Atvinnulíf

„Mér finnst ég eiginlega vera að svindla í lífinu!“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Kolbrún Björnsdóttir leiðsögumaður segist nánast skammast sín fyrir hvað henni finnst gaman í vinnunni. Svo gaman reyndar að stundum líði henni eins og hún sé að svindla í lífinu. Botninum var náð hjá henni þegar hún var fertug og í svo slæmu formi að eigin sögn, að hún varð móð af því einu að syngja barnavísur.
Kolbrún Björnsdóttir leiðsögumaður segist nánast skammast sín fyrir hvað henni finnst gaman í vinnunni. Svo gaman reyndar að stundum líði henni eins og hún sé að svindla í lífinu. Botninum var náð hjá henni þegar hún var fertug og í svo slæmu formi að eigin sögn, að hún varð móð af því einu að syngja barnavísur. Vísir/Vilhelm

Eftir að Kolbrún Björnsdóttir leiðsögukona hætti í Bítinu á Bylgjunni hefur hún forðast að vakna mjög snemma á morgnana. Nema hún sé á leiðinni í flug. Kolbrún elskar starfið sitt, en segir vinnuna frekar fljótandi þar sem vinnutíminn er ekki fastur nema hún sé í göngu.

Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.

Hvenær vaknar þú á morgnana?

„Helst eins seint og hægt er. Eftir að hafa vaknað í ótalmörg ár fyrir allar aldir í morgunútvarpinu þá fer ég ekki lengur snemma á fætur nema ég sé á leiðinni í flug. Ég er þó aðeins búin að eyðileggja þessi notalegheit með því að fara í ræktina á morgnana en kemst þó alltaf að því í hvert skipti að það er ekkert svo hræðilegt að fara á fætur, jafnvel fyrir klukkan sjö.“

Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?

„Þegar ég er ekki að raska rútinu með næturvöktum í Konukoti þá fer ég tvo morgna í viku í styrktarþjálfun með manninum mínum og tvo morgna byrja ég daginn í Primal. Hina morgnana nýt ég þess að kúra aðeins undir sæng og renna yfir internetið í símanum.“

Hvað er fyndnasta, fáránlegasta eða óraunhæfasta áramótamarkmið sem þú hefur sett þér?

Það klikkaðasta var áramótaheitið mitt fyrir fertugsafmælið mitt. Ég var búin að átta mig á því að ég væri í engu formi, gat ekki sungið barnavísur án þess að mæðast og fékk í alvörunni harðsperrur í upphandleggsvöðvana eftir að hafa hnoðað deig í brauðbollur. 

Það var ákveðinn botn í lífinu og ég sá að þetta gat ekki gengið til lengdar.

Leitin að skemmtilegri hreyfingu varð því að forgangsatriði og það má segja að á þessum tímapunkti hafi ég breyst í þessa týpu sem gerir allt eða ekkert.

Ég byrjaði að hjóla hringinn í kringum landið, fór svo að hlaupa, synda, á gönguskíði og í fjallgöngur. Hætti í fjölmiðlum, fór að vinna í hjólabúð, stofnaði minn eigin gönguhóp, fór í leiðsögunám og hætti að gera allt sem ég var áður að gera og gjörsamlega kúventi lífinu.

Hefði einhver sagt mér þetta þegar ég strengdi þetta, að ég hélt saklausa áramótaheit um að byrja að hreyfa mig, þá hefði ég skellihlegið og talið viðkomandi vera alveg búinn að tapa sér.“

Þegar Kolbrún byrjaði sjálf að ganga á fjöll þorði hún ekki að skrá sig í göngur hjá Fjallafélaginu, heldur stofnaði sinn eiginn kvennagönguhóp, Fjallkyrjur. Fjallkyrjur eru núna að sameinast Fjallafélaginu, sem Kolbrún segist afar spennt fyrir. Í næstu viku fer hún til Tanzaníu en framundan eru ferðir bæði innanlands og erlendis. Vísir/Vilhelm

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

„Nú er ég að undirbúa næstu mánuði í útivistinni. Ég var að færa mig alfarið yfir til Fjallafélagsins og er að fara af stað með tvo gönguhópa þar í lok janúar. Þetta eru hópar fyrir konur, annar fyrir þær sem eru að byrja og þær sem vilja fara hægar yfir og hinn fyrir þær sem eru vanari og vilja fara kannski aðeins lengra og hærra. Við ætlum að leika okkur saman á fjöllum fram á sumar og enda allur hópurinn saman á gönguhelgi í Þórsmörk í lok maí. 

Ég er ótrúlega spennt fyrir að vera með kvennaverkefni hjá Fjallafélaginu því þegar ég byrjaði að ganga á fjöll á sínum tíma þá þorði ég ekki að skrá mig í göngur hjá þeim. Þess í stað stofnaði ég minn eigin gönguhóp, Fjallkyrjur, en nú eru Fjallkyrjur á leið í Fjallafélagið því hóparnir munu bera það nafn. Það er eitthvað svo fallegt við það að loka hringnum svona og bjóða konum, sem líður kannski eins og mér leið um árið, að ganga með okkur.

Næst er svo að huga að komandi utanlandsferðum en þær eru nokkuð margar þetta árið, bæði til Nepal og Tanzaníu með hópa að upplifa mögnuð ævintýri. Það er eitt það skemmtilegasta sem ég geri. Ég er einmitt á leiðinni til Tanzaníu í næstu viku, reyndar í frí, en ég ætla að skoða í leiðinni fallegu eyjuna Zanzibar þar sem ég fer með hópa þangað í sumar. 

Ég skammast mín næstum fyrir það hvað það er gaman í vinnunni hjá mér, mér finnst ég eiginlega vera að svindla í lífinu!“

Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?

„Ég kynni mér þá staði sem ég fer á, bæði hér heima og erlendis. Fer og geng leiðirnar, þannig að ekkert komi á óvart. Vinnan mín snýst svo að stórum hluta um samskipti við fólk. Ég reyni eftir fremsta megni að miðla miklum og góðum upplýsingum til allra svo öll séu vel undirbúin því þannig verður upplifunin best. Það hefur allaveganna reynst mér afskaplega vel. Annars er vinnan mín frekar fljótandi og ekki fastur vinnutími, nema þegar ég er í göngum.“

Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?

„Ég var einu sinni agalega kvöldsvæf. Það breyttist svo aðeins í hina áttina en hefur verið að ganga hratt til baka undanfarið og ég oft orðin ansi sybbin óþarflega snemma á kvöldin. Ætli ég fari ekki oftast að sofa um ellefuleytið? Stundum eftir að hafa lagt mig aðeins í sófanum.“


Tengdar fréttir

Bjarni gefur sjálfum sér 8,5 í einkunn fyrir jólagjafakaup fyrir frúna

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra segir margar góðar hugmyndir geta vaknað þegar hann fer í bað snemma á morgnana. Og sendir þá tölvupósta og skilaboð út um allar trissur eða hlustar á hlaðvarpsþátt. Bjarni vaknar snemma, sofnar snemma og segist standa sig vel í að velja jólagjafir fyrir frúna.

Eins og hauslaus hæna í matvörubúð og ekki eldað síðan 2009

Það mátti litlu muna að Guðfinnur Sigurvinsson létist úr næringaskorti í október síðastliðnum. Því þá var hann einn heima í mánuð og svo lélegur er hann í eldamennskuna að málin stóðu tæpt þegar eiginmaðurinn kom loks heim fjarveru vegna vinnu. Guðfinnur er rakari á Rakarastofunni Herramönnum í Kópavogi og bæjarfulltrúi í Garðabæ. Ásamt fleiru.

Fyrsta verk dagsins að þagga niður nöldurvælið í frú Sigríði Jósafínu

Brynhildur Ólafsdóttir útiþjálfari og leiðsögumaður segist markvisst vera að temja sér meira kæruleysi. Enda sé það skemmtilegra, afslappaðra og heilbrigðara fyrir taugakerfið. Brynhildur byrjar daginn á að sinna kettinum frú Sigríði Jósefínu sem hefur enga þolinmæði gagnvart eiganda sem fer seint á fætur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×