Í pósti sem smálánafyrirtækið Núnú sendi notendum á dögunum kom fram að allir þeir sem tækju lán frá miðnætti 27. janúar til miðnættis 29. janúar færu í pott og hefðu möguleika á að vinna áskrift að Síminn Premium með enska boltanum en fimm yrðu dregnir út.
Þetta er svo ógeðslega siðlaust. Bara what the fuck. Taktu endilega lán sem ættu að vera ólögleg til fá vinning??? pic.twitter.com/Lm7f5Mbozl
— Elísabet Ýr (@elisabetyr203) January 26, 2023
Pósturinn vakti athygli á samfélagsmiðlum þar sem einhverjir lýstu yfir undrun og gagnrýndu fyrirtækið harðlega. Svipuð dæmi hafa sést áður að sögn Breka Karlssonar, formanns Neytendasamtakanna.
„Þetta fyrirtæki hefur gert þetta áður, reynt að lokka til sín viðskiptavini á þennan hátt og veita einhver smá verðlaun. En kostnaðurinn við svona lán er mun hærri en sem nemur mögulegum vinningi,“ segir Breki.
„Við getum ekki séð að það sé neitt ólöglegt við þetta en að okkar mati er aldrei góð hugmynd að taka smálán,“ segir hann enn fremur.
Lánin geti verið mjög dýr, sérstaklega ef þau fara í innheimtu en svo virðist sem að fyrirtækin hafi breytt um viðskiptamódel.

„Þessi fyrirtæki og fyrirrennarar þess eru að veita lán sem eru innan ramma laganna hvað varðar lántökukostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar. En viðskiptamódelið byggist, að því er okkur virðist, á því að leggja á innheimtukostnað.
Lánum sé til að mynda skipt upp í hluta til að hámarka kostnaðinn. Til dæmis ef um væri að ræða 60 þúsund króna lán þá yrði því skipt í fimm tólf þúsund króna lán, með tilheyrandi innheimtukostnaði.
„Því miður höfum við ekki fylgt nágrannalöndunum okkar sem hafa sett hámark á innheimtukostnað slíkra lána og við höfum séð svona lán tugfaldast í kostnaði á einungis örfáum vikum,“ segir Breki.
Fólk er hvatt til að forðast gylliboð og eru skilaboð Neytendasamtakanna skýr.
„Ekki er allt gull sem glóir og við hvetjum öll til þess að forðast smálán eins og heitan eldinn,“ segir Breki.