Umræðan

Vinnum saman að framförum

Sigurður Hannesson skrifar

Lærdómur síðustu ára er að búast við hinu óvænta. Heimsfaraldur kórónuveiru og innrás Rússa í Úkraínu hafa komið hagkerfum heims úr jafnvægi svo um munar. Aðfangakeðjur hafa raskast sem hefur áhrif til hins verra á framleiðslu um heim allan, bæði hvað varðar afhendingartíma og kostnað. Orkukrísa í Evrópu hefur haft afgerandi áhrif á lífskjör almennings í álfunni og aukið enn á verðbólgu. Seðlabankar hafa brugðist við með hækkun vaxta og því til viðbótar hefur vaxtaálag hækkað samhliða óvissu. Fjármagnskostnaður er því mun hærri en verið hefur um árabil og gæti það dregið úr fjárfestingu ef ástandið dregst á langinn. Spennustig í heiminum hefur aukist talsvert og gæti það haft langvarandi áhrif á alþjóðleg viðskipti og þá alþjóðavæðingu sem ríkt hefur síðan seint á síðustu öld. Þó Ísland sé eyja þá erum við ekki eyland í alþjóðlegum heimi og efnahagsáföll erlendis hafa fyrr eða síðar áhrif hér á landi. Með samstilltum aðgerðum stjórnvalda og atvinnulífs má efla viðnámsþróttinn þannig að ytri áföll hafi minni áhrif en ella.

Meira í dag en í gær

Það er ekki sjálfsagt að skapa verðmæti við þessar aðstæður. Þeir 44 þúsund stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja í iðnaði á Íslandi hafa unnið mikið og gott starf við að halda uppi starfsemi, fá aðföng tímanlega og leitað allra leiða til að hagræða í rekstri. Það er svo stjórnvalda að skapa samkeppnishæfa umgjörð svo rekstrarskilyrði hér séu ekki meira íþyngjandi en annars staðar. Þar er helst horft til fjögurra þátta. Að menntun og mannauður mæti þörfum atvinnulífsins, að umgjörð nýsköpunar sé hvetjandi, að innviðir séu traustir og styðji við verðmætasköpun og að starfsumhverfi sé stöðugt, skilvirkt og hagkvæmt. Á undanförnum árum hafa orðið hér miklar umbætur sem gera það að verkum að íslenskt hagkerfi er vel búið undir áföll. Enn eru til staðar tækifæri sem hægt er að sækja ef viljinn stendur til. Aukinn stöðugleiki á húsnæðismarkaði og aukinn útflutningur með uppbyggingu hugverkaiðnaðar – fjórðu stoðarinnar – eru dæmi um það. Þannig verða til eftirsótt störf og aukin verðmæti til skiptanna. Meira í dag en í gær.

Stöðugri húsnæðismarkaður

Stöðugleiki á húsnæðismarkaði er mikið hagsmunamál fyrir alla landsmenn. Hækkanir á húsnæðisverði eru einn helsti verðbólguvaldurinn núna og væri verðbólga á Íslandi ein sú lægsta í Evrópu ef húsnæðisliðnum væri sleppt eins og tíðkast erlendis. Með útsjónarsemi í byggingariðnaði og markvissum umbótum stjórnvalda erum við þó að upplifa sex ár í röð þar sem íbúðauppbygging er nokkuð stöðug. Með samstilltu átaki ríkis, sveitarfélaga, stofnana og iðnaðarins er hægt að auka enn stöðugleika með því að haga framboði af húsnæði í takt við eftirspurn.

Seðlabankar hafa brugðist við með hækkun vaxta og því til viðbótar hefur vaxtaálag hækkað samhliða óvissu. Fjármagnskostnaður er því mun hærri en verið hefur um árabil og gæti það dregið úr fjárfestingu ef ástandið dregst á langinn.

Það var mikilvæg og framsýn ákvörðun ríkisstjórnarinnar að setja á laggirnar innviðaráðuneyti og hefur ráðherra málaflokksins sannarlega farið vel af stað. Það var mikilvæg yfirlýsing ráðherra um að byggðar yrðu nægilegar margar íbúðir næsta áratuginn til að mæta þörf landsmanna. Unnið er að gerð samninga við sveitarfélögin um uppbygginguna og þar með munu ríki og sveitarfélög í fyrsta sinn ganga í takt í þessum efnum.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur unnið gott starf undanfarin ár og var stórum áfanga náð nýverið þegar gagnagrunnur HMS var kynntur til sögunnar þar sem hægt er að fá rauntímaupplýsingar um íbúðir í byggingu. Samtök iðnaðarins (SI) gátu því hætt að telja íbúðir í byggingu en starfsmaður SI hefur farið um landið tvisvar á ári frá árinu 2010 til þess að telja. Hafa þetta verið bestu upplýsingarnar um framboðshliðina sem völ hefur verið á. Við hjá SI fögnum því að geta hætt að telja árið 2023.

Átakshópar stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins auk OECD hafa bent á fjölmargar leiðir til að einfalda regluverk byggingariðnaðar og gera uppbyggingu skilvirkari og hagkvæmari. Iðnaðurinn mun sannarlega gera sitt til þess að greiða götu uppbyggingar og er tilhlökkun til samstarfs við stjórnvöld á þeim grunni á nýju ári. Gangi allt þetta eftir mun húsnæðismarkaður verða stöðugri sem er mikið framfaramál fyrir alla landsmenn.

Á meðan íslenskt menntakerfi annar ekki eftirspurn fyrirtækja í hugverkaiðnaði þarf að greiða götu erlendra sérfræðinga hingað til lands.

Það er ánægjulegt, en sýnir um leið þá grósku sem ríkir í mannvirkjagerð að greinin var sú fyrsta til að setja sér markmið og aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og er þar fyrirmynd annarra atvinnugreina. Losun í byggingariðnaði er talsverð á heimsvísu en með markvissum aðgerðum iðnaðarins og stjórnvalda auk hugvits má draga verulega úr losuninni.

Hugverkaiðnaður verðmætasta útflutningsstoðin

Með óþrjótandi drifkrafti frumkvöðla og markvissri fjárfestingu stjórnvalda í nýsköpun í rúman áratug hefur orðið til verðmætasta útflutningsstoðin ef horft er til veltu. Hugverkaiðnaður samanstendur af fjölbreyttum iðnaði, hátækniiðnaði, líf- og heilbrigðistækni, kvikmyndaframleiðslu, tölvuleikjagerð og lyfjaframleiðslu svo dæmi séu tekin. Eiga þessar greinar það sameiginlegt að verðmætasköpun þeirra byggir á hugverkum. Ef rétt er á málum haldið verður hugverkaiðnaður stærsta útflutningsstoðin við lok þessa áratugar.

Í greiningu SI sem gerð var í byrjun þessa árs kom fram að ráða þarf níu þúsund sérfræðinga til starfa á næstu fimm árum ef vaxtartækifæri í hugverkaiðnaði eiga að verða að veruleika. Það munar um minna. Á meðan íslenskt menntakerfi annar ekki eftirspurn fyrirtækja í hugverkaiðnaði þarf að greiða götu erlendra sérfræðinga hingað til lands. Það er vissulega stórt verkefni en til mikils er að vinna enda verða með því til fjölbreyttari störf, meiri verðmæti og útflutningstekjur.

Gleymum því ekki að stjórnvöld í öðrum ríkjum vinna stöðugt að umbótum til að efla samkeppnishæfni. Með því að gera ekkert þá drögumst við aftur úr.

Orka og grænn iðnaður

Þá liggja mikil tækifæri í enn frekari nýtingu grænnar orku og orkuskiptum. Metafkoma Landsvirkjunar í ár er mikið gleðiefni og sýnir glöggt hvernig íslenskt hagkerfi nýtur góðs af því þegar vel gengur í orkusæknum iðnaði. Slíkur iðnaður hefur þróast í tímans rás og eru sannarlega spennandi tækifæri framundan í grænni iðnbyltingu. Annars vegar mun núverandi iðnaður verða enn grænni með tímanum en öll fyrirtæki hafa sett sér markmið um kolefnishlutleysi og vinna hörðum höndum að árangri. Hins vegar eru tækifæri sem spennandi verður að sjá hvernig þróast. Má þar nefna tækifæri á sviði matvælaframleiðslu, líftækni og vetnis- og rafeldsneytisframleiðslu samhliða orkuskiptum. Í grænu iðnbyltingunni verða til eftirsótt störf og aukin verðmæti og getum við verið í fararbroddi á heimsvísu í þessum efnum ef viljinn er til staðar. Iðnaðurinn er reiðubúinn. Á vefnum orkuskipti.is er vísað í greiningu verkfræðistofunnar Eflu sem metur efnahagslegan ávinning af orkuskiptum 1.400 milljarða króna. Það munar um minna fyrir íslenskt samfélag.

Viljinn er allt sem þarf

Það efast enginn um einlægan vilja kjörinna fulltrúa til þess að bæta samfélagið. Tækifærin eru sannarlega til staðar og viljinn er allt sem þarf til þess að styrkja stoðir hagkerfisins, skapa eftirsótt störf um land allt, auka verðmætin og skapa stöðugleika. Okkur hefur miðað vel á þessari braut með markvissum aðgerðum en þurfum að halda áfram. Gleymum því ekki að stjórnvöld í öðrum ríkjum vinna stöðugt að umbótum til að efla samkeppnishæfni. Með því að gera ekkert þá drögumst við aftur úr. Þær umbætur sem hafa átt sér stað á síðustu árum efla okkur nú á óvissutímum og gera hagkerfið betur í stakk búið að takast á við áföll. Öflugur og framsækinn iðnaður sem skapar verðmæti á óvissutímum er forsenda þess að Ísland verði áfram í fremstu röð.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×