Neytendur

Sumir hækka úr fimm og hálfri í sjö milljónir

Snorri Másson skrifar

Ragnar Þór Ægisson, bílasali og meðeigandi Bílamiðstöðvarinnar, segir að reikna megi með því að rafbílar sem nú eru niðurgreiddir að hluta af hinu opinbera muni í sumum tilvikum hækka í verði úr til dæmis eins og 5,5 milljónum í sjö milljónir.

Bílarnir séu endilega að verða mun dýrari nú þegar ívilnanir stjórnvalda falla úr gildi þegar 20 þúsund bíla hámarki stjórnvalda er náð. Það gæti gerst í lok þessa árs eða jafnvel um mitt næsta ár: „Eins og Nissan Leaf og þannig bílar, þar sem við erum að hámarka niðurfellinguna í, þar verður hann alveg niðurfellingunni dýrari. Í staðinn fyrir að vera 5,5 milljónir þá ertu kominn nær sjö milljónunum,“ segir Ragnar Þór.

Ragnar Þór Ægisson rekur bílasöluna Bílamiðstöðina ásamt bróður sínum.Vísir/Einar

Ragnar var til viðtals í Íslandi í dag, viðtalið hefst hér að ofan á  þar sem farið var yfir vendingar á bílamarkaði eftir heimsfaraldur. Hann er heldur rólegri enda fólk á ferðinni, en engu að síður kom sú staða upp fyrr á þessu ári að bílasala sárvantaði bíla til sölu.

Rafbílarnir séu einkar mikið teknir nú í aðdraganda niðurfellingarinnar. „Þá er bíllinn eðli máls samkvæmt að verða dýrari. Það er orðinn mikið meiri hiti í kringum rafbílana. Fólk vill kaupa meira af þeim áður en þetta hækkar í verði, en það er nú ekki alveg fyrirséð að þetta detti alveg út alveg um áramótin strax,“ segir Ragnar. Að auki segir hann hætt við að það hægist á endurnýjun í átt til rafbíla nú þegar umræddar ívilnanir falla brott.

Það fer eftir aðstæðum hvort hagstæðara er að kaupa rafbíl en bensínbíl, en Ragnar segir það matsatriði eftir því hve mikill aksturinn er hvort bensínkostnaðurinn sem menn losna við á rafmagnsbíl vegi upp á móti afborgunum á bílaláni. Vegna yfirvofandi hækkunar sé rafmagnsbíll þó í mörgum tilvikum góð ákvörðun eins og staðan er í dag.

Hvernig er þessi bíll á litinn?Vísir/Einar

Komið hefur fram að 79% allra nýskráðra bíla á Íslandi árið 2022 séu svartir, hvítir eða gráir á litinn; það sem einhverjir myndu lýsa sem litlausir. Þetta er að hluta til bílaleigunum að kenna að sögn Ragnars. „Það er náttúrulega af því að bílaleigurnar kaupa svo mikið af nýju bílunum og það er ljós grunnur á nýjum bílum í dag.  Því velja þeir mikið til hvítt, silfurgrátt og þessa ljósu liti, af því að þá er steinkastið minna áberandi og annað slíkt,“ segir Ragnar. 


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×