Innlent

Neitað um gistingu vegna Co­vid og fékk endur­greitt

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Sýnatökur á Suðurlandsbraut heyra sögunni til en þegar manninum var neitað um gistingu hafði öllum sóttvarnaraðgerðum verið aflétt.
Sýnatökur á Suðurlandsbraut heyra sögunni til en þegar manninum var neitað um gistingu hafði öllum sóttvarnaraðgerðum verið aflétt. Vísir/Vilhelm

Hóteli hefur verið gert að endurgreiða ferðamanni rúmar 340 evrur vegna gistingar. Hótelið neitaði manninum um gistingu vegna þess að hann var smitaður af kórónuveirunni. Á þeim tímapunkti hafði öllum sóttavarnaraðgerðum verið aflétt. 

Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa kvað upp úrskurð í vikunni.

Ferðamaðurinn bókaði gistingu í gegnum bókunarfyrirtæki í fjórar nætur í mars á þessu ári. Hann greiddi bókunina fyrir fram - án möguleika á endurgreiðslu - en um var að ræða svokallaða óafturkræfa (e. un-refundable) bókun.

Þegar ferðamaðurinn mætti á hótelið var honum tjáð að hótelið hefði upplýsingar um að hann væri smitaður af Covid, og fengi því ekki gistingu. Var honum hafnað um endurgreiðslu með vísan til þess að greiðslan hafi verið óafturkræf samkvæmt bókuninni.

Eins og fyrr segir hafði öllum sóttvarnartakmörkunum verið aflétt þegar manninum var neitað um gistingu og engar kröfur gerðar um einangrun eða sóttkví. Kærunefndin sagði ekkert benda til annars en að hótelið hafi getað veitt ferðamanninum gistingu og bæri því að endurgreiða honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×