Neytendur

Liður í góðum viðskiptaháttum að hafa rúman skilafrest

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna segir að aukning sé á fyrirspurnum um skilafresti verslana.
Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna segir að aukning sé á fyrirspurnum um skilafresti verslana.

Mikil aukning er á fyrirspurnum til Neytendasamtakanna vegna of naums skilafrest á vörum. Formaður samtakanna segir að þrátt fyrir að engin eiginleg lög nái yfir skilafrest þá sé það liður í góðum viðskiptaháttum að gefa viðskiptavinum sínum rúman frest til að skila vörum sem þeir hafa ekki not fyrir. Þær verslanir sem komi vel fram við viðskiptavini séu bæði langlífar og dafni jafnan betur.

Í dag er fyrsti opnunardagur verslana eftir jól og því líklegt að margir geri sér ferð til að skila jólagjöfum sem þeir hafa ekki not fyrir, það er að segja ef fólk á annað borð treystir sér út í vetrarríkið sem úti er. Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir að mikil aukning hafi verið á fyrirspurnum til samtakanna því skilafrestur hjá nokkrum verslunum sé aðeins fram að áramótum og því hætt við að fólk brenni inni með vörurnar.

„Þótt það gildi engin lög um skilarétt á ógallaðri vöru þá er það nú samt þannig að til verklagsreglur sem viðskiptaráðuneytið gaf út árið 2000 þar sem lagt er til að verslanir veiti fólki tækifæri til að skila vöru sem það getur ekki notað. Ef skyrtan sem þú fékkst í jólagjöf er einu númeri of stór, eða þér líkar ekki sokkarnir eða þvíumlíkt þá eru verklagsreglurnar þannig að fólk á að hafa 14 daga til að skila þeim en í raun og veru eru engin lög sem um þetta gilda beint og verslunum því í sjálfsvald sett og margar verslanir sem hafa mun rýmri skilarétt og er það vel.“

Breki bendir á að of naumur skilafrestur, með tilheyrandi óþægindum fyrir viðskiptavini, sé slæmur fyrir verslunina sjálfa til lengri tíma litið.

„Þær verslanir sem gera vel við viðskiptavini sína þær eru nú þær sem lifa lengur og dafna betur því þetta er náttúrulega þjónusta sem verslanir eru að veita sínum viðskiptavinum og flestar ef ekki allar verslanir vilja viðskiptavinum sínum vel. Þetta er bara liður í góðum viðskiptaháttum,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna sem hvetur fólk til að hafa samband ef það lendir í vandræðum með skilavörur.

„Við stöndum vaktina nú sem endranær.“


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×