Erlent

Frétta­maður og ung stúlka myrt nærri vett­vangi annars morðs

Atli Ísleifsson skrifar
Sami maðurinn er grunaður um árásirnar. Myndin er úr safni.
Sami maðurinn er grunaður um árásirnar. Myndin er úr safni. Getty

Bandarískur sjónvarpsfréttamaður og níu ára stúlka hafa verið skotin til bana í nágrenni Orlando í Flórída, nærri vettvangi annars morðs sem hafði verið framið fáeinum klukkustundum fyrr. Sami maðurinn er grunaður um árásirnar.

Lögregla segir að annar fréttamaður og móðir stúlkunnar sem lést hafi einnig særst í árásunum sem gerðar voru í Pine Hills, úthverfi Orlando, síðdegis í gær.

Sjónvarpsfréttamenn stöðvarinnar Spectrum News 13 voru á staðnum til að fjalla um morð á konu á þrítugsaldri sem hafi verið fram fyrr um daginn þegar meintur árásarmaður, hinn nítján ára Keith Moses, mætti aftur á staðinn. Konan sem myrt var fyrr um daginn hafði verið skotin til bana þar sem hún var stödd í bíl.

Lögregla segir að þegar Moses var búinn að skjóta sjónvarpsfréttamennina hélt hann að húsi í nágrenninu þar sem hann skaut mæðgurnar. Ástand móðurinnar er sagt vera alvarlegt.

BBC segir frá því að árásarmaðurinn hafi verið vopnaður og ekki farið að fyrirmælum lögreglu þegar hann var handtekinn. Enn á eftir að veita nánari upplýsingar um hin þrjú látnu.

Lögregla segir að árásarmaðurinn eigi langa sakaskrá, meðal annars fyrir vopnalagabrot, líkamsárásir og þjófnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×