Makamál

Þarf ekki alltaf flugelda til að halda í neistann í hjónabandinu

Ása Ninna Pétursdóttir skrifar
Leikkonan Svandís Dóra Einarsdóttir opnar sig um leiklistina, ástina og rómantíkina í viðtalsliðnum Ást er. 
Leikkonan Svandís Dóra Einarsdóttir opnar sig um leiklistina, ástina og rómantíkina í viðtalsliðnum Ást er. 

„Það voru töfrar í loftinu sem leystu eitthvað úr læðingi og þá var ekki aftur snúið,“ segir leikkonan og listakonan Svandís Dóra Einarsdóttir um fyrstu kynni hennar og eiginmannsins Sigtryggs Magnasonar. 

Gerir ekki upp á milli leikhússins og sjónvarpsins

Þessa dagana er Svandís á kafi í tökum fyrir sjónvarpsþáttaseríuna Aftureldingu, sem sýnd verður næstu páska á RÚV. 

„Ég fæ svo reyndar að skjótast næstu helgi á kvikmyndahátíð í Tallinn til þess að fylgja eftir myndinni Sumarljós og svo kemur nóttin sem er nú verið er að sýna í kvikmyndahúsum hér heima.“

Svandís er sjálfstætt starfandi leikkona og hefur bæði verið að taka að sér verkefni á sjónvarpsskjánum sem og í leikhúsi en næst er það Þjóðleikhúsið sem kallar.

„Bráðlega fer ég svo að æfa ótrúlega spennandi nýtt verk sem heitir Til hamingju með að vera mannleg sem verður frumsýnt á stóra sviði Þjóðleikhússins í apríl.“

Aðspurð hvort heilli hana meira að leika í sjónvarpi eða á fjölum leikhússins segist hún ómögulega get gert þar upp á milli. 

„Fyrst og fremst er það sagan og persónurnar sem heilla mig. Undanfarin ár hef ég verið meira að vinna við sjónvarp og ég elska allt við það.“ 

En svo fer ég að sakna leikhússins ef það líður of langur tími á milli. Þannig að ég er bara ótrúlega þakklát að fá tækifæri til þess að gera bæði. Ég er mjög spennt að fara aftur á svið. Ég elska leikhúsið.

Laus við jólastress og of miklar hefðir

Breytingar og árstíðarbreytingar eiga sérstaklega upp á borðið hjá Svandísi sem segist spennt fyrir vetrinum. Þó hún viðurkenni að hún sé smá jólabarn kærir hún sig ekki um jólalög fyrr en í desember. 

Svandís saknar leikhússins ef það líður of langur tími á milli verkefna þar. 

„Svo hef ég reyndar aldrei fengið mikið út úr því að skreyta eitthvað brjálæðislega. Set upp seríur frekar snemma til þess að fá birtu en er tiltölulega laus við jólastress og að þurfa að halda í of miklar hefðir. 

Það eru litlu stundirnar sem ég elska. Mandarínuilmur og jólaglögg, kanill út í kaffið, kertaljós og kúr, göngutúrar í snjógöllum og jólapeysur.“

Svandís ólst upp við það að eyða öðrum hvorum jólum á Flórída þar sem foreldrar hennar störfuðu í ferðabransanum. 

Svo að þegar ég sé pálmatré þá fer ég alltaf í pínu jólaskap. Það kenndi mér líka að taka jólin ekki allt of hátíðlega og vera ekki of föst í hefðum og veraldlegum hlutum. Heldur njóta stundanna með fólkinu mínu sama hvar maður er. Ég er mjög þakklát fyrir það.

Ástarsprenging á Ísafirði

Svandís Dóra er gift Sigtryggi Magnasyni, aðstoðarmanni innviðaráðherra og skáldi en það mætti segja að leiklistin hafi leitt þau saman. 

„Við kynntumst þegar ég var að leika í Nemendaleikhúsinu í verki eftir hann sem hét Bráðum hata ég þig, sem var eitt af útskriftarverkunum okkar úr Listaháskólanum. Í kjölfarið fórum við að vinna að nýju verki sem hann var að skrifa sem hann vildi fá mig í þannig að samstarf okkar hélt áfram og vinskapur þróaðist.

Það var svo um páskana 2010 á Ísafirði, á rokkhátíðinni Aldrei fór ég suður, að ástarhjólin fóru að snúast fyrir alvöru. 

Við hittumst óvænt fyrir vestan og það varð eiginlega bara sprenging. Það voru einhverjir töfrar í loftinu sem leystu eitthvað úr læðingi og þá var ekki aftur snúið.

Passa upp á sambandið

Svandís og Sigtryggur kynntust árið 2010 og var það leiklistin sem leiddi þau saman í byrjun. 

Hvernig haldið þið neistanum lifandi í hjónabandinu? 

Já, veistu við erum bara ansi dugleg að hlúa að hvort öðru. Auðvitað koma tímabil sem við náum ekki að gera eins mikið saman og okkur langar en við erum mjög meðvituð um að vinna að sambandinu okkar og passa uppá það. 

Eldri börnin segir Svandís vera flogin úr hreiðrinu en yngsta barnið, þriggja ára sonurinn, kalli eðlilega á fleiri stundir heima við.

 „Við erum kannski ekki eins mikið að fara út á stefnumót eins og við gerðum en við aðlögum okkur. Reynum þá meira að hafa notalegar stundir heima þegar hann er sofnaður en jú, auðvitað fáum við líka stundum pössun og förum út - það er nauðsynlegt!“

Hjónin eru mjög samheldin, eiga mörg sameiginleg áhugamál og eru dugleg að vaða saman út í ný ævintýri.

„Við fórum saman í 40 dagana sem er frábært námskeið hjá Iceland Power Yoga og í kjölfarið förum við oft saman í jóga. Svo förum við auðvitað mikið á hestbak og svo langar okkur að fara saman á dansnámskeið og læra argentínskan tangó.“

Hjónin eru mjög samheldin og dugleg að prófa nýja hluti saman og vaða út í ný ævintýri.

Sonnettur, tásunudd og hausaklór

Þegar það er mikið að gera og minni tími til að eyða saman segir Svandís þau dugleg að halda neistanum lifandi. 

Það þarf ekki alltaf svaka flugelda. Stundum er líka hægt að senda heit skilaboð eða skapa eftirvæntingu til þess að fíra eldinn. Þetta þarf ekki að vera flókið. 

Einlæg samskipti um líðan segir hún einnig mikilvæg fyrir hjón til að þroskast saman. 

„Að tala saman opinskátt og í hreinskilni um væntingar og líðan, ef það er eitthvað sem við getum bætt okkur í. Svo bara að muna að njóta. Ekki taka sjálfum sér né lífinu of alvarlega og aldrei að hætta að leika sér.“

Aðspurð um rómantíkina segir Svandís þau hjónin bæði mjög rómantísk og elski að koma hvoru öðru á óvart. 

„Það þarf ekki að vera mikið eða kosta neitt. Ég elska fersk blóm og hann er mjög duglegur að færa mér blóm án tilefnis. Fyrir mér er rómantík að skapa skemmtileg móment og upplifanir. 

Hvort sem það er að bjóða maka sínum út á tryllt stefnumót, gefa honum tásunudd eða hausaklór yfir fréttunum, yrkja til hans sonnettu eða segja ég elska þig á koddanum um leið og þið vaknið.“

Bæði eru þau Svandís og Sigtryggur miklir rómantíkerar og elska að koma hvoru öðru á óvart. 

Hér fyrir neðan svarar Svandís spurningum í viðtalsliðnum Ást er:


Uppáhalds rómantíska kvikmyndin mín er: Oh, mér finnst svo erfitt að velja svona uppáhalds, það er svo margt sem mér finnst skemmtilegt. Fyrsta sem poppaði upp var Love Actually, kannski því það er svo stutt í jólin. Jú og Notebook!

Fyrsti kossinn: Ég á enga sérstaka minningu um „fyrsta kossinn.“ Ég held án djóks að það hafi bara verið í einhverjum kyssuleik í 8.bekk.

Uppáhalds brake-up power ballaðan mín er: Ég verð að viðurkenna að ég á enga power ballöðu sem ég tengi við sambandsslit. Ég man í kringum tvítugt þá átti ég smá dramatískt tímabil og hlustaði þá á Muse til að fá tilfinningalega útrás og svo Damien Rice og klassíska tónlist til að fara inn. Ég á mun fleiri svona pepp power lög sem gefa mér kraft heldur en hitt.

Lagið „okkar“ er: Fyrsti kossinn var við lagið Thank you með Dikta á Aldrei fór ég suður en svo elskum við Guanóstelpan mín með Mugison. Það lag var í brúðkaupinu okkar.

Mér finnst rómantískt stefnumót vera: Það að njóta samvista og vera saman og samstíga í mómentinu.

Uppáhaldsmaturinn minn: Fallegur matur eldaður af ást. Maðurinn minn er frábær kokkur og elskar að elda góðan mat fyrir okkur. Ég er samt betri á grillinu og sé um það.

Fyrsta gjöfin sem ég gaf manninum mínum: Ljóðabókin Bréf til næturinnar eftir Kristínu Jónsdóttur.

Fyrsta gjöfin sem maðurinn minn gaf mér: Falleg orð í ástarbréfi.

Ég elska að: Njóta og vera til.

Ævintýrahjónin Svandís og Sigtryggur. 

Maðurinn minn er: Stórkostlegur maður. Hjartahlýr með stóran faðm og minn mesti stuðningsmaður. Algjörlega frábær pabbi og við krakkarnir getum alltaf leitað til hans.

Hann er mjög skemmtilegur og er nánast alltaf til í allt sem mér dettur í hug. Svo er hann líka sjúklega heitur!

Rómantískasti staður á landinu er: Við elskum að ferðast og upplifa nýja hluti. Það eru margir staðir sem koma upp í huga minn eins og til dæmis París, Beirút og inni í frumskógum Kerala á Indlandi. 

En ef ég ætti að velja eitt myndi ég segja að liggja í faðmlögum fyrir utan fjallakofa uppi á hálendi Íslands í hestaferð. Grútskítug í lopapeysum. Það er fátt sem toppar þá tilfinningu.

Ást er: Uppspretta alls.



Tengdar fréttir

„Varð skotin í honum um leið og ég hitti hann“

Með huga fullan af hugmyndum og hjarta af eldmóð, réttlætiskennd og baráttuþreki hefur hin 25 ára Sólborg Guðbrandsdóttir lyft grettistaki í forvarna- og fræðslustarfi fyrir börn og unglinga. 

Notar eiginmanninn sem tilraunadýr í bakstrinum

„Ég ákvað að prófa að sækja um í skólanum Le cordon bleu, fékk inn og svo vorum við flutt til London rúmum tveimur mánuðum síðar,“ segir Sylvía Haukdal Brynjarsdóttir í viðtali við Makamál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×