Viðskipti innlent

Alvotech ræður Söruh Tanksley sem framkvæmdastjóra gæðaeftirlits

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Sarah Tanksley hefur yfir 20 ára reynslu af störfum fyrir bandarískar eftirlits- og rannsóknarstofnanir og sem ráðgjafi í eftirlitsmálum fyrir lyfjaiðnaðinn.
Sarah Tanksley hefur yfir 20 ára reynslu af störfum fyrir bandarískar eftirlits- og rannsóknarstofnanir og sem ráðgjafi í eftirlitsmálum fyrir lyfjaiðnaðinn.

Líftæknifyrirtækið Alvotech hefur ráðið Söruh Tanksley sem framkvæmdastjóri gæðaeftirlits hjá Alvotech en hún tekur við af Reem Malki, sem beðist hefur lausnar af persónulegum ástæðum. Sarah Tanksley mun hefja störf þann 14. október næstkomandi.

„Sarah hefur um nokkurt skeið unnið náið með Alvotech sem ráðgjafi og við erum afar ánægð að bjóða hana velkomna í nýtt hlutverk,“ er haft eftir Mark Levick, forstjóra Alvotech í tilkynningu. 

Í tilkynningu kemur einnig fram að Sarah Tanksley hafi yfir 20 ára reynslu af störfum fyrir bandarískar eftirlits- og rannsóknarstofnanir og sem ráðgjafi í eftirlitsmálum fyrir lyfjaiðnaðinn. 

„Hún er aðjúnkt við læknadeild Georgetownháskóla og við Johns Hopkins háskólann, þar sem hún kennir nemendum í meistara- og doktorsnámi góða framleiðsluhætti og um lyfjaeftirlit. Áður gegndi hún stöðum við Bandaríska lyfjaeftirlitið (FDA) og Bandarísku heilbrigðisstofnunina (NIH). Sarah er með MS gráðu í lyfjaeftirliti með áherslu á líftæknilyf frá Johns Hopkins háskólanum og MS gráðu í lífefnafræði og sameindalíffræði frá læknadeild Georgetownháskóla.“

Alvotech, stofnað af Róberti Wessman stjórnarformanni fyrirtækisins, er líftæknifyrirtæki sem einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga. Fyrirtækið vinnur að þróun átta líftæknilyfjahliðstæða sem nýst geta sjúklingum með sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdóma, beinþynningu eða krabbamein. 

Alvotech hefur gert samninga um sölu, markaðssetningu og dreifingu við samstarfsaðila á öllum helstu mörkuðum, í Bandaríkjunum, Evrópu, Japan, Kína, öðrum hlutum Asíu, Rómönsku-Ameríku, Afríku og Mið-Austurlöndum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×