Erlent

Nota gervi­greind til að finna ó­til­kynntar sund­laugar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Það kostar að eiga sundlaug í Frakklandi, í það minnsta þegar yfirvöld hafa komist að sannleikanum. 
Það kostar að eiga sundlaug í Frakklandi, í það minnsta þegar yfirvöld hafa komist að sannleikanum.  Getty

Yfirvöld í Frakklandi hafa notað gervigreind til þess að finna sundlaugar í einkaeigu sem eigendur hafa ekki tilkynnt um. Gervigreindin hefur fundið yfir tuttugu þúsund sundlaugar í landinu hingað til.

Þekkt er í Frakklandi að húsnæðiseigendur greini yfirvöldum ekki frá því þegar þeir byggja sundlaugar á landi sínu. Ef sundlaug er hluti af eign hækka húsnæðisskattar verulega og vill fólk spara sér nokkra aura.

Til að bregðast við þessu notaðist franska ríkið við gervigreind frá Google og franska fyrirtækinu Capgemini til þess að greina frá því, með hjálp gervitunglamynda, hverjir eiga sundlaug.

Verkefnið hefur gengið gríðarlega vel og á níu svæðum hafa fundist tuttugu þúsund ótilkynntar sundlaugar. Eigendur þeirra hafa samtals greitt rúmlega tíu milljónir evra, rúmlega 1,4 milljarð íslenskra króna, í skatta í kjölfar þess að gervigreindin fann sundlaugar þeirra.

Sá sem á sundlaug þarf að greiða um tvö hundruð evrur í skatta á ári fyrir hana, rúmlega 28 þúsund krónur. Yfirvöld vonast eftir því að geta notað gervigreindina til að finna fleiri ótilkynnta hluti á landareign fólks, til dæmis garðskála og palla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×