum norrænum bönkum.  

„Þetta er álitaefni fyrir stjórnmálamenn og eftirlitsaðila til að fjalla um,“ sagði Benedikt.

Hika við að fjárfesta í bönkum vegna eignarhalds ríkisins

Stjórnarformaður Arion gerði einnig eignarhald ríkisins á Íslandsbanka og Landsbankanum að umtalsefni í erindi sínu – ríkissjóður fer með 42,5 prósenta hlut í Íslandsbanka og 99 prósenta hlut í Landsbankanum – og sagði það vera „enn umsvifamesta aðilann á íslenskum fjármálamarkaði.“ Það væri ekki „ákjósanlegt“ að Arion væri eini bankinn alfarið í einkaeigu enda þótt búið væri að taka skref á síðustu árum til að draga úr eignarhaldi ríkissjóðs.

Aðalatriðið er að losa um eignarhald ríkisins og auka með því tiltrú erlendra fjárfesta, sem nú hika við að fjárfesta í bönkum þegar stærsti bankinn er alfarið í ríkiseigu og ekki skráður í kauphöll.

„Hnökrar á framkvæmd sölu á 22,5 prósent hlut ríkisins í Íslandsbanka á síðastliðnu ári eiga ekki að verða til þess að horfið verði af þeirri braut að draga úr umsvifum ríkisins eða hægja á þeirri vegferð. Það þarf einfaldlega að læra af reynslunni og horfa til næstu skrefa,“ að mati Brynjólfs. 

Þá sagði hann að samrunaviðræður Kviku og Íslandsbanka, sem tilkynnt var um í byrjun síðasta mánaðar, væru „áhugaverðar vendingar“ og nefndi að það væri að minnsta kosti skoðun Arion banka, sem er eigandi Varðar, að samstarf banka- og tryggingafélags geti skilað hluthöfum og viðskiptavinum ábata.

„En það breytir því ekki að þegar kemur að eignarhaldi fjármálafyrirtækja þá er aðalatriðið að losa um eignarhald ríkisins og auka með því tiltrú erlendra fjárfesta, sem nú hika við að fjárfesta í bönkum þegar stærsti bankinn er alfarið í ríkiseigu og ekki skráður í kauphöll,“ að sögn Brynjólfs.


Tengdar fréttir

Stóru sam­legðar­tæki­færin á banka­markaði liggja í gegnum Kviku

Útlit er fyrir frekari samruna á fjármálamarkaði þar sem stjórnendur keppast við að leita leiða til hagræðingar á tímum hækkandi launakostnaðar og erfiðari markaðsaðstæðna. Sum af stærri fjármálafyrirtækjum landsins hafa að undanförnu mátað sig við hvort annað sem hefur nú leitt til þess stjórn að Íslandsbanka, sem fundar á morgun, mun væntanlega samþykkja ósk Kviku banka um að hefja samrunaviðræður milli félaganna. Óformlegt samtal um að sameina Kviku og Arion banka, sem margir höfðu spáð fyrir um, skiluðu ekki árangri en blessun frá Samkeppniseftirlitinu við slíkum bankasamruna gæti reynst þrautin þyngri.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.