Atvinnulíf

Þetta endar örugglega skelfilega

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Rétt'upp hendi sem þekkir einhvern sem er alltaf svartsýnn þegar það á að gera eitthvað, breyta einhverju eða stefna á að ná einhverju markmiði. Eða ert þú kannski svartsýni vinnufélaginn?
Rétt'upp hendi sem þekkir einhvern sem er alltaf svartsýnn þegar það á að gera eitthvað, breyta einhverju eða stefna á að ná einhverju markmiði. Eða ert þú kannski svartsýni vinnufélaginn? Vísir/Getty

Það er alveg pottþétt að þetta fer ekki vel. Ekki séns að þetta gangi upp. Að fólki skuli detta í hug að gera þetta? Mun örugglega enda skelfilega.

Rétt'upp hendi sem þekkir mjög svartsýnt fólk.

Eða ert þú kannski svartsýni vinnufélaginn?

Það vill örugglega enginn verða uppvís að því að vera svartsýni vinnufélaginn. Enda ekkert gaman að vera alltaf sá sem er neikvæður og tuðar.

Sá sem er svartsýnn upplifir stöðuna reyndar öðruvísi; að hann/hún sé að benda á það sem gæti gerst og misfarist, sem hinir eru einfaldlega ekki að átta sig á!

En oft er þetta ekki þannig því yfir 90% af því slæma sem við mögulega teljum oft að geti gerst, gerist ekki.

Þess vegna er svo mikilvægt að svartsýni fái ekki að gerjast í hópum eða verða að vana hjá okkur. Enda er svartsýni lýjandi. Bæði fyrir okkur sjálf og aðra í kringum okkur.

Á vinnustöðum getur fólk til dæmis orðið mjög þreytt ef það starfar náið með einhverjum sem er alltaf svartsýn/n. 

Og það eru allar líkur á að svartsýnin smiti eða dragi úr líkum á þeim árangri sem hægt væri að ná. Svartsýni getur því verið eins og snjóbolti sem stækkar og stækkar.

Á ensku er til dæmis talað um Catastrophic Leadership þegar það er yfirmaðurinn sjálfur sem er svartsýni vinnufélaginn. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvaða áhrif sú staða hefur á árangur starfsfólks!

Svartsýni getur verið svolítið erfið viðfangs að því leytinu til að fólk sem er mjög svartsýnt er ekkert endilega alltaf neikvætt. En kikkar svo inn með svartsýni um leið og það á að gera eitthvað nýtt eða öðruvísi, breyta einhverju, leysa úr áskorunum eða ná einhverju nýju markmiði. 

Og viðkomandi sér fyrst og fremst aðeins það sem á versta veg gæti farið!

En hér eru nokkur ráð sem við gripum af vefsíðunni PsychCentral:

Prófaðu að punkta niður hjá þér, hvenær það er sem þú ósjálfrátt verður svartsýn/n. Mögulega áttar þú þig á einhverju mynstri hjá þér. Beinist svartsýnin til dæmis sérstaklega að einhverjum ákveðnum aðstæðum, breytingum, markmiðum?

Núvitund er sögð mjög góð leið til að sporna við svartsýni og á netinu er hægt að finna ýmsar einfaldar leiðir á netinu til að þjálfa sig í núvitund.

Skoraðu svartsýnina á hólm. Þegar þú finnur að svartsýnin er að yfirtaka hugmyndirnar þínar um það sem mögulega gæti gerst, veltu þá fyrir þér: Hversu raunhæf er þessi svartsýni? Hvað er það versta sem gæti gerst ef…?

Að þjálfa sig í lausnarmiðaðri hugsun er góð leið en þetta getur þú æft með því að svissa alltaf yfir í „Hvernig væri hægt að leysa þetta?“ 

Að þjálfa sig í að vera í flæði getur líka verið góð leið. Þá leyfum við hlutunum bara að koma í ljós án þess að ákveða fyrirfram að allt geti farið á versta veg.  Stundum þurfum við líka bara að bíða eftir því að hlutir skýrist.

Búðu til mismunandi sviðsmyndir er líka ágætis ráð. Sem þýðir að í stað þess að gera aðeins ráð fyrir því versta, punktum við niður allar mögulegar niðurstöður (líka þá bestu). Með þessu hjálpum við huganum að sjá að það getur ekki bara verið einhver ein leið eða niðurstaða.

Ræddu málin við vin, maka eða vinnufélaga. Svartsýni er eitthvað sem allir þekkja og upplifa í einhverjum mæli. Að ræða við traustan vin um að þér finnist þú of fastur/föst í svartsýninni og leita ráða gæti hjálpað mikið. 

Ef þér finnst svartsýnin hins vegar fara yfir þau mörk að þú treystir þér til að sporna við henni sjálf/ur gæti verið ástæða til að leita aðstoðar hjá fagaðila. Því svartsýni getur líka verið birtingarmynd viðvarandi kvíða eða þunglyndis sem gott er að fá aðstoð við.


Tengdar fréttir

Algengustu mýturnar í leiðinlegri vinnu

Oooh. Enn einn vinnudagurinn og jafn súrt og það hljómar er fullt af fólki sem nennir varla fram úr einfaldlega vegna þess að þeim finnst svo leiðinlegt í vinnunni.

Tíu algengustu vandamálin á vinnustöðum

Það skiptir engu máli þótt vinnustaðirnir okkar séu ólíkir eða störfin okkar séu af ólíkum toga: Algengustu vandamálin á vinnustöðum eru oftar en ekki þau sömu eða keimlík.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.