Umræðan

Norðurheimskautið hitnar

Ana Palacio skrifar

Aðeins þremur mánuðum eftir að Rússar hófu grimmilega árás sína á Úkraínu hefur NATO nú hafið sína stærstu heræfingu síðustu þrjá áratugina. Æfingin fer fram á Norðurheimskautssvæðinu og 30 þúsund hermenn frá 27 löndum taka þátt í lofti, á láði og legi. Aðgerðin Cold Response 2022, sem Noregur hýsir, sýnir hversu mikil spennan í alþjóðamálum er orðin og það líka á svæði sem hingað til hefur verið ónæmt fyrir óróa á sviði alþjóðastjórnmála.

Mikilvægi Norðurheimskautsins er ekki nýtilkomið. Á tímum kalda stríðsins lá stysta flugleið langdrægra eldflauga yfir Norðurpólinn. Kafbátar gátu verið þar í felum, þökk sé þykkri íshellunni og óaðgengilegum aðstæðum til skipasamgangna.

Nýlegar vendingar á sviði alþjóðastjórnmála, einkum og sér í lagi átökin í Úkraínu, hafa undirstrikað umbreytingu Norðurheimskautsins sem eitt leiksviða samkeppni á vettvangi stórveldahagsmuna.

Endalok kalda stríðsins og Sovétríkjanna ýttu úr vör nýju tímabili minni hernaðarumsvifa og aukinnar alþjóðsamvinnu, einkum í umhverfismálum. Þessi breyting naut stuðnings Heimskautaráðsins – alþjóðlegri málstofu sem hóf starfsemi 1996 – sem segir í stofnsáttmála sínum að verkefni ráðsins séu ekki hernaðarlegs eðlis.

Heimskautið hefur hins vegar orðið stærra bitbein þjóða á undanförnum árum. Það er að hluta til vegna hnattrænnar hlýnunar – Norðurheimskautið hitnar þrisvar til fjórum sinnum hraðar en heimsmeðaltalið – sem hefur opnað möguleika á nýjum siglingaleiðum og aukið aðgengi að þeim náttúruauðlindum sem er að finna á svæðinu.

Kína hefur einkum unnið að því að auka aðgengi sitt að Norðurheimskautinu. Árið 2018 lýsti ríkið sig „nær-heimskautaríki“ og kynnti fyrirætlanir um að koma á heimskauts-silkileið sem myndi tengja Norður-Ameríku, Austur-Asíu og Vestur-Evrópu í gegnum Norðurheimskautið. Þetta átti að vera hluti af Belti og braut-átaki þeirra. Þessir áætlanir voru enn frekar ítrekaðar þegar Kína samþykkti síðustu 14 ára áætlun sína árið 2021.

Hernaðarvæðing Norðurheimskautsins hefur verið marga áratugi í undirbúningi. Vesturlönd eru þó rétt að vakna til lífsins.

Nýlegar vendingar á sviði alþjóðastjórnmála, einkum og sér í lagi átökin í Úkraínu, hafa undirstrikað umbreytingu Norðurheimskautsins sem eitt leiksviða samkeppni á vettvangi stórveldahagsmuna. Svíþjóð og Finnland hafa horfið frá langvarandi hlutleysi og sótt um inngöngu í NATO í kjölfar innrásar Rússa.

Þetta eru ekki góðar fréttir fyrir Norðurheimskautsráðið. Eftir að Svíþjóð og Finnland hafa fengið inngöngu í NATO verður Rússland eini meðlimur ráðsins sem er ekki í NATO. Aðrir meðlimir ráðsins hafa þegar ákveðið að sniðganga alla fundi ráðsins sem haldnir verða í Rússlandi, sem hefur yfirráð yfir formannsembætti þess sem sakir standa.

Hvað varðar Rússland sjálft hefur landið hingað til lagt áherslu á hernaðarviðveru í Svartahafi og á Kákasussvæðinu. Þrátt fyrir það hefur landið alltaf litið á Norðurheimskautið sem óaðskiljanlegan hluta Evrasíu. Mikilvægar efnahagslegar ástæður liggja að baki þessu: Um það bil 10 prósent af vergri landsframleiðslu Rússa má rekja til heimskautsins og um fimmtung útflutnings. Rússland hefur markverða hernaðarviðveru á heimskautinu að viðbættum Norðurflota þeirra sem á heimahöfn í Severomorsk.

Í nýjustu stefnumörkun Rússa vegna Norðurheimskautsins sem birt var árið 2020 kveður við nokkuð nýjan tón. Stefna Rússa snýr að því að gera norðlægustu breiddargráðurnar „alþjóðlega samkeppnishæfa flutningaleið“ sem tryggir „fullveldi Rússlands og yfirráð yfir landsvæðum.“

Að auki gæti Kína fyllt upp í þau göt sem viðskiptaþvinganir Vesturlanda gagnvart Rússlandi hafa skilið eftir sig

Fyrir Rússland og Kína – sem tilkynntu „samvinnu án takmarkana“ skömmu fyrir innrásina í Úkraínu – hefur samvinna á Norðurheimskautinu augljósa kosti. Kína getur nýtt sér rótgróna viðveru Rússlands á svæðinu. Tæknilega innviði, rannsóknastörf á svæðinu auk styttri og hagkvæmari siglingaleiða til Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu.

Fyrir Rússland liggur helsti kosturinn í breiðara samstarfi við Kína, sem væri Rússlandi mikilvægur bandamaður í því verkefni að skora Vesturlönd á hólm í viðskipta- og stjórnmálalegu tilliti. Að auki gæti Kína fyllt upp í þau göt sem viðskiptaþvinganir Vesturlanda gagnvart Rússlandi hafa skilið eftir sig.

Hernaðarvæðing Norðurheimskautsins hefur verið marga áratugi í undirbúningi. Vesturlönd eru þó rétt að vakna til lífsins. Í nýlegri umfjöllun NATO segir að Rússland hafi getu til að hamla umsvifum bandalagsþjóða í Norðurhöfum á átakatímum. Í stefnumótun Evrópusambandsins vegna norðurslóða er engin boðleg nálgun í þessum efnum.

Ef Rússland dregur sig úr ráðinu vegna þess að landið telur áhrif NATO of sterk innan þess myndi óstöðugleiki aukast á svæðinu. Það myndi opna leiðina inn fyrir Kína.

Að vonast eftir því að átök um Norðurheimskautið hætti að sjálfu sér væri óskhyggja. Grípa verður til aðgerða til að draga úr hættu á átökum. Vesturlönd þurfa – í samstarfi við lönd á borð við Japan og Suður-Kóreu – að finna rétta jafnvægið á milli erindisrekstrar og ákveðni. Vernda þarf Norðurheimskautsráðið með öllum ráðum. Ef Rússland dregur sig úr ráðinu vegna þess að landið telur áhrif NATO of sterk innan þess myndi óstöðugleiki aukast á svæðinu. Það myndi opna leiðina inn fyrir Kína að auka áhrif sín á svæðinu.


Ana Palacio er fyrrverandi utanríkisráðherra Spánar og fyrrverandi varaforseti og aðallögfræðingur Alþjóðabankans. Hún starfar nú við Georgetown-háskóla. @Project Syndicate, 2022.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×