Atvinnulíf

Forstjóri RB í hláturskasti yfir Snapchat myndbandi með filter

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri Reiknistofu bankanna (RB) og hundurinn Eldur taka sér korters göngu alla morgna sem Ragnhildur segir ferska og góða leið til að byrja daginn. Síðasta hláturskastið sem Ragnhildur fékk var vegna myndbands sem systir hennar sendi á Snapchat.
Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri Reiknistofu bankanna (RB) og hundurinn Eldur taka sér korters göngu alla morgna sem Ragnhildur segir ferska og góða leið til að byrja daginn. Síðasta hláturskastið sem Ragnhildur fékk var vegna myndbands sem systir hennar sendi á Snapchat. Vísir/Vilhelm

Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri Reiknistofu bankanna (RB) byrjar daginn á morgungöngu með Eldi hundinum sínum. Stundum hefur hún þó þá þegar þurft að fara yfir eitthvað vinnutengd ef eitthvað hefur gerst um nóttina.

Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.

Hvenær vaknar þú á morgnana?

„Ég vakna klukkan hálf sjö.“  

Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?

„Ég byrja daginn alltaf í smá rólegheitum með sjálfri mér, svona þegar enginn annar er vaknaður á heimilinu, tékka á helstu fréttum og kíki á tölvupóstinn minn. Svo kemur fyrir að það hafa verið einhver atvik yfir nóttina í vinnunni og þá fer ég yfir það.

Ég fer síðan alltaf í göngutúr með hundinn minn. Það er frábær leið til þess byrja daginn, anda að sér fersku lofti og njóta útiverunnar. Við löbbum alltaf sama fimmtán mínútna hringinn.

Í framhaldinu tekur við morgunmatur með fjölskyldunni og að koma krökkunum mínum af stað í skólann. Áður en ég fer í vinnuna fæ ég mér einn espresso og fer yfir helstu fréttir dagsins með manninum mínum.“

Hvar, hvenær og hvers vegna fékkstu algjört hláturskast síðast?

Síðasta hláturskast var þegar ég var að horfa á Snapchat video með filter frá systur minni. 

Við fjölskyldan notum SnapChat talsvert í samskiptum og oft kemur margt skemmtilegt út úr því.“

Það eru ýmiss verkefni í gangi í vinnunni, allt frá stefnumótun yfir í að skipuleggja fyrirhugaða flutninga. Í skipulagi er allt orðið rafænt hjá Ragnhildi, sem þó viðurkennir að það hafi tekið sig nokkur ár að prófa sig áfram til að færa sig frá svörtu minnisbókinni og gulu miðunum.Vísir/Vilhelm

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

„Það er alltaf alls konar á borðinu hjá mér. Við hjá RB erum þessa dagana að vinna í stórum verkefnum eins og útleiða svokallaða stórtölvu. Svo er það stefnumótun og helstu áherslur í henni sem ég alltaf að spá í.

Nú er mér efst í huga að koma nýjum verkefnum inn í RB og huga að vöruþróun varanna okkar.

Við erum líka að undirbúa flutning skrifstofunnar okkar og það finnst mér mjög skemmtilegt verkefni, enda skipulag vinnustaðarins svo mikilvægt fyrir vinnustaðamenninguna og hvernig starfsfólki líður í vinnunni.“

Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?

„Ég held utan um verkefnin mín í OneNotes og svo nota ég líka Notes sem rafræna gula miða. Virkar fínt fyrir mig.

Ég hef verið að þróa mína aðferð í þessu smám saman síðustu ár. Einu sinni var það svört minnisbók og gulir miðar en núna er þetta allt rafrænt.“

Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?

„Ég er alltaf að reyna að fara fyrr að sofa en ég geri, en vanalega fer ég að sofa um ellefu til hálf tólf.“


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×