Neytendur

Tapparnir fastir við gos­flöskurnar

Atli Ísleifsson skrifar
Breytingin á töppunum á að skila sér í að þeir skili sér örugglega í endurvinnslu.
Breytingin á töppunum á að skila sér í að þeir skili sér örugglega í endurvinnslu. CCEP

Plastflöskur þar sem skrúfutapparnir eru áfastir flöskuhálsinum munu hefja innreið sína á íslenskan markað á næstu mánuðum. Coca Cola á Íslandi stefnir að því að byrja að notast við nýju tappana í febrúar eða mars á næsta ári, en Ölgerðin stefnir á að gera slíkt hið sama á næsta ári.

Breytinguna má rekja til Evrópureglugerðar sem snýr að einnota plasti sem sé ætlað að skila sér í að tapparnir skili sér einnig örugglega í endurvinnslu.

Stefán Magnússon, markaðsstjóri hjá Coca Cola á Íslandi, segir að undirbúningur standi nú yfir og að vel sé fylgst með þeim mörkuðum þar sem breytingin hafi nú þegar komið til framkvæmda. „Coca Cola er að byrja með þetta í Noregi og þetta er þegar komið í Þýskalandi. Við lærum af reynslunni þar. Við höfum komist að því að þar hefði þurft af fræða neytendur betur um breytinguna.“

Stefán segist viss um að það muni taka neytendur stuttan tíma að venjast breytingunni. „Það þarf bara að snúa tappanum á ákveðinn hátt þannig að hann sé ekki fyrir þegar drukkið er úr flöskunni. Það venst. En það mikilvægasta er að þetta er breyting sem verður umhverfinu til góðs.“

Ölgerðin ætlar að koma nýju töppunum á markað á nýju ári.VÍSIR/VILHELM

Tapparnir skila sér flestir

Stefán segir að Coca Cola hafi upphaflega miðað við að ráðast í breytinguna hér á landi um mánaðarmótin september, október. „Við urðum þó að fresta því og miðum nú við febrúar, mars á næsta ári.“

Hann segir að Íslendingar séu almennt frekar duglegir að koma töppunum sem fylgja plastflöskum í endurvinnslu. Þannig skili tappinn sér í endurvinnslu í um 90 prósent tilvika samkvæmt gögnum frá Sorpu,“ segir Stefán. 

Ölgerðin ræðst sömuleiðis í breytingar

Samkvæmt umræddri reglugerð á breytingin á töppunum að vera komin til framkvæmda í síðasta lagi árið 2024.

Guðni Þór Sigurjónsson, forstöðumaður Vöruþróunar og gæðadeildar Ölgerðarinnar, segir að Ölgerðin stefni sömuleiðis á að koma nýjum töppum á markað á nýju ári.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×