Innherji

Ríkis­endur­skoðun vill ramma utan um óháðu kunn­áttu­mennina

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Samkeppniseftirlitið er til húsa í Borgartúni 26.
Samkeppniseftirlitið er til húsa í Borgartúni 26. VÍSIR/VILHELM

Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að settar verði skýrari reglur eða viðmið er snúa að eftirfylgni Samkeppniseftirlitsins með störfum óháðra kunnáttumanna. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í stjórnsýsluúttekt á eftirlitsstofnuninni.

Á síðustu árum hefur verið fjallað um kostnaðinn sem féll til vegna starfa óháða kunnáttumannsins sem var skipaður til að hafa eftirlit með því að skilyrðum í sátt Festar við Samkeppniseftirlitið yrði fylgt eftir.

Á uppgjörsfundi Festar í mars 2021 greindi smásölufyrirtækið frá því að kostnaður vegna starfa óháða kunnáttumannsins, sem var skipaður árið 2018 og lýkur störfum árið 2023, hefði alls numið 56 milljónum króna. Var kostnaðurinn „verulega hærri en væntingar voru um“, að því er kom fram í uppgjörskynningunni.

Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að liggja fyrir við gerð sátta hvaða úrræði allir aðilar hafa ef upp kemur ágreiningur við eftirfylgni sáttar og störf óháðra kunnáttumanna.

„Ákveðinn forsendubrestur er kominn upp þegar ágreiningur verður um störf eftirlitsaðila. Telur Ríkisendurskoðun eðlilegt að ef slíkt kemur upp taki Samkeppniseftirlitið sáttina til skoðunar og meti hvort tilefni sé til að bregðast við. Samkeppniseftirlitið meti þá hvort eðlilegt sé að fenginn sé inn nýr eftirlitsaðili eða hvort líta þurfi svo á að um brot á sátt sé að ræða,“ segir í stjórnsýsluúttektinni.

Í mars 2022 birti Samkeppniseftirlitið sérstakar verklagsreglur um skipan og störf óháðra kunnáttumanna sem skipaðir eru á grundvelli sátta. Ríkisendurskoðun telur þó að setja megi „formfastari ramma um mat á hæfni og óhæði eftirlitsaðila“ og setja fram skýrari viðmið um eftirlit og eftirfylgni stofnunarinnar með störfum eftirlitsaðila.

Telur Ríkisendurskoðun raunar mikið hafa skort á allar almennar leiðbeiningar um eftirlitsaðila, skipun þeirra, störf og úrlausn ágreiningsmála, þrátt fyrir þær upplýsingar sem komu fram í umburðarbréfi stofnunarinnar.

Á árunum 2018 til 2020, áður en Samkeppniseftirlitið birti hinar sérstöku verklagsreglur, var svonefnt umburðarbréf eftirlitsstofnunarinnar einu leiðbeiningarnar sem fyrir lágu um skipan og störf óháðra kunnáttumanna, meðal annars um þóknun þeirra.

„Telur Ríkisendurskoðun raunar mikið hafa skort á allar almennar leiðbeiningar um eftirlitsaðila, skipun þeirra, störf og úrlausn ágreiningsmála, þrátt fyrir þær upplýsingar sem komu fram í umburðarbréfi stofnunarinnar. Töluverð framför er því fólgin í nýjum verklagsreglum stofnunarinnar þó svo að taka megi undir að í þeim felist fyrst og fremst skjalfesting á því verklagi sem hefur nú þegar verið við lýði um árabil,“ segir í skýrslu embættisins.

Auk þess telur Ríkisendurskoðun að Samkeppniseftirlitið og ráðuneyti samkeppnismála þurfi að kanna hvaða leiðir séu helst færar til að skýra heimild fyrir skipun eftirlitsaðila í því skyni að auka fyrirsjáanleika og gagnsæi enda telur Ríkisendurskoðun að skipun óháðra kunnáttumanna sé eðlisólík öðrum skilyrðum sem sett eru fram í sáttum.

Í þremur samrunamálum á tímabilinu 2018 til 2020 voru skipaðir óháðir kunnáttumenn en málin sem um ræðir eru fyrrnefndur samruni N1 og Festar, yfirtaka Arion banka á TravelCo og kaup Haga á Olíuverzlun Íslands.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.