Atvinnulíf

Starfs­á­nægja: Vandinn vex þegar „hveiti­brauðs­dögunum“ er lokið

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Sambandið við yfirmanninn er það atriði sem skiptir starfsfólk mestu máli þegar spurt er um starfsánægju og almennt skora smærri vinnustaðir hærra í ánægju en stærri. Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Moodup sem stóð fyrir könnunum, segir líka athyglisvert að starfsánægja minnkar fljótlega eftir að hveitibrauðsdögum nýrrar vinnu er lokið. 
Sambandið við yfirmanninn er það atriði sem skiptir starfsfólk mestu máli þegar spurt er um starfsánægju og almennt skora smærri vinnustaðir hærra í ánægju en stærri. Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Moodup sem stóð fyrir könnunum, segir líka athyglisvert að starfsánægja minnkar fljótlega eftir að hveitibrauðsdögum nýrrar vinnu er lokið.  Vísir/Vilhelm

Flestir starfsmenn eru ánægðir í starfinu sínu og það á þá helst við um smærri fyrirtæki. Sambandið við yfirmanninn skiptir mestu máli þegar spurt er um starfsánægju og margir vinnustaðir eiga erfitt með að halda starfsfólki ánægðu eftir að nýjabrumið í nýju starfi er farið.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum kannana Moodup sem fram fóru á tólf mánaða tímabili, frá 1.september 2021 til 31.ágúst 2022.

„Það kom mér mest á óvart hvað starfsánægja lækkar mikið eftir tvö til þrjú ár í starfi. Fyrirfram hélt ég að starfsánægja myndi aukast samhliða vaxandi starfsaldri, en fyrstu árin er þróunin þveröfug,“ segir Björn Brynjúlfur Björnsson framkvæmdastjóri Moodup meðal annars um niðurstöðurnar.

Atvinnugrein og fjöldi starfsmanna á vinnustaðnum skipta máli þegar spurt er um starfsánægju. Sextán þúsund manns tóku þátt í könnunum Moodup sem fóru fram á tólf mánaða tímabili. Starfsánægja mældist lægri hjá fólki í framlínustörfum en þó með einni undantekningu: Í ferðaþjónustunni.Vísir/Moodup

Persónuleg samskipti með mikla vigt

Sextán þúsund starfsmenn svöruðu könnunum Moodup á umræddu tólf mánaða tímabili, en sá fjöldi nemur um 7% starfsfólks á landinu öllu.

Í flestum tilfellum var fólk beðið um að svara með einkunnagjöf á mælistikunni 0-10, þar sem 0 er lægsta endurgjöf en 10 besta endurgjöfin.

Athygli vekur að fólk sem starfar á smærri vinnustöðum mælist almennt ánægðara í starfi en fólk sem starfar á stærri vinnustöðum.

Þá er athyglisvert að það atriði sem vegur hvað mest þegar spurt er um starfsánægju, er samband fólks við yfirmann sinn.

Starfsfólk er almennt mjög jákvætt gagnvart beinum yfirmönnum sínum sem og nánasta samstarfsfólki.

 Hins vegar er útkoman verri þegar kemur að almennari þáttum eins og framþróun í starfi, streitu og viðurkenningu,“ 

segir Björn.

Þá segir hann viðhorf fólks gagnvart þeim sem það vinnur náið með almennt jákvæðara en gagnvart vinnustaðnum í heild sinni.

„Persónuleg samskipti hafa því almennt jákvæð áhrif á starfsánægju, en ópersónulegri þættir í starfsumhverfinu geta togað hana niður.“

Mjög athyglisvert er að sjá að af þeim atriðum sem skipta starfsfólk mestu máli þegar spurt er um starfsánægju er sambandið þeirra við yfirmanninn. Hér má sjá brot af þeim athugasemdum sem fólk skrifaði með svörum sínum.Vísir/Moodup

Svörin jafngilda þremur reyfurum

Kannanirnar sem niðurstöður Moodup byggja á voru margar og svaraði hver starfsmaður að meðaltali 3,5 könnunum. Svörin voru alls þrjú hundruð þúsund og starfsfólk skrifaði um tíu þúsund athugasemdir með svörunum.

Að sögn Björns jafngilda þær athugasemdir þremur reyfurum miðað við orðafjölda.

Ýmislegt mátti lesa úr þessum athugasemdum.

Til dæmis:

Ég er ánægð með sveigjanleika fyrir fjarvinnu, í takt við nýja og breytta tíma“

Eða 

„Vera meira í sambandi við fólkið á gólfinu, t.d. með viðburðum, fundum og samþjöppun.“

Þegar búið var að rýna í þessar athugasemdir segir Björn að hægt hafi verið að draga þær saman í átta þemur:

  1. Upplýsingaflæði
  2. Álag og streita
  3. Þjálfun og fræðsla
  4. Vaktarfyrirkomulag
  5. Launakjör
  6. Yfirmenn
  7. Skipulag
  8. Aðbúnað

Meðal athugasemda varðandi upplýsingaflæði má til dæmis nefna:

„Finnst mikið uppá vanta að stjórnendur komi upplýsingum sem tengjast starfinu til skila.“

„Upplýsingaflæði almennt mætti vera mun betra. “

Þegar kom að launum mátti til dæmis sjá athugasemdir eins og:

„Miðað við magn af vinnu þá eru launin frekar lág. “

„Ánægð međ allt, laun geta veriđ ađeins betri. “

Um álag eða yfirmenn:

„Álagið er í hæðstu hæðum núna. Er alveg við það að bogna. “

„Passa þarf upp á álag á lykilfólki, það er dýrt að missa það. “

„Samskipti við yfirmenn eru næstum engin. “

„Yfirmaður mætti hlusta betur. “

„Æðstu yfirmenn ættu að koma oftar í heimsókn til þeirra sem vinna dagleg verkefni. “

Svör starfsfólks í könnunum Moodup voru alls þrjúhundruð þúsund talsins enda svarendur um 7% alls starfsfólks á landinu. Á mynd má sjá Björn á tali við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra,Vísir/Vilhelm

Vandinn eykst eftir hveitbrauðsdagana

Starfsfólk valdi á hvaða tungumáli það svaraði spurningum og sýna niðurstöður að fólk sem svaraði á pólsku gefur almennt lægri einkunn.

Ferðaþjónustan virðist skera sig nokkuð úr. Því almennt skora atvinnugreinar lægra eftir því sem hlutfall framlínufólks hækkar. Að undanskildri ferðaþjónustunni.

Eitt af því sem Birni sjálfum fannst mjög athyglisvert að sjá í niðurstöðum er hvernig starfsánægja þróast miðað við starfsaldur.

Því þar sýna niðurstöður að fólk er ánægðast þegar það er frekar nýbyrjað í starfi eða hefur unnið mjög lengi á sama stað.

Lágpunkturinn er við tveggja til þriggja ára starfsreynslu. 

Eftir eitt til tvö ár er „hveitibrauðsdögunum“ lokið og starfsfólk er líklegra til að upplifa stöðnun,“ 

segir Björn.

Niðurstöður Moodup voru kynntar á fjölmennum morgunfundi á Grand Hótel á dögunum. Fundurinn var haldinn í samstarfi við Líf og sál sálfræði- og ráðgjafaþjónustu og Mannauð, félags mannauðsfólks á Íslandi.

Erindi héldu Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Moodup, og Þórkatla Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Líf & sál. Húsfyllir var á fundinum og segir Björn að sumir hafi hreinlega þurft frá að hverfa.

Húsfyllir var á fundinum þar sem niðurstöður Moodup voru kynntar. Fundurinn var haldinn í samstarfi við Líf og sál sálfræði- og ráðgjafaþjónustu og Mannauð, félags mannauðsfólks á Íslandi.Vísir/Moodup

Tengdar fréttir

Stóra uppsögnin: Fólk þarf að langa að vera í vinnunni

Á Viðskiptaþinginu 2022 sem haldið er á Alþjóðlega mannauðsdeginum föstudaginn 20.maí næstkomandi, er sjónunum beint að mannauðsmálum. Enda telja ríflega 40% stjórnenda í 400 stærstu fyrirtækjum á Íslandi að skortur verði á vinnuafli á næstunni.

„Þá segir Jói: Veistu, þetta er mesta snilld sem ég hef heyrt!“

„Ég man þegar að við tókum við rekstri Rush Trampólín garðsins að þá var eitt það fyrsta sem starfsfólkið spurði okkur „Þýðir það þá að við fáum Pétur Jóhann til okkar líka?““ segir Jóhannes Ásbjörnsson einn eigenda Gleðipinna um hversu vel starf Péturs Jóhanns Sigfússonar í hlutverki Móralska er að mælast hjá starfsfólki.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.