Innherji

Straum­laust á Höfða­torgi í sex tíma í gær

Þórður Gunnarsson skrifar
Höfðatorg stendur við Katrínartún 2-4 og hýsir meðal annars Reiknistofu bankanna, Biskipsstofu, Kviku og Hamborgarafabrikkuna.
Höfðatorg stendur við Katrínartún 2-4 og hýsir meðal annars Reiknistofu bankanna, Biskipsstofu, Kviku og Hamborgarafabrikkuna.

Skammhlaup var í rafmagnstöflu í turninum við Katrínartún 2-4 klukkan 15 í gær með þeim afleiðingum að rafmagnslaust var í hluta hússins í um það bil sex klukkustundir. Reiknistofa bankanna og tvö greiðslumiðlunarfyrirtæki eru meðal þeirra sem eru með starfsemi í húsinu.

Fasteignafélagið Reginn er eigandi Höfðatorgs. Að sögn Helga S Gunnarssonar, forstjóra Regins, varð skammhlaup í einni af rafmagnstöflum hússins sem olli lítilli sprengingu. Það hafði þær afleiðingar að það kviknaði í rafmagnstöflunni en stutta stund tók að ráða niðurlögum eldsins. Viðgerð á rafmagnstöflunni tók á milli fimm og sex klukkutíma.

Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins

„Varaaflstöðvarnar sinntu sínu hlutverki vel og hluti hússins missti ekki straum á meðan viðgerðinni stóð,“ segir Helgi. Ásamt Reiknistofu bankanna og greiðslumiðlunarfyrirtækjunum Salt Pay og Greiðslumiðlun ehf, er Kvika banki með höfuðstöðvar sínar í Höfðatorgi og dótturfélag Kviku, Tryggingamiðstöðin. Allt fyrirtæki sem telja má kerfislega mikilvæg og þau höfðu forgang á rafmagnið sem varaaflstöðvarnar framleiddu á meðan viðgerð stóð.

Á meðal annarra fyrirtækja og stofnana sem eru með starfsemi í Turninum eru embætti Landlæknis, Samherji, Nox Medical, verkfræðistofan Verkhönnun, innheimtufyrirtækið Motus, Hamborgarafabrikkan, Fjármálaeftirlitið og Biskupsstofa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×