„Ég held við séum allir í skýjunum yfir þessum leik. Við vorum við öllu viðbúnir og undirbjuggum okkur vel fyrir leikinn. Við fengum bara tvær æfingar og miðað við það fannst mér við spila feykivel,“ sagði Kristján Örn þegar Vísir ræddi við hann að leik loknum í kvöld.
Eins og áður segir kom Kristján Örn inn í liðið með frekar skömmum fyrirvara þegar Ómar Ingi Magnússon þurfti að draga sig úr hópnum. Hann bjóst samt við því að fá tækifæri í kvöld.
„Um leið og ég fékk að heyra að Ómar væri ekki þá fannst mér opnast smá glufa fyrir mig. Ég var mjög spenntur og undirbjó mig andlega fyrir þennan leik, ég vissi að ég fengi einhverjar mínútur. Ég nýtti þær vel held ég.“
Kristján Örn sagði að það væri gott að koma inn í landsliðið sem hefur gengið vel hjá á undanförnu.
„Það er frábært. Við erum með svo marga góða leikmenn í hverri stöðu, við getum talið tvo toppklassa leikmenn í hverri stöðu. Að koma inn í þetta verkefni er frábært og að fá að vera með og allt það. Þetta er geggjað.“
Hann sagði markmiðið auðvitað vera að tryggja sæti sitt í liðinu fyrir næsta stórmót.
„Það er alltaf markmiðið. Ég tel að það sé mjög líklegt að það gerist. Við höldum áfram á okkar braut og gerum það sem við gerum best. Áfram gakk,“ sagði Kristján Örn að endingu.