Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. Deildin hafði spáð 0,44 prósent hækkun á vísitölu neysluverðs og raunveruleg hækkun því meiri en von var á. Deildin segir að mesta hækkun á matvöruverði síðan í maí árið 2020 skýri hækkunina.
Kjöt hækkaði um 4,8 prósent í verði milli mánaða. Verð á lambakjöti hækkaði mest eða um 16,7 prósent.
Húsaleiga og verð á húsgögnum hækka
Í Hagsjánni segir að spáð sé 0,27 prósenta hækkun á vísitölu neysluverðs í næsta mánuði. Ef svo fer mun tólf mánaða verðbólga fara aftur niður í 9,3 prósent.
Spáð er 0,89 prósent hækkun á húsaleigu og mun sú hækkun bera ábyrgð á helmingi hækkun vísitölu neysluverðs. Þá mun verð á húsgögnum og heimilisbúnaði hækka um 0,77 prósent.
Veikst hratt á skömmum tíma
Hagfræðideildin segir gengi krónunnar hafa veikst hratt á stuttum tíma. Evran var 143 krónur í upphafi mánaðar en fór yfir 150 evrur fyrir þremur dögum síðan.
„Þetta er mjög hröð veiking á stuttum tíma en veikinguna má að mestu leyti rekja til aukins vöruskiptahalla á síðustu mánuðum. Hann skýrist svo aftur bæði af auknum vöruinnflutningi og minni vöruútflutningi,“ segir í Hagsjánni.
Gengisþróun meginóvissuþáttur
Spáð er umtalsvert hærri verðbólgu á næstu mánuðum en spáð var í síðasta mánuði. Upphaflega var spáð 8,8 prósent verðbólgu í nóvember en því var síðar breytt í 9,3 prósent. Nú er spáð 9,5 prósent verðbólgu í desember en gert ráð fyrir að hún falli fljótt eftir það. Hún verði komin í 8,8 prósent í janúar og 8,4 prósent í febrúar.
„Líkt og oft áður er gengisþróun krónunnar einn meginóvissuþátturinn í spánni. Sem fyrr segir gerum við samt ráð fyrir því að krónan muni leita til styrkingar til lengri tíma litið og skýrist það af því að við teljum að strax á næsta ári verði afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum,“ segir í Hagsjánni.