Innherji

Genís klárar 2,4 milljarða króna hlutafjáraukningu

Hörður Ægisson skrifar
Genís er leiðandi íslenskt líftæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í vöruþróun og framleiðslu á kítínafurðum. Fyrirtækið var stofnað árið 2005 og eru höfuðstöðvar og framleiðsla þess á Siglufirði.
Genís er leiðandi íslenskt líftæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í vöruþróun og framleiðslu á kítínafurðum. Fyrirtækið var stofnað árið 2005 og eru höfuðstöðvar og framleiðsla þess á Siglufirði.

Íslenska líftæknifyrirtækið Genís sem hefur um tveggja áratuga skeið unnið að rannsóknum og þróun á lífvirkum kítínfásykrum til notkunar í fæðubótarefnum, lyfjum og við beinígræðslu hefur lokið fjármögnun sem felur í sér hlutafjáraukningu að fjárhæð 2,4 milljarðar króna.

Íslenskir og alþjóðlegir fjárfestar hafa bæst við hluthafahópinn og hafa nokkrir þeirra áratuga reynslu af störfum innan lyfjageirans. Meðal nýrra hluthafa eru fjárfestarnir Andri Sveinsson, Sigþór Sigmarsson, sem tekur sæti í stjórn félagsins, og Sigurgeir Guðlaugsson, forstjóri Genís, en þeir störfuðu allir saman á sínum tíma hjá fjárfestingafélaginu Novator. Þá kemur einnig tryggingafélagið TM og alþjóðlega fjárfestingafélagið TM inn í hlutahafahópinn.

Í tilkynningu frá Genís, sem var stofnað árið 2005 og eru höfuðstöðvar þess og framleiðsla á Siglufirði, er sagt að fjármögnuninni sé fyrst og fremst ætlað að styðja við áframhaldandi forklínískar rannsóknir og þróun lyfja ásamt áframhaldandi markaðssókn félagsins á erlendum mörkuðum.

Róbert Guðfinnsson er stofnandi og stjórnarformaður Genís.Vísir/Egill

Róbert Guðfinnsson, stofnandi og stjórnarformaður Genís, segir að með því að fá inn jafn reynslumikla hluthafa og raun ber vitni séu „einstaklega ánægjuleg tímamót í sögu félagsins og styrkir þá trú okkar sem höfum unnið að uppbyggingu Genís frá árinu 2005 að við séum á réttri leið og að gríðarlega spennandi tækifæri séu framundan.“

Ráðgjafi Genís við hlutafjáraukninguna var fyrirtækjaráðgjöf Arion banka. KPMG Law veitti Genís lögfræðilega ráðgjöf í ferlinu og var lögmannsstofan LOGOS lögfræðilegur ráðgjafi nýrra fjárfesta.

Markmið Genís er að mæta óuppfylltri þörf með því að veita árangursríkar lausnir við ýmsum bólgusjúkdómum. Þá hefur félagið um árabil unnið að þróun beinígræðslulausna sem byggjast á endurnýjunar-, beinvirkni-, og bakteríudrepandi eiginleikum kítínafleiða. Árið 2016 kom á markað fyrsta vara Genís - fæðubótarefnið Benecta - sem hefur frá upphafi verið eitt af mest seldu fæðubótarefnum landsins auk þess að vera selt á evrópskum markaði.

Þessi fjármögnun gerir okkur kleift að stíga næstu skref í lyfjaþróun með tilheyrandi fjölgun starfsfólks og auknum umsvifum á ýmsum sviðum.

Í upphafi árs tók Sigurgeir Guðlaugsson við sem forstjóri félagsins og hefur hann víðtæka reynslu úr lyfjageiranum. Hann hefur setið í stjórnum og sinnt margvíslegum stjórnunarstörfum meðal annars fyrir Actavis Group, Novator, Enzymatica AB, Zymetech og Coripharma Holding.

Í tilkynningu frá Genís er haft eftir Sigurgeiri að það séu mikil forréttindi að hafa fengið að taka við stjórnartaumunum hjá Genís á þessum tímapunkti.

„Frá upphafi hefur verið lögð rík áhersla á öflugt rannsóknar- og þróunarstarf og vísindalegur grunnur félagsins er því afar sterkur. Þá hefur einnig verið fjárfest mikið í framleiðsluferlum og fullkominni framleiðsluaðstöðu á Siglufirði. Í allri þessari þekkingu felast mikil verðmæti og gerir þessi fjármögnun okkur kleift að stíga næstu skref í lyfjaþróun með tilheyrandi fjölgun starfsfólks og auknum umsvifum á ýmsum sviðum.”Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.