Innherji

Íslenskar konur í hættu á að heltast úr lestinni

Ritstjórn Innherja skrifar
Sif Einarsdóttir, löggiltur endurskoðandi og meðeigandi hjá Deloitte á Íslandi.
Sif Einarsdóttir, löggiltur endurskoðandi og meðeigandi hjá Deloitte á Íslandi.

Ný skýrsla ráðgjafafyrirtækisins Deloitte leiðir í ljós að Ísland virðist vera að standa í stað á undanförnum árum þegar kemur að hlutfalli kvenna í stjórnunarstöðum í viðskiptalífinu. Einn af meðeigendum Deloitte á Íslandi segir það hafa komið sér á óvart að sum lönd, sem við höfum hingað til talið okkur standa framar í þessum efnum, vera með jafnari kynjahlutföll en um 30 til 35 prósent stjórnarmanna í íslenskum félögum eru konur.

Nú á dögunum kom skýrsla Deloitte, Women in the boardroom, út í sjöunda sinn. Skýrslan byggir á könnun sem lögð var fyrir árið 2021 meðal stjórnenda í rúmlega 10.000 fyrirtækjum í 51 landi og var ætlað að kanna hlutfall kvenna í stjórnum og stjórnunarstöðum fyrirtækja. Þessu til viðbótar safnaði Deloitte upplýsingum um kynjakvóta og önnur átaksverkefni sem hafa verið sett af stað til að jafna kynjahlutföll í mun fleiri löndum, þar á meðal á Íslandi. Skýrslan gefur því innsýn í markmið og aðgerðir samtals 72 landa á alþjóðavísu um jafnari kynjahlutföll í stjórnum og stjórnunarstöðum fyrirtækja.

„Ég hef tekið þátt í að skrifa kaflann um Ísland í þessari árlegu skýrslu og í tengslum við það hef ég lesið skýrsluna spjaldanna á milli. Ísland hefur ekki tekið þátt í sjálfri könnuninni, en hefur verið í hópi þeirra þjóða sem veita upplýsingar um hvernig staðið er að kynjajafnrétti í sínu landi,“ segir Sif Einarsdóttir, löggiltur endurskoðandi og meðeigandi hjá Deloitte á Íslandi, í samtali við Innherja. 

Það sem vakti athygli mína við þessa skoðun er að Belgía virðast vera búin að ná okkur og Frakkland og Ítalía eru komin fram úr okkur.

„Heiti skýrslunnar í ár er Framfarir á hraða snigilsins, sem gefur til kynna hversu hraðar – eða réttara sagt, hversu hægar framfarir eru á þessu sviði,“ segir Sif, en niðurstöður könnunarinnar sem lögð var fyrir komu henni á óvart miðað við hvernig málaflokknum hefur reitt af fram til þessa.

„Ég verð að viðurkenna að niðurstöðurnar komu mér nokkuð á óvart. Þegar meðfylgjandi tafla er skoðuð má sjá þau lönd sem lenda í fimm efstu sætunum yfir hlutfall kvenna í stjórnum félaga. Þarna eru að hluta til önnur lönd en ég átti von á að sjá,“ segir Sif.

„Sem fyrr segir tók Ísland ekki þátt í sjálfri könnuninni en á heimasíðu Hagstofunnar er að finna sambærilegar mælingar sem gerðar hafa verið hér á landi. Þar má sjá að árið 2021 voru 35% stjórnarmanna í fyrirtækjum með 50 eða fleiri starfsmönnum konur og hefur hlutfallið hækkað um 1,5 prósentu frá árinu 2018. Þetta er svipað og er í Noregi og Svíþjóð. Það sem vakti athygli mína við þessa skoðun er að Belgía virðast vera búin að ná okkur og Frakkland og Ítalía eru komin fram úr okkur,“ útskýrir Sif.

„Mér hefur ekki fundist af fréttaflutningi frá þessum löndum - Belgíu, Frakklandi og Ítalíu - að þau séu eins framarlega og við í jafnrétti kynjanna. Þar er til að mynda hvorki jafn gott fæðingarorlof fyrir báða foreldra eins og þekkist hér á landi né leikskólar fyrir öll börn,“ segir Sif.

„En ég tel að við á Íslandi þurfum að gæta að því að heltast ekki úr lestinni þegar kemur að kynjajafnrétti í stjórnum og stjórnunarstöðum. Það má ekki gleyma því að konur eru enginn minnihlutahópur og því óeðlilegt að þær séu ekki í kringum 50% af ráðandi öflum í viðskiptalífinu. Um 30-35% stjórnarmanna í íslenskum fyrirtækjum eru konur, en tölur Hagstofunnar sýna að hlutfallið er örlítið misjafnt eftir því hvort um er að ræða hlutafélög eða einkahlutafélög og eins er hlutfallið misjafnt eftir stærð fyrirtækjanna. Hlutfall kvenna í stjórnum hefur aðeins lítillega aukist síðastliðin ár. Af hverju stöndum við ekki betur að vígi en þetta þegar kemur að jafnrétti í stjórnum fyrirtækja?,“ spyr Sif.

En ég tel að við á Íslandi þurfum að gæta að því að heltast ekki úr lestinni þegar kemur að kynjajafnrétti í stjórnum og stjórnunarstöðum.

Ef við skoðum umfjöllun í skýrslu Deloitte um hvað þessi lönd, auk Noregs og Svíþjóðar, hafa verið að gera á undanförnum árum þá er hægt að finna áhugaverðar vísbendingar eða svör, að sögn Sifjar.

Sum lönd nota sektir og viðurlög

Frakkland trónir á toppnum en þar eru 43,2% stjórnarmanna konur. Þar hefur ýmislegt verið gert til að ná þessum árangri, útskýrir Sif, svo sem kynjakvóti í stjórnum og það hefur fjárhagslegar afleiðingar fyrir fyrirtæki ef þau fara ekki eftir þeim reglum. Auk þess voru árið 2018 sett lög um jöfn laun kynjanna og fyrir fyrirtæki með 50 starfsmenn eða fleiri þá verða 40% af 10 launahæstu stjórnendum fyrirtækjanna að vera konur, að viðlögðum sektum. Árið 2021 var bætt við kvóta varðandi æðstu stjórnendastöður í fyrirtækjum með yfir 1000 starfsmenn. Þar þurfa konur að vera að lágmarki 30% árið 2027 og árið 2030 hækkar hlutfallið í 40%.

Í fréttum og viðtölum við konur frá suðrænni slóðum hefur virst sem réttindabarátta kvenna eigi þar oft á brattann að sækja, bendir Sif á, og segir að það hafi því komið nokkuð á óvart að Ítalía situr í þriðja sæti yfir hlutfall kvenna í stjórnum. Við lestur á skýrslunni kom í ljós að til að leiðrétta hlutfall kvenna hafa verið settir á kynjakvótar í stjórnum fyrirtækja, allt frá árinu 2011. Þar þurfa að vera að minnsta kosti 30% af körlum og 30% af konum í stjórnum fyrirtækja. Þetta átti að gilda í nokkur ár en var framlengt árið 2019 fyrir skráð félög. Auk þess voru settir ákveðnir kynjakvótar fyrir fyrirtæki í ríkiseigu árið 2012. Skráð félög sem ekki fylgja þessum lögum eru sektuð.

Á meðal skráðra félaga í Kauphöllinni er aðeins ein kona stjórnarformaður en það er Liv Bergþórsdóttir hjá Iceland Seafood.VÍSIR/VILHELM

Belgía er í fjórða sæti listans en þar hafa verið kynjakvótar í stjórnum fyrirtækja frá árinu 2011. Frá og með  2012 gilti það sama um fyrirtæki í ríkiseigu. Árið 2019 komu út nýjar leiðbeiningar um stjórnarhætti þar sem ábyrgð er sett á tilnefningarnefndir um kynjahlutföll í stjórnum. Þá er þar einnig að finna óformlegri átaksverkefni, eins og konur í fjármálafyrirtækjum, með svipaðar áherslur. Frá árinu 2014 þurfa skráð félög að vera með fjölbreytileikastefnu varðandi stjórn, framkvæmdastjórn og aðra stjórnendur.

Norðurlöndin sem voru á topp 5 listanum

Noregur var fyrsta landið í heimi til að taka upp kynjakvóta í stjórnir árið 2005 og í ár er Noregur í öðru sæti listans, samkvæmt skýrslu Deloitte. Þar er 40% lágmark fyrir konur og karla í stjórnum fyrirtækja. Ekkert kemur fram í skýrslunni varðandi sektir, en stjórnvöld hafa sett markmið um að konur séu að minnsta kosti 40% af framkvæmdastjórum fyrirtækja í ríkiseigu og sama gildir um stjórnarformenn í ríkisfyrirtækjum. Í Noregi eiga ríkisfyrirtæki ennfremur að leggja áherslu á að ráða konur sem millistjórnendur.

Frakkland, Ítalía og Belgía eru, að mínu mati, almennt ekki þekkt fyrir að vera framarlega í kynjajafnrétti en ég tel að með því að skjóta sér ofar okkur á þessu sviði séu þessi lönd að taka ákveðna forystu.

Svíþjóð er svo í fimmta sæti en þar eru kynjahlutföll ekki lögbundið, heldur er mikil áhersla lögð á jafnvægi á meðal kynja í öllum félögum, í einkageira jafnt sem opinberum geira, að sögn Sifjar. Í Svíþjóð eru gefnar út leiðbeiningar um stjórnarhætti sem hvetja til jafns kynjahlutfalls og reglu sem mælir fyrir um að þessu sé fylgt eftir eða skýrt hvers vegna það sé ekki gert.

Í skýrslu Deloitte kemur einnig fram að fimm efstu löndin yfir flestar konur í forstjórastöðum eru Singapúr, Svíþjóð, Tæland, Írland og Frakkland. Það virðist vera ákveðin fylgni milli kvenna í forstjórastöðu og fjölda kvenna í stjórnum, þar sem Frakkland og Svíþjóð eru á báðum stöðum.

Norðurlöndin virðast standa í stað

„Við á Íslandi erum með góða þátttöku kvenna í stjórnmálum, konu sem er forsætisráðherra og í trúarlega lífinu, þar sem kona er biskup Íslands, en það er hins vegar þrátt fyrir allt mjög lítið af konum sem eru yfirmenn í fyrirtækjum, hvað þá æðstu yfirmenn. Það kemur því mjög á óvart að sjá að ákveðin lönd sem við höfum talið okkur standa framar eru með jafnari kynjahlutföll en við. Frakkland, Ítalía og Belgía eru, að mínu mati, almennt ekki þekkt fyrir að vera framarlega í kynjajafnrétti en ég tel að með því að skjóta sér ofar okkur á þessu sviði séu þessi lönd að taka ákveðna forystu á meðan Norðurlöndin virðast standa í stað,“ útskýrir Sif.

Það er áhugavert að sjá þau hvatakerfi sem hafa verið sett upp í þeim löndum sem við berum okkur saman við og ég tel að við á Íslandi þurfum að skoða hvort við þurfum að setja upp fleiri hvata en nú er gert.

Í Frakklandi eru 43,2% stjórnarmanna konur og 36,6% á Ítalíu og hefur náðst mikill árangur í þessum löndum síðan 2018 – Ísland, Noregur og Svíþjóð standa hins vegar í stað.

„Við megum ekki sofna á verðinum en það hefur orðið ákveðin stöðnun í þessum málaflokki í viðskiptalífinu þar sem við sjáum ekki miklar breytingar á hlutfalli kvenna í stjórnum eða í æðstu stöðum. Það er áhugavert að sjá þau hvatakerfi sem hafa verið sett upp í þeim löndum sem við berum okkur saman við og ég tel að við á Íslandi þurfum að skoða hvort við þurfum að setja upp fleiri hvata en nú er gert. Ég tel að við þurfum að fara kerfisbundið yfir hvað getum við gert til viðbótar varðandi það að tryggja jafnrétti kynjanna í viðskiptalífinu. Við ættum að vera til fyrirmyndar í þessum efnum, hér á landi er góður grunnur til þess,“ segir Sif.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×