Atvinnulíf

Að peppa upp dauðþreytt starfsfólk í desember

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Desember er mesti álagstími margra vinnustaða og þá er mikilvægt að stjórnendur gefi sér tíma fyrir starfsfólkið. En ekkert síður að stjórnendur séu sjálfir fyrirmynd. Líka í því að hvíla sig á milli vinnudaga eða vakta.
Desember er mesti álagstími margra vinnustaða og þá er mikilvægt að stjórnendur gefi sér tíma fyrir starfsfólkið. En ekkert síður að stjórnendur séu sjálfir fyrirmynd. Líka í því að hvíla sig á milli vinnudaga eða vakta. Vísir/Vilhelm

Á mörgum stöðum er desember stærsti sölumánuðurinn. Mesti álagstími ársins fyrir starfsfólk. Sem þó, til viðbótar við að vinna mikið, er líka að undirbúa sín jól. Með tilheyrandi stússi.

Það er því alveg eðlilegt að álagið reyni á. Sérstaklega þegar nær dregur jólum. 

Hér eru nokkur ráð fyrir stjórnendur að hafa í huga, til þess að peppa þreytt starfsfólk upp og efla nú þegar álagið er hvað mest.

1. Gefðu þér tíma í starfsfólkið

Upplýsingamiðlun og góð samskipti við starfsfólk eru alltaf mikilvæg. En sjaldan eins mikilvæg og þegar álagið er mikið og starfsfólk er orðið þreytt. Skýringin á þessu er einfaldlega sú að með því að leggja áherslu á upplýsingamiðlun og góð samskipti og gefa sér sérstaklega tíma til þess að tala við starfsfólk þótt það sé mikið að gera, eru stjórnendur mögulega að sporna við ofþreytu eða jafnvel kulnun á síðari stigum. Þessum tíma er því vel varið.

2. Jafnvægi heimilis og vinnu: Hvað gætir þú gert eða boðið?

Þótt opnunartímar séu víða lengri í desember og vinnudagar langir, eru stjórnendur hvattir til þess að gera það sem hægt er til þess að koma til móts við starfsfólk hvað varðar jafnvægi heimilis og vinnu. 

Ef það er til dæmis hægt að mynda einhvern sveigjanleika í mætingu, að skipta á milli sín hálfum eða heilum aukafrídögum eða eitthvað sem gerir fólki kleift að hvílast eða nýta tímann til að undirbúa sín jól, eru stjórnendur hvattir til bjóða þennan sveigjanleika, eða umbun í formi frís, fram.

3. Að virða fríið

Flestir vinnustaðir eru litlir og meðalstórir og það á ekki síst við um þá vinnustaði þar sem álagið er hvað mest fyrir jólin. Þess vegna er stjórnendum bent á að virða vel frítímann sem starfsfólkið þó hefur á milli vakta eða vinnudaga. 

Ekki að senda Messenger skilaboð eða önnur skilaboð á kvöldin eða um helgar þegar það er frí og svo framvegis. Nema erindið sé þeim mun brýnna.

4. Að vera fyrirmynd

Þá er það alltaf mjög gott ef stjórnendur eru meðvitaðir um að þeir eru mesta fyrirmyndin sjálf. Ef starfsfólki er ætlað að sinna viðskiptavinum með brosi á vör þrátt fyrir langa daga og mikið álag, er mælt með því að stjórnendur sýni í verki að þeir eru tilbúnir til að gera slíkt hið sama.

Að sama skapi er mikilvægt að stjórnendur sýni að það að taka sér hvíld á milli vinnudaga eða vakta, er líka mjög mikilvægt. 

Algeng gryfja er til dæmis að á þessum tíma ársins, kveðji stjórnendur starfsfólk í lok dags en vinni sjálfir áfram fram eftir kvöldi. Frekar er mælt með því að stjórnendur séu fyrirmyndir í því líka, að hvíla sig á milli vinnudaga og of keyra sig ekki. Því ofkeyrsla í álagi gagnast engum og er líklegt til að bitna á því jákvæða dagsformi sem við erum frekar í þegar við erum betur hvíld.

5. Það sem léttir á álagi

Allt sem mögulega getur létt á miklu álagi hjálpar. Þetta getur verið aukafólk sem kallað er til part úr degi eða á vissum dögum.

En þetta getur líka verið útsjónarsemi og skipulag. Allt sem hægt er að gera í dag, bíður ekki til morguns og svo framvegis.

Að dreifa álagi eins og kostur er, er því gott markmið. Hér má til dæmis minna á að þegar er orðið mjög þreytt, aukast líkurnar á að það geti orðið veikt og hér eru alltaf einhverjar flensur að ganga. Þótt það séu að koma jól.


Tengdar fréttir

Að æfa þakklæti í vinnunni getur margborgað sig

Rannsóknir til fjölda ára hafa sýnt mjög sterkt samband á milli þess að vera þakklát fyrir það sem við eigum og höfum og hamingju. Skiptir þá engu máli hvar eða hver við erum. Að lifa í þakklæti hefur hreinlega mjög jákvæð áhrif á það hvernig okkur líður.

Oft snúast kaup á vöru frekar um öryggistilfinningu en lægsta verðið

„Mikilvægasta hlutverk vörumerkis er að fólk taki eftir því og muni eftir því. Það þýðir að vinnan við að byggja upp vörumerki þarf að vera löngu hafin áður en hin árlega auglýsingasturlun hefst í kringum jólin og allt það áreiti sem því fylgir,“ segir Kári Sævarsson, stofnandi TVIST auglýsingastofu um þær áherslur sem þurfa að vera hjá söluaðilum sem nú eru í óða önn að setja sig í stellingar til að selja sem mest fyrir jólin.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×