Umræðan

Hið árvissa metnaðarleysi í málefnum fjölmiðla

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar

Eins og gefur að skilja hafa fjölmiðlafyrirtæki ágætistilfinningu fyrir því hvað gagnast þeim best til þess að efla sína starfsemi. Vissulega þarf að hafa á bak við eyrað að fjárhagslegir hagsmunir geta litað afstöðu einstakra fyrirtækja til lagabreytinga en ef ætlunin er á annað borð að smíða skilvirkt stuðningskerfi verður ekki hjá því komist að taka tillit til sjónarmiða þeirra sem þiggja stuðninginn og ráðstafa honum. Rétt eins og frumvörpin sem komu á undan ber nýtt frumvarp menningarmálaráðherra um beina styrki til fjölmiðla ekki merki þess. 

Rauði þráðurinn í umsögnum stærstu einkareknu fjölmiðlanna, þeirra sem halda úti fullburða fréttaþjónustu af því tagi sem styrkjunum er ætlað að varðveita og efla, er og hefur ávallt verið sá að styrkjakerfið sé meingallað. Í meira en fjögur ár, allt frá því að ráðherra kynnti áform sín um að koma á fót styrkjakerfi árið 2018, hafa þau ítrekað gert grein fyrir því hvers vegna kerfið er ólíklegt til að hafa tilætluð áhrif og jafnframt hafa fyrirtækin lagt fram skynsamlegri tillögur til að leysa vandann sem fjölmiðlar glíma við.

Þrátt fyrir að ekki finnist vottur af eftirspurn, hvorki frá hinum endanlegu gefendum né þeim þiggjendum sem mestu máli skipta, hefur ráðherra tekist að festa styrkjakerfið í sessi.

Eins og rakið er í síðustu umsögn Árvakurs getur ríkið hætt að keppa við einkarekna fjölmiðla á auglýsingamarkaði, nú eða leyft auglýsingar áfengis, sem dynja hvort eð er á almenningi á netinu. Ef stjórnvöld eru staðráðin í að veita beinan stuðning geta þau einfaldlega fellt niður virðisaukaskatt af áskriftum fjölmiðla eða lækkað tryggingagjald á starfsmenn. Sýn segir í umsögn sinni að til lengri tíma litið sé nauðsynlegt að leggja skatt á erlendar efnis- og streymisveitur og nýta fjármagn sem fæst með þeim hætti til að styðja við einkarekna fjölmiðla. Allt eru þetta betri og heilbrigðari tillögur en þær sem ráðherra vill troða ofan í kokið á fjölmiðlum og skattgreiðendum.

Styrkjakerfið er gallað á þrenna vegu. Ef til eru skilvirkari leiðir til að styðja við fjölmiðla felur það í sér sóun á skattfé – ekki var vöntun á henni fyrir – og enn verra er að það gerir fjölmiðla, sem gegna því hlutverki að veita stjórnvöldum aðhald, að bótaþegum. Í þriðja lagi er kerfið útfært þannig smærri miðlar fá hlutfallslega mun hærri styrki. Svo aftur sé vitnað í umsögn Árvakurs var þar bent á að stuðningur á hvern starfsmann fyrirtækisins hefði verið um 0,5 milljónir króna samanborið við 1,5 til 2 milljónir hjá smærri miðlum. Með öðrum orðum hygla stjórnvöld þeim miðlum sem hafa minni burði og er hin mesta ráðgáta hvernig þess konar fyrirkomulag er ætlað að efla fjölmiðlun.

Trúverðugleiki slíkra yfirlýsinga dalar óðum og er nú á pari við blaðamannafundi um nýja þjóðarhöll í Laugardalnum.

Þrátt fyrir að ekki finnist vottur af eftirspurn, hvorki frá hinum endanlegu gefendum né þeim þiggjendum sem mestu máli skipta, hefur ráðherra tekist að festa styrkjakerfið í sessi. Nú er orðinn árviss viðburður að frumvarp þess efnis sé lagt fram við dræmar undirtektir og á hverju ári er hægt að slá því föstu að ráðherra láti hjá líða að takast á við orsök versnandi rekstrarumhverfis fjölmiðla, þ.e. umsvif erlendra miðla og Ríkisútvarpsins.

Liðin eru nærri tvö ár frá því að ráðherra kvaðst ætla að leggja fram frumvarp um skattlagningu á erlendar streymisveitur og samfélagsmiðla en ekkert hefur spurst til frumvarpsins. Kvaðir á erlendar efnisveitur hafa nú þegar verið lagðar á í tólf ríkjum ESB og fimm ríki eru með slíkar kvaðir til skoðunar. Jafnframt hefur ráðherra ítrekað talað fyrir því að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði – ein elsta niðurstaðan á leitarvef Google er frá árinu 2019 – en áfram stendur ríkisstofnunin óhögguð. Trúverðugleiki slíkra yfirlýsinga dalar óðum og er nú á pari við blaðamannafundi um nýja þjóðarhöll í Laugardalnum.

Höfundur er viðskiptablaðamaður á Innherja



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×