Klinkið

Hætti sem stjórnarformaður Kerecis að kröfu nýja danska fjárfestisins

Ritstjórn Innherja skrifar
Guðmundur Fertram hafði verið stjórnarformaður Kerecis allt frá stofnun félagsins árið 2009. Andri Sveinsson fjárfestir hefur núna tekið við stjórnarformennskunni.
Guðmundur Fertram hafði verið stjórnarformaður Kerecis allt frá stofnun félagsins árið 2009. Andri Sveinsson fjárfestir hefur núna tekið við stjórnarformennskunni.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis, gegnir ekki lengur stjórnarformennsku í hinu ört vaxandi íslenska fyrirtæki í kjölfar aðalfundar þess í liðnum mánuði en þar var fulltrúi Kirkbi, fjárfestingafélag LEGO-fjölskyldunnar, kjörinn nýr í stjórnina eftir að danska félagið keypti rúmlega sex prósenta hlut í Kerecis fyrir jafnvirði um 5,5 milljarða króna.

Fram að aðalfundinum hafði Guðmundur Fertram verið stjórnarformaður Kerecis, sem er með höfuðstöðvar sínar á Ísafirði og framleiðir afurðir úr þorskroði sem eru seldar til meðhöndlunar á þrálátum sárum, samfellt frá því að hann kom að stofnun fyrirtækisins árið 2009.

Danska fjárfestingafélagið mun hafa gert athugasemdir við að Guðmundur Fertram væri í senn forstjóri og stjórnarformaður félagsins og lagði því til að hann hefði stólaskipti við Andra Sveinsson, fjárfestir og stjórnarmann í Kerecis til margra ára, sem tæki þess í stað við sem formaður stjórnar. Það varð úr en Andri, sem er meðal annars fyrrverandi meðeigandi fjárfestingafélagsins Novator, fer fyrir félaginu Omega ásamt Birgi Má Ragnarssyni en það er stærsti einstaki hluthafi Kerecis með um 14 prósenta hlut.

Guðmundur Fertram er hins vegar eftir sem áður einn fimm stjórnarmanna í Kerecis.

Sá sem kom nýr inn í stjórnina frá Kirkbi, eins og áður hefur verið sagt frá í fjölmiðlum, var Niklas Sjöblom í stað Ernest Kenney, eins stofnenda Kerecis, sem ákvað að láta af störfum vegna aldurs. Aðrir stjórnarmenn eru Franck Sinabian og Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands.

Danska félagið, sem er eigandi LEGO-vörumerkisins, fjárfesti fyrir 40 milljónir Bandaríkjadala í Kerecis í lokuðu hlutfjárútboði fyrr í sumar en til viðbótar keyptu meðfjárfestar fyrir um 20 milljónir dala og 10 milljóna dala skuldabréfi var jafnframt breytt í hlutafé. Þá var 30 milljóna dala lánalína félagins hjá Silicon Valley bankanum framlengd. Að lokinni þessari fjármögnunarlotu er áætlað markaðsvirði Kerecis 620 milljónir dala, jafnvirði um 87 milljarðar íslenskra króna á núverandi gengi.

Á meðal nýrra stofnanafjárfesta sem hafa bæst við hluthafahóp félagsins eru Brú lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður Vestmannaeyja.

Heildartekjur Kerecis á síðasta fjárhagsári sem lauk 30. september 2021 voru 29 milljónir dala, jafnvirði 4 milljarða króna, og gerir félagið ráð fyrir að brúttótekjur fyrir núverandi fjárhagsár muni meira en tvöfaldast. Stærsti hluti tekna Kerecis kemur frá Bandaríkjunum og stefnir félagið á að fjölda sölumönnum úr 150 í 240 í kjölfar hlutafjáraukningarinnar. 

Á síðasta ári var til skoðunar að skrá félagið á hlutabréfamarkað í Svíþjóð eða Bandaríkjunum en stjórn Kerecis hætti við þau áform vegna erfiðra aðstæðna á mörkuðum.

Samtökin Emerson Collective, sem voru stofnuð af Laurene Powell Jobs, ekkju Steve Jobs, bættust við hluthafahópinn árið 2019 og eru nú á meðal stærstu hluthafa Kerecis. Aðrir helstu eigendur, fyrir utan Omega, eru meðal annars félög í eigu forstjórans Guðmundar Fertrams, franska fyrirtækið CuraeLab, Hraðfrystihúsið Gunnvör og félag í eigu Sigurbjörns Þorkelssonar, aðaleigenda Fossa fjárfestingabanka.


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×