Innherji

Stór­felldri til­færslu hjá LV og Gildi verður „án efa vísað til dóm­stóla“

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Skrifstofa Gildis lífeyrissjóðs í Guðrúnartúni. 
Skrifstofa Gildis lífeyrissjóðs í Guðrúnartúni.  VÍSIR/VILHELM

Bjarni Guðmundsson, sjálfstætt starfandi tryggingastærðfræðingur sem veitir fjölda lífeyrissjóða ráðgjöf, segir að ákvarðanir Lífeyrissjóðs verslunarmanna (LV) og Gildis lífeyrissjóðs um að breyta áunnum réttindum mismikið eftir aldurshópum feli sannarlega í sér „stórfelldan tilflutning verðmæta“ frá ungu kynslóðinni til hinnar eldri. Framkvæmdastjórar sjóðanna hafa vísað þessari túlkun á bug.

„Þær breytingar sem hér er um fjallað má meta til tuga milljarða króna og verður án efa vísað til dómstóla ef svo ólíklega fer að þær nái fram að ganga,“ skrifar Bjarni í grein sem var birt á Innherja í morgun.

Innleiðing nýrra líftaflna hækkaði mat skuldbindinga lífeyrissjóða – þeir þurfa að greiða mánaðarlegan lífeyri í lengri tíma en reiknað var með – og voru viðbrögð nokkurra sjóða, þar á meðal Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LIVE) og Gildis lífeyrissjóðs, að lækka réttindaöflun til framtíðar og auk þess að lækka áunnin réttindi sjóðfélaga mismikið eftir aldurshópum

Samhliða því voru áunnin réttindi sjóðfélaga aukin þvert yfir línuna en í ljósi áðurnefndrar lækkunar var niðurstaðan sú að aukningin var minnst hjá yngstu árgöngunum en mest hjá þeim eldri. Þannig hækkuðu áunnin réttindi sextugra lífeyrisþega hjá LIVE um rúm 15 prósent en réttindi tvítugra sjóðfélaga um 6,7 prósent. Álíka mismun má sjá hjá Gildi.

Bjarni, sem hefur starfað sem tryggingastærðfræðingur í meira en 30 ár, gagnrýndi þessa ráðstöfun harðlega í byrjun sumars. Hann sagði að það fordæmalaust og brjóta gegn samþykktum sjóðanna að skerða áunninn réttindi misjafnlega eftir hópum. Auk þess væru sjóðirnir aflögufærir – skuldbindingar sjóðanna eru enn töluvert lægri en eignir – og því væri engin ástæða til að breyta réttindum með þessum hætti.

Bjarna reiknaðist til að flutningur verðmæta frá yngri sjóðfélögum LV til lífeyrisþega næmi að minnsta kosti 17 milljörðum króna og sé áreiðanlega yfir 20 milljörðum króna ef allt er talið. Og þá væru áhrifin á yngri sjóðfélaga í fleiri lífeyrissjóðum eins og Gildi, sem er þriðji stærsti lífeyrissjóður landsins, ótalin. Færu fleiri sjóðir að fara sömu leið gæti tilfærslan milli kynslóða hlaupið á tugum milljarða króna.

Framkvæmdastjórar LV og Gildis birtu í kjölfarið grein á Innherja þar sem þeir vísuðu því á að breytingarnar sem voru gerðar á áunnum lífeyrisréttindum fælu í sér að brot á eignarrétti yngri sjóðfélaga. Þvert á móti stuðluðu breytingarnar að „jafnræði milli sjóðfélaga“ og komu í veg fyrir „stórfelldan og óréttlátan tilflutning verðmæta“ frá eldri sjóðfélögum og lífeyrisþegum til þeirra sem yngri eru.

Um þau réttindi verður að ríkja traust, og tryggt verður að vera að þeim verði ekki breytt afturvirkt með geðþóttaákvörðunum frá því sem sjóðfélögum var kynnt er iðgjald var greitt.

Í svargrein sem Bjarni birti á Innherja í dag fer hann yfir helstu atriðin sem komu fram í grein framkvæmdastjóranna, meðal annars það að Bjarni misskildi um hvað málið snerist. Þeir sögðu að breytingarnar fælu ekki í sér neina tilfærslu á verðmætum.

„Ekki kemur þó fram í löngum hugrenningum framkvæmdastjóranna í hverju misskilningur minn á samþykktum lífeyrissjóða sé fólginn. Er mér nær að halda að þeir hafi sjálfir misskilið grundvallaratriði um réttindi sjóðfélaga í þeim lífeyrissjóðum sem þeir veita forstöðu. Hér á eftir verður sýnt fram á að vissulega eru verðmæti flutt til frá því sem núverandi samþykktir hafa gefið fyrirheit um. Sá tilflutningur er stórfelldur,“ skrifar Bjarni.

Í grein framkvæmdastjóranna er aðgerðin rökstudd þannig að sérhver árgangur haldi sömu fjármunum og honum voru reiknaðir samkvæmt fyrri lífslíkum.

„Nú er það hins vegar svo að árgöngum sjóðfélaga hafa aldrei verið reiknaðir fjármunir. Óheimilt er að skipta eignum lífeyrissjóða nema það sé ákveðið í samþykktum lífeyrisjóðsins og því er ekki til að dreifa í samþykktum þessara sjóða,“ skrifar Bjarni.

„Sjóðfélagarnir eiga í sjóðnum stjórnarskrárvarin réttindi sem eiga stoð í öllum eignum sjóðsins, og það er rétturinn til að fá greiddar þær fjárhæðir í lífeyri sem samþykktir tilgreina og þau réttindi verða ekki af sjóðfélögum tekinn með geðþóttaákvörðun. Mismunandi skerðing réttinda eftir aldri, og síðan jöfn aukning felur sannarlega í sér tilflutning verðmæta milli kynslóða.“

Enginn umreikningur af þessu tagi í hollenska lífeyriskerfinu

Réttindakerfi hollenskra lífeyrissjóða er svipað og hjá íslensku sjóðunum, þ.e.a.s. þeir gefa fyrirheit um tiltekin réttindi fyrir greitt iðgjald án þess að njóta beinnar bakábyrgðar.

„Engar fregnir hafa borist af ævintýralegum umreikningi áunninna réttinda í hollenskum lífeyrissjóðum við upptöku reiknilíkana fyrir lengingu lífaldurs, þótt tryggingafræðileg staða hollensku sjóðanna versnaði vissulega við breytinguna. Hollenskir sjóðir eru þrátt fyrir allt töluvert stærri en íslenskir lífeyrissjóðir, og má ekki ætla að þeir hafi á sínum snærum einhverja lögfróða aðila?“ spyr Bjarni.

„Ekki virðast þeir lögfræðingar hafa komist að þeirri niðurstöðu að skylt hafi verið að kollvarpa réttindum sjóðfélaga við upptöku á reiknilíkönum um lengingu lífaldurs. Mun lagatúlkun á þann veg án efa vekja eftirtekt, ef henni verður fram haldið við alþjóðlega dómstóla.“

Ekki virðast þeir lögfræðingar hafa komist að þeirri niðurstöðu að skylt hafi verið að kollvarpa réttindum sjóðfélaga við upptöku á reiknilíkönum um lengingu lífaldurs.

Þá segist hann trúa því fastlega að Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands og fjármálaráðuneyti muni koma í veg fyrir að slíkar breytingar á samþykktum fái staðfestingu og afstýra þannig „skaða og trúnaðarbresti“.

„Launþegum er að lögum skylt að verja stórum hluta tekna sinna til öflunar lífeyrisréttinda. Um þau réttindi verður að ríkja traust, og tryggt verður að vera að þeim verði ekki breytt afturvirkt með geðþóttaákvörðunum frá því sem sjóðfélögum var kynnt er iðgjald var greitt. Svo vitnað sé til orða fyrrum fjármálaráðherra sem naut mikillar virðingar fyrir heiðarleika, orðheldni og réttsýni, Magnúsar Jónssonar : „Svona gera menn ekki“,“ skrifar Bjarni.

Aðgerðirnar eru, að hans sögn, ekki í samræmi við samþykktir lífeyrissjóðanna. Stjórnum, trúnaðarmönnum og framkvæmdastjórum lífeyrissjóða beri að virða samþykktir þeirra sjóða sem þau starfa fyrir og þau fyrirheit sem sjóðfélögum eru með þeim gefin hafi sjóðurinn til þess efni.

„Ljóst er að eftir því sem eldri árgangar falla úr hópi greiðandi sjóðfélaga verður enn að lækka réttindaöflun, og yngri sjóðfélögum því gefin fyrirheit um meiri réttindaöflun en vitað er að unnt verður að veita gangi forsendur eftir. Hvers vegna að fara fram með slíkum blekkingum?“ spyr Bjarni.

„Ekki skal dregið í efa að fallegur hugur hafi fylgt áformum framkvæmdastjóranna til hækkunar réttinda eldri sjóðfélaga með skerðingu réttar hinna yngri. Það er hins vegar ekki á þeirra valdi að framkvæma slíka dreifingu á fé lífeyrissjóðanna. Þeim eignum er ætlað tiltekið hlutverk, nefnilega að tryggja þau réttindi sem samþykktir tilgreina.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.