Umræðan

Skál í sýndar-kampavíni

María Kristjánsdóttir skrifar

Titill greinarinnar kann að hljóma furðulega, en staðreyndin er þó sú að í nánustu framtíð verður hægt að nálgast kampavín og aðrar vörur og þjónustu í sýndarveruleika. Í byrjun október 2022 bárust fregnir þess efnis að fyrirtækið Moët Hennessy, framleiðandi hins heimsþekkta kampavíns Moet & Chandon, hefði sótt um skráningu á vörumerkjum sínum fyrir vörur í sýndarveruleika, eða það sem í daglegu tali er kallað „metaverse“.

Moët Hennessy er þó langt í frá eina fyrirtækið til að skrá vörumerki sín til notkunar í sýndarveruleika. Fjöldi heimsþekktra vörumerkja hafa á undanförnum misserum farið sömu leið, til dæmis Nike, Disney, Gucci, Louis Vuitton, KFC og Hyundai. Framangreind þróun á rætur sínar í Bandaríkjunum, en færist sífellt í aukana á öðrum svæðum. Um miðjan september 2022 hafði Hugverkastofnun Evrópusambandsins (EUIPO) borist hátt í 3000 umsóknir um skráningar vörumerkja til notkunar fyrir vörur og þjónustu í sýndarveruleika.

En hvað er metaverse? Hugtakið fékk mikla athygli í kjölfar tilkynningar Mark Zuckerberg um breytingu á nafni samfélagsmiðlarisans Facebook í Meta í október 2021. Samhliða nafnabreytingunni var gefið út nokkuð sérstakt myndband þar sem Zuckerberg fjallaði um útgáfu Meta af metaverse sýndarveruleikanum þar sem þátttakendur gætu átt í margskonar samskiptum við hvern annan sem „avatar“ eða eins konar stafræn alter egó.

Um miðjan september 2022 hafði Hugverkastofnun Evrópusambandsins (EUIPO) borist hátt í 3000 umsóknir um skráningar vörumerkja til notkunar fyrir vörur og þjónustu í sýndarveruleika.

Hugtakið metaverse er hins vegar ekki nýtt af nálinni og saga þess spannar um þrjá áratugi. Hugtakið mun fyrst hafa verið notað í vísindaskáldsögu Neil Stephenson, Snow Crash, sem kom út árið 1992, en um var að ræða samskeytingu orðanna meta og universe. Einföld útskýring á hugtakinu er sýndarheimur þar sem notendur geta átt samskipti sín á milli og tengst hver öðrum á ótal vegu, spilað leiki, verslað og unnið saman, á meðan þeir koma sér þægilega fyrir í sófanum heima hjá sér. Í metaverse er hægt að kaupa sýndar-vörur, nokkurs konar net-eftirlíkingar af raunverulegum vörum. Þátttakendur í metaverse geta þannig keypt og klætt avatarana sína upp í sýndarútgáfur af rándýrum merkjafatnaði, skóm og fylgihlutum.

Í byrjun október 2022 bárust fregnir þess efnis að fyrirtækið Moët Hennessy, framleiðandi hins heimsþekkta kampavíns Moet & Chandon, hefði sótt um skráningu á vörumerkjum sínum fyrir vörur í sýndarveruleika.

Slíkar sýndarvörur eru og verða auðkenndar með NFT, sem stendur fyrir „non-fungible token“. Í sinni allra einföldustu mynd er NFT einstakt, raftænt skírteini sem byggir á bálkakeðjutækni. Nánari útskýring á NFT kallar á aðra og mun lengri grein, en NFT gegnir því hlutverki að staðfesta uppruna og eignarhald stafrænna verka og þar með eykur NFT seljanleika þeirra og verðmæti. Nike hefur til dæmis „gefið út“ og selt sýndar-strigaskó með því að nota NFT tækni. Verðmætið sem skapast í metaverse er því ekki sýndar-verðmæti þar sem neytendur í sýndarveruleika hafa nú þegar og munu í auknum mæli vera tilbúnir að eyða raunverulegum fjármunum til að geta tekið þátt.

Líkt og í raunheimum er fyrirséð að fjöldi lagalegra vandamála muni koma upp í heimi sýndarveruleikans. Sem dæmi má nefna álitaefni í tengslum við persónuvernd, samkeppnisrétt, tjáningarfrelsi og síðast en ekki síst hugverkaréttindi af ýmsum toga, þar á meðal vörumerkjarétt, einkaleyfarétt og höfundarétt.

Í raunheimum er fullnægjandi vernd vörumerkja nauðsynleg til að vernda þau verðmæti sem felast í vörumerkjunum sjálfum og þá fjármuni sem settir hafa verið í markaðssetningu, orðspor og uppbyggingu þeirra, en vörumerki fela í sér mikil fjárhagsleg verðmæti og eru oft á meðal verðmætustu eigna fyrirtækja. Notkun þekktra vörumerkja í sýndarheimum kallar á sambærilega vernd af sömu ástæðum, sem skýrir hina fyrrnefndu aukningu á umsóknum um skráningu þekktra vörumerkja fyrir vörur og þjónustu í sýndarveruleika.

Líkt og í raunheimum er fyrirséð að fjöldi lagalegra vandamála muni koma upp í heimi sýndarveruleikans.

Nú þegar hafa komið upp ágreiningsmál í tengslum við meint brot á vörumerkjarétti í sýndarveruleika. Hermès er heimsþekkt franskt tískuhús sem var stofnað árið 1837. Ein þekktasta vara Hermès er Birkin taskan sem er oft nefnd sem eftirsóttasta taska heims. Það er á færi mjög fárra að nálgast töskuna, því bæði er marga mánaða biðlisti og verðmiðinn er á bilinu 1-50 milljónir króna. Gæði og lúxus einkennir Hermès vörumerkið og þær vörum sem tískuhúsið framleiðir og selur. Að bjóða upp á sýndarvörur undir vörumerki fyrirtækisins er talið í andstöðu við framangreindar áherslur á gæði og hefur fyrirtækið tilkynnt að það hyggist ekki nota vörumerki sín í sýndarheimum.

Ein þekktasta vara franska tískuhússins Hermès er Birkin taskan sem er oft nefnd sem eftirsóttasta taska heims.

Það kom hins vegar ekki í veg fyrir notkun vörumerkisins í metaverse, en seint á árinu 2021 voru nokkurs konar MetaBirkin töskur, hannaðar af listamanninum Mason Rothschild, boðnar til sölu í metaverse með notkun NFT tækninnar. MetaBirkin töskurnar litu nánast eins út og hinar eftirsóttu og auðþekkjanlegu Birkin töskur Hermès. MetaBirkin töskurnar seldust eins og heitar lummur og raunar fyrir mjög háar fjárhæðir eða yfir eina milljón Bandaríkjadala. Hermès mótmælti sölunni og hefur höfðað mál á þeim grundvelli að háttsemin feli í sér brot gegn vörumerkjarétti tískuhússins. Listamaðurinn hefur hins vegar hafnað því að um sé að ræða brot gegn vörumerkjarétti Hermès og vísað til tjáningarfrelsis, þar sem sýndartöskurnar séu listaverk og skírskotun í skaðlega meðferð tískuhúsa á dýrum. Áhugavert verður að fylgjast með ferli málsins og niðurstöðu í ljósi þess að Hermès hafði ekki gripið til ráðstafana til að vernda vörumerki sín í sýndarheimum.

MetaBirkin töskurnar seldust eins og heitar lummur og raunar fyrir mjög háar fjárhæðir eða yfir eina milljón Bandaríkjadala.

Umræða um metaverse hefur aukist hér á landi undanfarna mánuði. Undirrituð þekkir ekki dæmi þess að eigendur íslenskra vörumerkja hafi sótt um skráningu merkjanna hjá Hugverkastofunni fyrir vörur og þjónustu í sýndarveruleika, en eflaust verður ekki langt í að slíkar skráningar eigi sér stað. Það er í öllu falli rík ástæða til að huga að fullnægjandi vernd vörumerkja og annarra hugverkaréttinda á þessum vettvangi, ekki síður en í raunheimum.

Höfundur er lögmaður á LEX og framkvæmdastjóri GH Sigurgeirsson IP.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.