Körfubolti

„Þessi tilraun mistókst“

Sindri Sverrisson skrifar
James Harden, Kevin Durant og Kyrie Irving sköpuðu ekki alveg þær góðu minningar sem vonast var til hjá Brooklyn Nets og eru nú allir farnir.
James Harden, Kevin Durant og Kyrie Irving sköpuðu ekki alveg þær góðu minningar sem vonast var til hjá Brooklyn Nets og eru nú allir farnir. AP

Körfuboltaheilinn Kjartan Atli Kjartansson segir að eftir tíðindi vikunnar í NBA-deildinni geti Phoenix Suns klárlega gert tilkall til meistaratitils og Los Angeles Lakers mögulega farið langt í úrslitakeppninni.

Stærstu tíðindi vikunnar voru vistaskipti Kevins Durant til Phoenix Suns þar sem hann hittir fyrir Chris Paul, Devin Booker og fleiri.

„Suns er núna algjörlega meistarakandídat. Ég myndi segja að liðið vanti aðeins meiri breidd og það er spurning hvað væri hægt að gera,“ sagði Kjartan Atli í Sportpakkanum á Stöð 2.

Brooklyn Nets fékk stóran pakka í staðinn fyrir Durant sem meðal annars innihélt fjóra fyrstu umferðar valrétti í nýliðavali á næstu árum. Félagið hafði fyrr í þessari viku horft á eftir hinni stórstjörnunni sinni, Kyrie Irving, til Dallas Mavericks.

„Fyrir að verða fjórum árum síðan lagði Brooklyn Nets upp í ferðalag. Fékk til sín Kevin Durant og Kyrie Irving. Síðar kom James Harden. Þessir þrír ætluðu sér að mynda ofurlið, sem þeir gerðu í smátíma. Þeir voru ósigrandi í nokkra mánuði, þegar þeir voru allir heilir. En þeir náðu ekki að vinna meira en eina seríu í úrslitakeppninni. Liðið náði aldrei þeim hæðum sem það átti að ná. Bæði Durant og Irving voru orðnir ósáttir, James Harden var farinn. Þannig að þessi tilraun mistókst,“ sagði Kjartan Atli.

Kjartan segir að Los Angeles Lakers, með LeBron James í broddi fylkingar, séu eftir viðskipti sín í vikunni orðnir mun álitlegra lið sem geti gert flotta hluti í vor.

„Lakers fékk D‘Angelo Russell frá Minnesota Timberwolves sem er búinn að spila mjög vel á þessari leiktíð. Malik Beasley kom frá Utah Jazz og er frábær skytta, og svo fengu þeir Jarred Vanderbilt sömuleiðis frá Jazz sem er mjög vanmetinn leikmaður, frábær varnarmaður. Þessir þrír með LeBron James og Anthony Davis eru mjög sterkt fimm manna lið. Núna er Lakers-liðið mikið betra en það var í byrjun vikunnar og ég gæti séð fyrir mér LeBron og félaga fara langt í úrslitakeppninni. Þeir eru núna með feykilega sterkt byrjunarlið.“

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×