Innherji

Síminn gerir ekki ráð fyrir að frekari breytingum á söluverði Mílu

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Orri Hauksson er forstjóri Símans.
Orri Hauksson er forstjóri Símans. Isavia

Orri Hauksson, forstjóri Símans, segist gera ráð fyrir því að salan á Mílu klárist án þess að frekari breytingar verði á kaupsamningnum. Þetta kom fram í máli Orra á uppgjörsfundi Símans í morgun.

„Við gerum ráð fyrir því að salan klárist en hún er ekki í höfn eins og þekkt er. Við gerum ekki ráð fyrir því að það verði breytingar á kaupsamningi,“ sagði Orri spurður hvort hann ætti von á því að salan kláraðist og söluverðið héldist óbreytt.

„Allt sem verið er að vinna að þessa dagana snýr ekki að kaupsamningi heldur að þeim skilyrðum sem snúa að Samkeppniseftirlitinu án þess að það hafi áhrif á kaupsamning.“

Eftir að franska sjóðastýringarfyrirtækið Ardian lagði til að einkakaupasamningur milli Símans og Mílu yrði til 17 ára í stað 20 ára náðist samkomulag um að lækka kaupverðið úr 78 milljörðum króna niður í 73 milljarða.

Samkeppniseftirlitið hefur látið þá skoðun í ljós að framboðin skilyrði séu ekki fullnægjandi en fram kom í bréfi eftirlitsins til LEX, sem er helsti lögfræðilegur ráðgjafi Ardian hér á landi, fyrr í mánuðinum að eftirlitið hefði „fullan hug á áframhaldandi sáttarviðræðum með það að markmiði að finna ásættanlega lausn á þeim samkeppnisvandamálum sem eftirlitið hefði komið auga á.“

Þá var sömuleiðis ítrekað að rof á eignatengslum Símans og Mílu væru jákvæð, en samhliða að það væri verkefni eftirlitsins að tryggja virka samkeppni á fjarskiptamarkaði. Samkeppniseftirlitið féllst á ósk Ardian um framlengdan frest á rannsókn samrunans til 15. september.

Samkvæmt umsögnum sem bárust eftirlitsstofnuninni telja keppinautar Símasamstæðunnar þörf á frekari skilyrðum af hálfu Ardian og að heildsölusamningurinn við Mílu verði styttur enn frekar. Ardian og Síminn hafa hins vegar gert margvíslegar athugasemdir við umsagnir keppinautanna, einkum umsögn Ljósleiðarans, sem, að sögn franska sjóðastýringarfyrirtækisins, leitast við að fá Samkeppniseftirlitið til þess að „verja markaðsráðandi stöðu sína“.

Í nýbirtu uppgjöri Símans, þar sem Míla er flokkuð sem aflögð starfsemi, kemur fram að hagnaður af áframhaldandi starfsemi hafi numið 410 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi samanborið við 342 milljónir á sama fjórðungi í fyrra. Tekjur námu 6.036 milljónum og jukust um 1,7 prósent milli ára.

Stjórnendur Símans búast við nokkrum launahækkunum á næstu misserum.

„Að einhverju marki kemur það til vegna launaskriðs, auk þess sem komandi kjarasamningar eru stór óvissuþáttur í kostnaði félagsins á næsta ári,“ segir í uppgjörinu.

Innherji er undir hatti Sýnar hf.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.